Orð: Þórdís Nadia Semichat
Fólk segir oft að skemmtilegasti tími lífs þeirra hafi verið í menntaskóla. Líklegast var það fólk sem ólst upp með heilbrigða sjálfsmynd og hafði einstaklega gott úthald í að sitja út tíma þar sem kennt var úrelt námsefni klukkan átta á morgnana. Það væri kannski ansi harðort að segja að menntaskóli hafi verið versti tími lífs míns, en hann var svo sannarlega ekki besti tími lífs míns. Sjálfshatrið, þreytan, stöðugar áhyggjur af vaxtarlagi, afbrýðisemi, leiðinleg námsfög, svo fátt eitt sé nefnt, var það sem einkenndi menntaskólaárin mín.
Þrátt fyrir að vera unglingurinn sem hataði allt sem hægt var að hata, hafði ég gaman af dönsku. Ég veit ekki hvort þessi áhugi minn tengdist meira tungumálinu eða kennurunum sjálfum. Dönskukennarar eru nefnilega annars konar þjóðflokkur. Að einhver skuli velja sér að kenna dönsku, fag sem flestir menntaskólanemendur hata, hlýtur að vera einhvers konar merki um þrautseigan persónuleika eða bara manneskju sem aðhyllist masókisma. Ekkert öskrar meira íslenskan raunveruleika en dönskutímar í menntaskóla. Lykt af hormónum, kókómjólk og ostaslaufum í bland við kaffi-andfýlu kennarans er eitt það hversdagslegasta sem hægt er að finna. Dönskutímar voru svo leiðinlegir að þeir urðu skemmtilegir.
Ég man að reglulega fengum við hlustunaræfingar til þess að hlýða á, miðaldra íslensk kona las inn á hljóðupptöku sem rödd hinnar tvítugu, dönsku Lisu sem sagði frá ferðalagi sínu um Ísland. „Kære mor og far“ hófst bréf hennar sem hún skrifaði til foreldra sinna í Árósum „jeg bor nu i en by som hedder Fáskrúðsfjörður“ sagði hún löturhægt og með lýtalausum hreim. Ég man að ég velti því fyrir mér hversu margir Danir gætu raunverulega borið fram Fáskrúðsfjörður án þess kúgast verulega. Ferðalög stúlkunnar innihéldu ævintýralegar athafnir þar sem hún lærði að prjóna og fór í fjöruferðir, sem er auðvitað draumur hverrar tvítugrar konu sem er rétt að hefja lífið.
Undantekningarlaust gerðist það þegar 20 unglingar sátu geispandi og andfúlir í morgunsárið að fylla dönsk orð inn í eyður um æsispennandi ævintýri Lisu frá Árósum, að geisladiskurinn sem við vorum að hlusta á hökti. „Det var en dejlig da da da da da da…“ – „hvurslags andskotans drasl er þetta“ tautaði kennarinn í hvert einasta skipti. Hægfara og þung á brún kjagaði hún í gegnum skólastofuna að geislaspilaranum. Hún flækti hálsmenið sitt eða öllu heldur rauða kaðalinn með skátahnútunum, sem hún keypti dýrum dómi af listakonu í Hveragerði, í loftnetið á útvarpinu. Meðan hún stóð hokin yfir tækinu, greip hún um mjóbakið endrum sinnum og hreytti í okkur að hjálpa sér, hún væri nefnilega með slitgigt og mætti ekki beygja sig svona mikið. Enginn stóð upp og hjálpaði henni, við flissuðum bara ofan í bringuna á okkur. Hún fékk litla samúð frá okkur enda fáir unglingar sem tengja eitthvað við slitgigt eða ljótar hálsfestar frá Hveragerði. Hún slökkti á stamandi Lisu og tók geisladiskinn ú úr tækinu og leit aftan á hann. Þeir sem sátu fremst sáu að geisladiskurinn var vel rispaður eftir klaufskan kennara sem átti það til að missa geisladiskinn þegar hendur hennar flæktust í hekluðu peysunni, einnig keypt hjá listakonu frá Hveragerði. Fataval hennar virtist vera ein stór slysagildra, sem er kannski annað merki um að hún hafi aðhyllst masókisma. Hún kjagaði svo tilbaka í gegnum kennslustofuna á þungum rauðum klossum með geisladiskinn í hendinni. Hún skrúfaði frá vatninu í vaskinum á skólastofunni og hélt langa ræðu á dönsku um hvað það væri nú orðið slæmt hve háð tækninni við værum orðin, sem væri svo óáreiðanleg eins og sjá mættti, svo fylgdi á eftir saga um hvað allt var nú öðruvísi en þegar hún var ung. Meðan ég teiknaði yfirvaraskegg á Søren, ungan dreng sem sagði okkur allt um Kaupmannahöfn í „Vi skal snakke sammen“ bókinni, fann ég samnemendur mína nötra. Ég horfði yfir bekkinn sem víbraði eins og sími á silent, allir gjörsamlega að springa úr hlátri. Konan með slitgigtina stóð yfir vaskinum dálítið sveitt að skola eitthvað. Ég teygði mig fram yfir borðið til þess að sjá hvað hún væri að gera. Þarna stóð greyið konan og þreif rispaða geisladiskinn með svampi og heitu vatni. Aðstæðurnar voru það fáránlegar að enginn þorði að segja neitt við hana. Hún þurrkaði geisladiskinn með klósettpappír og setti hann aftur í spilarann. „Kære mor og far. Jeg bor nu i en by som hedder Fáskrúðsfjörður…“. Skólabjallan hringdi og aldrei náðum við að klára hlustunaræfinguna um Lisu og búsetu hennar á Fáskrúðsfirði.
Eitt er þó víst, dönskukennarinn kenndi mér ekki einungis dönsku, heldur líka að líða vel með sjálfa mig í gegnum hennar hrakfarir.