Síðastliðinn laugardag (26. janúar) gaf íslenski rapparinn Ezekiel Carl út myndband við lagið Flexa á Youtube (sjá hér að ofan).
Lagið—sem er jafnframt eitt vinsælasta lag rapparans—er að finna á mixteipinu Ísbíllinn sem kom út í fyrra.
Titill lagsins vekur kannski athygli sumra hlustenda; bandaríska slanguryrðið Flex hefur verið fyrirferðarmikið í hérlendri rapptónlist undanfarin misseri (rappararnir Birnir, Herra Hnetusmjör og Alexander Jarl hafa allir tekið sér orðið í munn, t.d.).
Sögnin to flex á ensku merkir að beygja eða spenna (t.d. vöðva), og talið er að slanguryrðið to flex (sem merkir að flíka, að stæra sig af einhverju eða gorta) hafi þróast út frá upprunalegri merkingu orðsins og þá sem myndlíking: Alveg eins og að kraftakarlar hnykla vöðvana til þess að sýnast sterkir, flíka rapparar munaðarvörum til þess að sýnast auðugir (því mætti kannski segja að ákveðin sýndarmennska felist í fyrirbærinu að flexa).
Þá er einnig áhugavert að skoða þróun orðsins í samhengi rapptónlistar. 20 ára aðskilja samnefnd lög eftir Tupac og Rich Homie Quan; í lagi Tupac þýðir orðið flex að sýna krafta sína (svipuð notkun í eftirfarandi setningu rithöfundarins Howard Kaplan: „They had spent six years since the lightning Six Day War flexing their invincibility“) á meðan Quan notar orðið á sama veg og Ezekiel Carl (sjá hér að neðan).
Rapptónlist hefur frá öndverðu snúist, að hluta til, um hnyttið raup—og lengi hefur flexið verið í fyrirrúmi, s.b.r. Big L:
Before I buck lead /
And make a lot of blood shed /
Turn your tux red /
I’m far from broke
Got enough bread /
And mad hoes
Ask Beavis: I get nothing Butthead /
Hér fyrir neðan er svo viðtal SKE.is við Ezekiel Carl frá því í fyrra: