Fréttir
Dream Wife er bresk pönksveit frá Brighton í Englandi. Sveitin gaf út sína fyrstu hljóðversplötu, Dream Wife, síðastliðinn 26. janúar og hefur platan hlotið fína dóma.
Í morgun (8. mars) gaf hljómsveitin út myndband við síðasta lag plötunnar, F.U.U (sjá hér að ofan) en lagið skartar íslenska rapparanum Fever Dream sem jafnframt flytur erindi sitt á móðurmálinu.
SKE heyrði í Fever Dream í morgun og spurði hana nánar út í samstarfið:
„Aidan Zamiri leikstýrði myndbandinu og var það skotið í sal sem er notaður undir glímukeppnir kvenna í Lundúnum. Glímukonurnar í myndbandinu eru, sem sagt, alvöru og héldu risakeppni kvöldið eftir að við tókum upp. Lagið er í raun tveggja ára gamalt og varð fyrst til í mun rólegri útgáfu, í anda D’Angelo. Svo sátum við Rakel Mjöll saman á Prikinu á miðvikudegi og hún spurði hvort ég vildi ekki semja erindi við lagið og koma og flytja það með þeim daginn eftir á Húrra (og fara með þeim á Lunga líka). Þegar ég mætti svo í ‘soundcheck’ daginn eftir vissu Alice og Bella ekki af því og það var svolítið fyndið dæmi, að kynnast þeim þannig. Við tókum lagið svo upp í fyrra í hljóðveri í Fulham í Lundúnum. Þær eru svo geggjaðar og samstarfið hefur verið mjög gott.“
– Vigdís Howser (Fever Dream)
Líkt og segir hér að ofan hefur platan Dream Wife hlotið fína dóma og fékk hún, meðal annars, fullt hús stiga frá gagnrýnenda veftímaritsins NME: „Fyrsta plata þríeykisins, sem margir hafa beðið eftir í ofvæni, er alger power-pop unun.“
Nánar: https://www.nme.com/reviews/alb…
Þess má einnig geta að myndband Dream Wife við lagið Fire var tekið upp á Íslandi.