Fórnarlambið nafnlausa í hinu svokallaða Stanford nauðgunarmáli útskýrði á þriðjudaginn hvers vegna hún kysi að halda nafni sínu leyndu, jafnvel eftir að dómur hafi verið kveðinn upp í dómsmáli hennar gegn nemandanum og sundkappanum Brock Turner.
Eftirfarandi skilaboð bárust til fréttaþularins Frank Somerville hjá sjónvarpsstöðinni KTVU:
„Ég kýs að halda nafni mínu leyndi, vissulega til þess að vernda sjálfa mig, en þetta er einnig yfirlýsing. Allir þeir sem hafa stutt mig í þessari baráttu eru að berjast fyrir manneskju sem þeir þekkja ekki. Það er fegurðin í þessu öllu saman. Ég þarf ekki stimpil, ég vil ekki vera flokkuð sem hitt eða þetta, til þess eins að sýna fram á að ég eigi virðingu skilið. Ég stíg fram sem kona og óska þess, fyrst og fremst, að fá áheyrn. Það er enn ýmislegt sem mig langar að segja þér. En eins og stendur – þá er ég sérhver kona.
– anonymous
Eins og frægt er orðið hefur dómur í máli Turner valdið talsverðu fjaðrafoki vestanhafs, en Turner, sem átti yfir höfði sér allt að fjórtán ára fangelsisdóm, fékk sex mánaða dóm. Þegar hafa hundruði þúsunda lýst yfir stuðningi við undirskriftarlista þar sem krafist er brottvísun dómara málsins, Aaron Persky.
Einnig hafa viðbrögð föður Brock, Dan Turner, vakið óhug almennings. Í bréfi sem Dan Turner ritaði syni sínum til varnar lýsti hann nauðguninni sem „tuttugu mínútna nautn.“ („20 minutes of action.“ Það er ómögulegt að þýða orðið „action“ yfir á íslensku í þessu samhengi. Á ensku er talað um „a piece of action“ sem tilvísun í kynlíf. Merkingarblær frasans er sá að kvenmaðurinn er yfirleitt hlutgerður og nautn karlmannsins er undirstrikuð.) Dan Turner hefur dregið ummæli sín til baka.
Hann tjáði blaðamanni Huffington Post eftirfarandi:
„Orð mín voru rangtúlkuð. Ég var að reyna undirstrika skammleika verknaðarins. Ég var ekki að lýsa nauðguninni sjálfri sem ,nautn.‘ Þetta var óheppilegt orðaval og ætlunin var ekki að særa eða móðga neinn.“
– Dan Turner