Viðtöl
SKE: Vefsíðan Bland.is geymir býsna frásagnarverðan þráð frá árinu 2006 þar sem maður að nafni Bumbi gangavörður kvartar undan því að hann sé ekki lengur
„óhultur“ á kaffihúsinu Ara í Ögri. Ástæðan fyrir óörygginu er sú að ólæsir FM Hnakkar hafi nú hafið innrás sína í staðinn, fyrrnefndum gangaverði til mikils ama. Í kjölfarið myndaðist ansi lífleg umræða þar sem fjölmargt fólk tók undir orð Bumba og virtist harma það að „þessi kvikindi“ væru alls staðar. Þá geymir þráðurinn marga gullmola sem varpa vafalaust ljósi á klofinn tíðaranda—og má þar helst nefna: „Hvað er að ykkur stelpur? Hnakkar eru flottastir,“ „Ég fíla hnakka: Þeir eru fallegri í framan en flestir typpalingar!“ og, að ógleymdri óðauðlegri staðhæfingu frá manneskju sem kallar sig glmom: „Flestir mínir kærastar hafa verið hnakkar—og munu líka vera það í framtíðinni.“ Á meðan notendur Bland rifust um ágæti fyrirbærisins Hnakki stakk einn notandinn upp á því að sleppa bara kaffinu á Ara í Ögri og neyta vatns í heimahúsi þess í stað. Undir þessi orð tók notandinn Kúlusúkk, sem gaf það í skyn að hún ætlaði heldur betur að sötra vatn í heimahúsi og „blast-a Love Gúrú á meðan.“ Love Guru vísar að sjálfsögðu í hliðarsjálf útvarpsmannsins Þórðar Helga Þórðarsonar, sem á sínum tíma gerði grín að „gegndarlausri partímenningu hnakkakynslóðarinnar,“ eins og blaðamaður Morgunblaðsins orðaði það. Nýverið gaf Love Guru út lagið „Mér er boðið“ í samstarfi við Helga Sæmund, Cell7 og Steinar Fjeldsted. Í tilefni þess heyrði SKE í Þórði og forvitnaðist um tónlistina og lífið.
Bland.is: https://bland.is/umraeda/fm-hnakka-ofeti-raendu-ara-i-ogri/3296912/
Viðtal: RTH
Viðmælandi: Þórður Helgi Þórðarson
SKE: Sæll og blessaður. Hvað segirðu þá?
Þórður Helgi Þórðarson: Ég segi rosa fínt. Sjaldan verið betri.
SKE: Þú varst að gefa út lagið Mér er boðið ásamt Cell7 og Steina Fjeldsted. Hvernig kom lagið til og hvers vegna fékkstu Cell7 og Steina til liðs við þig?
ÞHÞ: Ég ætla að halda upp á 15 ára afmæli Party Hetjunnar: Love Guru platan sem MSK gaf út 2004 (MSK = Mannaskítur, sumsé útgáfufélag hljómsveitarinnar Mínus). Ég hef náttúrulega gefið út fullt af lögum síðan að sú plata kom út og planið var að safna þeim saman og gefa út á Spotify.
Ég hef verið að vinna í lagi í sex til sjö ár og það átti, sem sagt, að vera nýja lagið á plötunni … en það er enn bið á því (lagið er ekkert merkilegt eða flókið—það gefast bara allir pródúserar upp á því og ég þarf alltaf að byrja upp á nýtt. Lagið átti fyrst að vera lag fyrir þáttinn okkar Sölku Sólar, Hanastél.) Það er meira þrjóska en áhugi að ég skuli enn vera að vinna í því; það kemur væntanlega aldrei út.
En hvað um það. Mig langaði að semja nýtt efni fyrir plötuna og bankaði á fimm listamenn sem eru í miklu uppáhaldi hjá mér og spurði hvort þeir ættu einhver bít til að lauma að mér—eitthvað sem þeir ætluðu ekkert að nota, hvort sem er. Allir svöruðu strax játandi. Einn sendi dót sem ég gat ekki notað, einn sendi bara aldrei neitt, en Helgi Sæmundur sendi mér vænan slatta, aðallega eitthvað sem hann taldi mig geta notað—eitthvað svona Guruvænt.
En ég tengdi strax við beatið Jupo_1 og sá eitthvað í því; það eru einhverjar sampl raddir í upphafi sem segja nánast „inn inn“ og þá var viðlagið komið. Þetta átti bara að vera uppfyllingarefni á plötuna, bara eitthvað nýtt. Ég ákvað þó, upp á grínið, að tala við Steina Qua—við erum ágætis net-kunningjar. Hann var strax til. Hann tekur sig ekki of alvarlega og þá varð ég auðvitað að draga fleiri legend inn. Ég ákvað bara að bruna beint á toppinn þar sem ég ég tel Cell7 besta íslenska rapparann. Flæðið hennar er einhverjum level-um ofar en annarra (að mínu mati). Ég bjóst ekkert við því að hún myndi vera með, enda tók hún alveg tíma í að pæla í því. Ég heyrði líka í henni þegar hún var að klára sína plötu og kannski ekki alveg til í eitthvað grín með gula manninum. Hún ákvað þó að vera með þannig að ég er með þrjú livin’ legends með mér í laginu og get tekið það með mér í gröfina …
SKE: Árið 2004 lýsti blaðamaður Morgunblaðsins Love Guru með eftirfarandi orðum: Love Guru er „náttúrulega eitt stórt djók, og það fyndið djók …“ En fylgir gríninu meiri alvara nú um sinn (þ.e.a.s. hvað tónlist þín í dag varðar)?
ÞHÞ: Já, þessi nýju lög eru rosa lítið grín. Viðfangsefnið í Mér er boðið er pínu
„Ég er maðurinn“ en hefur það ekki verið yrkisefnið í rappinu síðan það fæddist?
Mér finnst línurnar hjá Steina og Rögnu mjög skemmtilegar. Ég fer lengra í „gríninu“ og er duglegur að benda á hvað ég er gamall. Ég tala um Van Damme, Duran Duran, Wham og Falcon Crest. Það veit enginn hvað það er undir 45 ára.
Eitt lagið—sem ég vinn upp úr takti frá Bigga Veiru (já ég veit, fokking Bigga Veiru!)—er hádramatískt og það merkilega er að mér finnst það fáránlega gott lag. Eitthvað sem ég hef ekki mikið verið að vinna með í gulum galla. Nú er ég að vinna drum ‘n’ bass lag með Adda Ofar og ég veit ekki hvað ég á að gera. Ég er búinn að vera semja sama textann í 10 ár: jákvæður, dans- og djammtexti án þess að vera dónalegur, eða of djammlegur (mikið af börnum sem hlusta). Heiðarlegur stuðtexti. Ég enda örugglega þar aftur—nema nú á ensku.
SKE: Í ofangreindri umfjöllun á Morgunblaðinu segir einnig: Lögin „geyma lúmskan ádeilubrodd, misjafnlega föst og rætin skot á galtóma og gegndarlausa partímenningu hnakkakynslóðar þessa lands.“ Í ljósi þess—og í ljósi þeirrar stefnu sem lagið Mér er boðið tilheyrir—er kannski ekki úr vegi að spyrja hvort að rappararnir séu nýju hnakkarnir?
ÞHÞ: (Hahahaha) Ég bjóst við beef spurningu. Nei, ég er ekkert á því að rapparar séu nýju hnakkarnir; ég er það gamall að ég fíla ekkert allt sem er að koma út.
Ádeilan er svolítið á undanhaldi. Mitt hlutverk hefur svolítið verið að keyra upp stemningu á þeim viðburðum sem ég hef komið fram á. En þetta er rétt í Mogganum í fortíðinni: öll platan var bullandi ádeila. Ég var að vinna á FM 957 á þessum tíma með Pétri Jóhanni (útvarpsþátturinn Ding Dong) og tónlistin sem var í boði þar var að drepa mig svo ég gerði heila plötu af tónlist sem ég þoldi ekki. Að vísu elska ég Groove Is In the Heart en ég náði að fokka því upp. Mér þykir orðið vænt um flest lögin þarna í dag en það er algjör viðbjóður þarna eins og Sagan af Nínu og Geira sem er að mínu mati leiðinlegasta lag sögunnar.
SKE: Þeir miðlar sem hafa fjallað um lagið hafa gert mikið úr þeirri staðreynd að Guru-inn sé að ,,daðra“ við Hip-Hop-ið. Er þetta bara daður, í raun og veru, eða er þetta eitthvað meira? Er Love Guru að fara snúa sér alfarið að rappinu?
ÞHÞ: Guru er að fara snúa sér alfarið að dauðanum: eftir þessa plötu þá kemur aldrei meira nýtt út. Ég kannski kem fram, við og við, en ég ætla aldrei að gera annað Guru lag eftir þetta. Ég er búinn að vera Hip Hop aðdáandi síðan 1983. Síðan ég fékk The Message með Grandmaster Flash & the Furious Five, 12 eða 13 ára gamall. Mér fannst þetta rapp geggjað. Ég var líka svo mikill break-ari. Rappið hefur væntanlega síast inn í gegnum break tónlist, sem ég elska enn í dag. En það er ekki guli maðurinn sem gefur þessu mikið rapp líf. Það eru atvinnumennirnir í laginu sem gefa honum þetta daður.
SKE: Bandaríski geðlæknirinn George Vaillant sagði eitt sinn að húmor væri varnarháttur („defense mechanism“) þroskaðra einstaklinga: „aðlögunartækni sem hjálpar okkur til þess að hafa taumhald á streituvaldandi aðstæðum; í óviðráðanlegum aðstæðum getur það, að einblína á fyndnu hliðar aðstæðnanna, hjálpað okkur að afbera þær.“ Tengist þessi tilvitnun, á einhvern hátt, list Love Guru?
ÞHÞ: Það er örugglega eitthvað til í þessu hjá honum. Þetta byrjaði sem útvarpsskets fyrir Ding Dong. Þar vildi ég gera rapplag úr beat box kaflanum í Rock Your Body með Justin Timberlake. Mér fannst það bara fyndið en Pétur vildi ekki vera með og ég hafði ekki punginn í að gera þetta sjálfur. Ég fann þá einhvern karakter til að svara fyrir þetta. Svo sló lagið í gegn (vísa í tónlistina á FM á þessum árum hér fyrir ofan) og ég fenginn ti að gera annað lag—og þá þurfti ég að fara að pæla eitthvað í þessum karakter, því þá kom fyrsta myndbandið út (Partý Útum Allt).
Ég var ekki með neinar pælingar: ætlaði að vera einhver Snoop pimp í pels og veseni en það fannst enginn nógu stor pels fyrir mig. Það var Andrea Róberts sem stakk upp á þessum gula Henson galla. Henson hefur hannað alla gallana mína frá upphafi—var alltaf í stuði fyrir gott grín.
SKE: Hvað geturðu sagt okkur um plötuna sem er væntanleg í sumar?
ÞHÞ: Upphaflega var ætlunin að fylla plötuna af þessum lögum sem ég hef gert síðan Party Hetja kom út—og fjara svo út. Lögin eru ekkert öll alveg lögleg og bjóða upp á vesen. Þannig að þetta verður frekar svona átta laga plata með fjögur ný og fjögur eldri lög (þetta er staðan í dag, tveimur mánuðum fyrir útgáfu). Á plötunni koma góðir gestir við sögu, eins og þessi þrjú í Mér er boðið. Una Stef syngur með mér Veiru lagið og Eiríkur Guðmundsson (sem stýrir þættinum Víðsjá á Rás 1) „rappar“ eða flytur ljóð. Karítas Harpa er í tveimur lögum og góðvinir mínir í grínsveitinni Bergmál eru með í tveimur lögum. Að sjálfsögðu er Felix Bergsson þarna líka og söngkonan mín á fyrstu árum Gura, Eva María, er með.
Sem umsjónarmaður Grínlands gefum við okkur að þú sért mikill hlaðvarpsmaður. Þrjú hlaðvörp sem þú mælir með—og hvers vegna?
ÞHÞ: Ég er nefnilega ekkert mikill pod-maður. Fyrrum dagskrárstjóri Rásar 2, Frank Hall, hvatti okkur á sínum tíma til að gera hlaðvörp. Ég sá fyrir mér að taka bara gott grín með Pétri Jóhanni, Sveppa, Sóla og Andra Frey—bara til að segja að ég hafi skilað mínu verki.
Svo sló þetta í gegn, eðlilega … fáránlega skemmtilegt fólk þarna. Þess má geta að ég var sá eini sem skilaði af mér hlaðvarpi af öllu Rásar staff-inu. EN ég verð að benda áhugafólki um ’80s og ’90s tónlist á Gleymdar perlur áttunnar og Gleymdar perlur níunnar þar sem ég fæ eðalfólk til að velja gleymdar perlur frá þessum áratugum og segja sögur.
Annars finnst mér nokkrir Disgraceland þættir mjög góðir. Trail Blazers líka, þar sem sem þáttarstjórnendur tala við goðsagnir úr raf- og danstónlistarsenunni, eins og Gary Numan og Fatboy Slim (stjórnendurnir eru að vísu fokk leiðinlegir). Stay Free, the Story of the Clash, eru líka geggjaðir þættir. Það þekkja svo allir Fílalag og þessi íslensku gæði.
SKE: Sagan segir að eitt það hvimleiðasta við það að vera útvarpsmaður á RÚV séu símtölin frá smámunaseggjum sem kvarta undan öllu því sem betur mætti fara í tungutaki útvarpsmanna. Er þetta rétt?
ÞHÞ: Þetta VAR rétt, er kannski réttara að segja—því þetta hefur minnkað. Við Andri Freyr gengum frá þessu ágæta fólki, á sínum tíma, held ég. Það var sent inn á mínutu fresti þegar við vorum á vaktinni. Ég hef alveg fengið að heyra það. Stundum heyrir þetta ágæta fólk hins vegar ekki vel og ákveður að heyra vitlaust. Ég sendi nokkrum kvörturum til baka klippur með áætluðu málfarsmorði sem var síðan misheyrn. Það fólk hætti að nenna þessu þá.
SKE: Eitthvað að lokum?
ÞHÞ: Bara geriði gaman í sumar og njótið lífsins.
(SKE þakkar Love Guru kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að hlýða á lagið Mér er boðið.)