Auglýsing

​„Madeira væri sjálfstætt ríki ef landar Ronaldo hugsuðu jafn stórt og Íslendingar.“

– Erpur Eyvindarson

SKE: Í dag er fínt að vera Íslendingur – að minnsta kosti á yfirborðinu. Á yfirborðinu er eins og að eilíft sumar hafi sest yfir landið; eins og að jafnvel hinir draugalegustu, hvimleiðustu og ófrýnilegustu íbúar landsins glampi af sólbrúnku, hamingju og fegurð; eins og allar vorar syndir séu endanlega grafnar í kirkjugarðinum við Suðurgötu … Hvers vegna? Jú, vegna þess að í þessum rituðu orðum er veðrið fínt: það er stilla, hiti og birta. Vegna þess að Secret Solstice hátíðin hefur aldrei verið hátíðlegri (á miðvikudeginum sást til Thom Yorke á Laugaveginum). Vegna þess að nokkrir íslenskir karlmenn, sem búa yfir heimsklassa valdi á ganglimum sínum, særðu stolt eins frægasta íþróttamanns vorra tíma. Og vegna þess að það er 17. júní í dag og Jón forseti Sigurðsson brosir breiðu brosi í gröfinni (að minnsta kosti trúi ég því). … Í tilefni þessara miklu uppsveiflu heimsótti ég Erp Eyvindarson í Kópavoginn (þar sem hann var í heimsókn hjá móður sinni) og spjallaði við hann um EM í fótbolta, Secret Solstice, nýjasta Rottweiler myndbandið og margt fleira. Auðvitað var gamli hríðskotakjafturinn hlaðinn.

(Ég legg bílnum í Kópavoginum og geng í átt að Holtagerði númer … [athugið: heimilisfang hefur verið fellt út úr textanum til þess að vernda viðmælandann frá meinfýsnum Sjálfstæðismönnum og illkvitnislegum stórkapítalistum] … Trén hjúfra sig yfir gangstígnum sem liggur að hurðinni og ég beygi mig undir ágengu trjágreinarnar til þess að hringja dyrabjöllunni. Svo bíð ég. Erpur tekur á móti mér eins og fölleitur Snoop.)

Erpur: Blaze-aður!

SKE: Hey, man.

(Erpur er hálf slappur og gengur því um gólfin í „veikindaskónum“ sínum, segir hann – sem eru þessir mjög krúttlegu inniskór. Það er eins og að hann sé með tvo kodda á fótunum. Inni í stofunni lít ég í kringum mig og er strax gagntekinn af anda hússins. Hér er mikil sál. Veggirnir eru klæddir bókahillum og gömul húsgögn slæpast um gólfin eins og gamlir, viðkunnanlegir menn. Fallegt. Það er opið út á pall og þar situr móðir Erps ásamt bróður sínum, séra Bernharði Guðmundssyni. Þau að lesa upp úr bókum. Það er eitthvað sérstaklega „íslenskt“ við þetta allt saman. Sesar-inn (bróðir Erps) röltir inn í stofu og heilsar mér: Nema hvað. Ég sest andspænis Erpi við stofuborðið og hann byrjar að sýna mér myndband af rússneskum húligans á netinu. Erpur virðist vera sérfróður um menningu þessara hóps. Ég spyr hann aðeins út í EM.)

Erpur: Við fögnuðum eftir jafnteflið við Rónaldó og félaga í Portúgal og þá segir Rónaldó að þetta sé einkennandi fyrir smáþjóð – og þess vegna munum við aldrei vinna neitt. En þessi hugsun er ekki smá hjá íslendingum. Rónaldó er frá Madeira, sem er eyjaklasi sem tilheyrir Portúgal, og þar búa hátt í 300,000 manns. Ef Íslendingar hefðu numið Madiera þá værum við aldrei á valdi Portúgala.

(Við hlæjum.)

Erpur: Auðvitað er ekki hægt að segja svona – en ég held að Madeira væri aldrei undir Portúgal ef þeir hugsuðu eins og Íslendingar. Þeir væru sjálfstætt ríki. Það er engin eyja sem er á stærð við okkur sem er jafn rosaleg.

SKE: Þetta er mjög góður vinkill.

(Við ræðum aðeins kosti og ókosti Íslendinga og verjum svo góðum klukkutíma í pólitík. Erpur er frægur vinstrimaður og ég er alltaf að reyna sameina hægri og vinstri með kenningum Hegels. En það gengur ekkert. Eftir mikið mas og alls kyns fróðleik kem ég mér loks að merg málsins: Nýjasta Rottweiler lagið – Negla.)

SKE: Varðandi nýja Rottweiler lagið. Ég er búinn að sníða nokkrar spurningar út frá texta lagsins.

Erpur: Okay.

SKE: Lagið hefst á þessum línum:

Þú bjóst til íslenskt rapplag – og til lukku.
Ég bjó til íslenskt rapp, mar – og við rukkum!

… Hver er besti íslenski rapparinn í dag?

Erpur: Það er Blazroca … og svo eru margir góðir þarna líka.

(Erpur hlær stríðnislegum hlátri.)

Það er Blazroca …. og svo eru margir góðir þarna líka

– Erpur Eyvindarson

SKE: Næsta lína:

Ég er Lennon og við erum Bítlarnir, félagi.
Þú ert ekki einu sinni í Bítlavinafélagi!

… Hver er besti vinur þinn?

Erpur: Ég á náttúrulega helling af góðum vinum, en ef ég þyrfti að nefna einhvern einn …

(Móðir Erps, sem er í þann mund að ganga inn í eldhúsið, blandar sér inn í samræðuna.)

Móðir Erps: Það eru auðvitað bræður þínir!

(Við hlæjum. Erpur tekur undir orð móður sinnar.)

Erpur: Já, að sjálfsögðu … en nei þetta er ekki hægt. Auðvitað eru það systkyni mín og fjölskylda og svo eru það vinir mínir. Þetta yrðu alltaf einhverjir 10 manns.

SKE: Ég skil þig. Næsta lína:

Ég er sick-ass rappari, þú ert sniðugur snappari.
Mikill prakkari: Siggi Hakkari!

… Mesta prakkarastrik?

(Erpur hugsar sig um.)

Erpur: Já, einmitt. Þau hafa verið nokkur. Einu sinni vorum við að ganga heim úr skólanum, Þingholtskólanum í Kópavogi. Ég, Haffi og Emilíana – best að henda henni í þessa sögu líka.

SKE: Torrini?

Erpur: Já, ég held að við höfum verið um 13 ára gömul. Við sjáum að það er danskennsla í gangi meðal nemanda á Kársnesskóla, í kjallaranum. Þetta voru nemendur sem voru ári eða tveimur árum yngri en við. Við förum þarna inn bakdyramegin og förum að djöflast í liðinu, en þá höfðu kennararnir farið í kaffipásu. Krakkarnir voru í einhverjum samkvæmisdansi þarna.

(Erpur ber fram samkvæmisdansi með fínlegri röddu. Ég hlæ.)

Erpur: Ég finn slökkvitæki, mjög kraftmikið og svo bara set ég allt í botn, mar. Úða á gengið! Maður sá bara liðið fleygjast – pwah, pwah, pwah! – undan strollinu, sko! Þetta var illa séð. Síðan báðum við bara að heilsa. Maður hélt að maður kæmist upp með þetta en síðan um leið og maður kom heim þá var búið að hringja og allt vitlaust.

(Við hlæjum.)

Ég finn slökkvitæki, mjög kraftmikið og svo bara set ég allt í botn, mar. Úða á gengið! Maður sá bara liðið fleygjast – pwah, pwah, pwah!

– Erpur Eyvindarson

Erpur: Þetta var gott.

SKE: Næsta lína:

Ég er alltaf tjillin við alla.
Durgarnir mínir eru þarna!

Erpur: Þetta er svona, ég er góður gaur, en þú veist, ef það er eitthvað „ves“ …

SKE: Þá ertu með „hooligans“ með þér … Hver er durgurinn þinn í forsetakosningunum? Við vitum nú flest svarið við þessu …

(Erpur hlær.)

Erpur: Ég styð náttúrulega Andra Snæ – en hann er mesti núll durgur sem þú finnur. Hann er alveg ógeðslega vel gefinn og gáfaður og með mikla framtíðarsýn, en samt svo barnslega notalegur í samskiptum. Það eru tveir svona durgar í þessum kosningum: Davíð Odsson og Ástþór Magnússon. Báðir jafn geðveikir nema bara að Ástþór hefur kúl skoðanir, en hann er bara svo geðveikur. Davíð er með hrikalegar skoðanir og líka snargeðveikur. Þetta er „lose lose situation.“

(Erpur hlær.)

Það eru tveir svona durgar í þessum kosningum: Davíð Odsson og Ástþór Magnússon. Báðir jafn geðveikir nema bara að Ástþór hefur kúl skoðanir.

– Erpur Eyvindarson

SKE: Næsta lína:

Langar mig að battle-a? Alltaf.
Langar þig í fatla? Varla.

… Hvern langar þig helst til þess að battle-a eða fara í kappræður við í dag?

Erpur: Hmmm … Ég gæti tekið hvern sem er í raun og veru sem tilheyrir þessari ríkisstjórn. Ég væri alveg til í að ræða við Bjarna Ben. Ég hef hitt Sigmund og væri ekkert á móti því að taka „re-run“ á hann. Hann á náttúrulega mjög erfitt með að vera í sjónvarpi.

SKE: Þetta er einhver fullkominn blanda af …

(Erpur stelur orðinu.)

Erpur: Kjaftæði!

(Við hlæjum. Erpur segist einnig geta hugsað sér að ræða aðeins við sjávarútvegsráðherra.)

Erpur: Þetta er allt sama „agenda-ð.“

SKE: Næsta lína:

Crew-ið þitt er lúið, bitch.
Og hljóðið þitt er búið, bitch!

… Hvað ertu að hlusta á þessa dagana?

Erpur: Freddie Gibbs. Kid Ink, hann er mjög skemmtilegur. Þetta fer eftir stemningunni. Þetta partí stöff er mjög gott, en það er oft á tíðum mjög „stupid.“ Yo Gotti! til dæmis … Father, ég hef aðeins hlustað á það. Svo er það Nipsey Hussle, ég hef fylgst með honum mjög lengi.

(Móðir Erps kveður og kyssir hann bless: „Gæta bús og barna!“ segir hún áður en hún kveður.)

Erpur: Já, ekki spurning. Ég er með þennan hérna.

(Erpur bendir á mig. Við hlæjum.)

Erpur: G-Eazy líka … en þetta er kannski komið gott.

SKE: Já, þetta er flott.

(Mér er litið á símann og sé að klukkan er að verða fimm. Ég er að verða of seinn á Solstice. Ég kveð Erp.)

SKE: Heyrðu, ég þarf að þjóta.

Erpur: Okay, mar.

SKE: Við sjáumst í dalnum.

(SKE mælir með nýjasta lagi Rottweiler, Negla. Þeir hundar spila á Solstice á laugardeginum á undan M.O.P. Veisla.)

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing