Innan um grautarlegu ringulreið muldursrapps er gott heilsteypt erindi ákveðið fágæti – fyrirbæri sem ber að njóta, varðveita og hafa í hávegum, líkt og hvítur nashyrningur á grassléttum Namibíu, eða hótelgisting á sanngjörnu verði í miðbæ Reykjavíkur (ekki það, að það sé ekki prýðilegt framboð af ágætis rappi í dag).
Gott erindi einkennist af innlifun (eða einlægni), flæði, texta og – að einhverju leyti, að minnsta kosti – viðeigandi og áheyrilegu bíti; álitlegar hallir eru sjaldnast reistar á sandi, eða eitthvað í þá áttina.
Nýverið tók SKE saman 10 framúrskarandi erindi (að okkar mati) frá íslenskum röppurum sem komu út í ár; sitt sýnist, að sjálfsögðu, hverjum.
10. BlazRoca – Kiss Kiss Bang Bang
Ég er núll ‘desperate’ /
Ég er núll að blæða glas /
Ég er núll að fara einn heim /
Þrátt fyrir það /
Blaz átti eftirminnilegt erindi í laginu Kiss Kiss Bang Bang á plötunni RÓS sem Shades of Reykjavík gáfu út fyrr á árinu: skemmtileg raddbeiting, beittar línur og fínt flæði.
9. Countess Malaise – Skip A Case (fyrsta erindi)
Lookin’ so dope /
Don’t know how to cope /
These dirty fuckers be havin’ them hopes /
Hand me the soap, ’cause it’s a nope /
Rather be hangin by neck on a rope /
Countess Malaise hefur heillað marga unnendur íslensks rapps í ár. Jafnvíg á íslensku og ensku, erindi hennar í laginu Skip A Case er tilfinningaþrungið en lagið fjallar um nauðgunarmenningu og ofbeldi. Lagið pródúseraði Lord Pusswhip og verður að finna á væntanlegri plötu Pusswhip, Church Ov Ambiguity.
8. Kilo – Squad (fyrsta erindi)
Big motherfucker, that’s me /
Do you even know what it takes to be an emcee? /
Lagið Squad er að finna á plötunni White Boy of the Year sem Kilo gaf út í síðustu viku: lipurt erindi frá einum beittasta rappara landsins.
7. Black Pox – ATM (fyrsta erindi)
Been this, yeah, I’ve been that /
And it’s been the same, really been here /
Know I´ve seen good, but I’ve been bad /
I´ve been due for it – ain’t no tin hat /
Black Pox stimplaði sig inn sem einn af nýliðum ársins með útgáfu laga á borð við Feluleikur, Leyndo og ATM. Fyrsta erindi ATM lýsir stílnum vel: svalur persónuleiki, áhyerileg rödd, sterkt flæði og áhugaverðar rímur.
6. Arnar Freyr (Úlfur Úlfur) – Mávar
Vittu til, Þú veist ekki shit um mig /
Útlægur því ég talaði tungum inni í kirkjunni /
…
Tveir í pakka eins og Twix /
Úlfur Úlfur, bitch /
Arnar Freyr hefur lengi verið einn skarpasti textasmiður landsins. Í laginu Mávar, sem finna má á plötunni Hefnið okkar eftir Úlf Úlf, fær norðlenski rapparinn stóran striga til þess að sletta málningunni: fágað flæði, úthugsaðar línur, attitúd.
5. Gísli Pálmi – Bragdagalistir
Geri hvað sem mér sýnist /
Brýni stílinn, grýti orðum yfir bítið /
Engir slíkir …
Og ég gleypi ekki töflur lengur nema það sé Lýsi /
Ég nýti lífið þó ég eyði einni fínni /
mínútu undir refsingu því ég var óhlýðinn /
Bróðir BIG gaf út plötuna Hrátt hljóð í sumar og gladdi þar með marga áhugamenn gamla skólans með því að endurvekja sígildan stíl. Gísli Pálmi stal senunni í laginu Bragdagalistir en þó er BIG einnig með fínasta erindi.
4. Herra Hnetusmjör – Þetta má
Ég skara fram úr áður en þeir fara fram úr /
Þeir segjast ‘grind-a’ allan daginn – greinilega með slappt úr /
Emmsjé Gauti fékk Herra Hnetusmjör til liðs við sig í laginu Þetta má. Erindi Gauta einkennist af fagmennsku og reynslu en flutningur Hnetusmjörs stendur þó, að vissu leyti, upp úr.*
3. Elli Grill – Kronik „Freestyle“
Tekknó og túttur /
Nipplur og nammi /
Textinn sem Elli Grill flutti yfir endurhljóðblandaða útgáfu af laginu Otis eftir Kanye West og Jay-Z í útvarpsþættinum Kronik samanstóð af ýmsum textabútum sem Grillarinn sauð saman jafnóðum í beinni – algjörlega óundirbúinn. Á fertugustu sekúndu annarrar mínútu (01:40) kemst Grillarinn á ákveðið flug; rappið fær okkur til að kinka kolli í takt við bítið í hvert einasta skipti.
2. Birnir – Joey Cypher
Þú ert að flex-a til að gera eitthvað /
Ég er ekki einu sinni að flex-a og ég er með þetta /
Segjast alltaf ætla að gera shit /
En vita ekkert hvernig þeir ætla að gera það /
Það þarf vissa hæfileika til þess að skyggja á bæði Hnetusmjör og Aron Can í einu og sama laginu, en það er nákvæmlega það sem Birnir gerir í laginu Joey Cypher. Einhverjir eru á þeirri skoðun að erindið eigi heima í sögubókum íslensks rapps.
1. Aron Can – Rapp í beinni í Kronik
Er með gott fólk í hringnum reyni að treat-a alla vel /
Þótt sé úti alla nótt þá fylgist mamma ennþá með /
Eitt erindi. Flutt í beinni. 23.000 ,views and counting.’ Gulldrengurinn Aron Can á, að okkar mati, eftirminnilegasta erindi ársins (það sem af er árinu): einlægni, flæði, karakter.
*Lagið Þetta má kom að sjálfsögðu út í fyrra en í ljósi þess að myndbandið kom út í ár, fannst okkur viðeigandi að leyfa erindi Hnetusmjörs að fljóta með.
SHOUTS
TY – Peaceandharmony
Bent (XXX Rottweiler) – Kim Jong-Un
Byrkir B og Class B – Shakalar
Alvia – FELIS LUNAR
Alexander Jarl – Púla Púla (fyrsta erindi)