Auglýsing

„Ákvað að sigrast á skrattanum.“—sudo. gefur út plötuna „Flora“

Viðtöl

SKE: Í grein sem birtist á vefsíðu tímaritsins Fact Magazine þann 3. september 2013 segir blaðamaðurinn Laurent Fintoni að erfitt sé að rekja uppruna fyrirbærisins „beat-tape“ (plata sem geymir samansafn af töktum eftir einn taktsmið); mögulega eigi fyrirbærið þó upptök sín hjá goðsögninni Fab Five Freddy sem gaf út 12 tommu plötu með töktum frá kvikmyndinni Wild Style á níunda áratug síðustu aldar sem hann dreifði svo meðal plötusnúða í New York (þ.e.a.s. ef undirritaður skilur Fintoni rétt). Hvað sem uppruna fyrirbærisins líður þá er eitt víst: slíkar plötur eru órjúfanlegur hluti Hip Hop menningar og ekki síður mikilvægar en mixteipin sem hérlendir rapparar hafa gefið út í tonnatali síðastliðin ár. Í því samhengi er vert að minnast á beat-tape-ið „Flora“ sem íslenski taktsmiðurinn sudo. gaf út fyrir helgi. Um ræðir 10-laga „beat-tape“ sem kom út á vegum íslenska plötufyrirtækisins Low Key Records. Í tilefni útgáfunnar heyrði SKE í sudo. og spurði hann út í plötuna. Eins og fram kemur í viðtalinu glímdi sudo. lengi við ákveðna „tónstíflu,“ ef svo mætti að orði komast, en sigraði loks skrattann með útgáfu plötunnar.

Viðtal: RTH
Viðmælandi: Adam Thor Murtomaa


SKE: Sæll, sudo. Þú varst að gefa út plötuna Flora. Hvernig kom platan til?

Sudo.: Hugmyndin um að gefa út „almennilegt“ EP hefur lengi verið í kollinum á mér. Ég hef áður gefið út tvö beat-tape en í raun voru þetta samansafn tilbúinna takta (samtíningur sem ég safnaði saman undir yfirskriftinni beat-tape); taktarnir sem eru að finna á Flora voru hins vegar sérsmíðaðir fyrir plötuna.

SKE: Platan er gefin út undir formerkjum Low Key Records. Hvernig kom samstarfið til?

Sudo.: Síðasta vetur flaug ég heim til þess að spila á Iceland Airwaves með tvíeykinu Regn. Við Regn. bræður ákváðum að nýta armböndin okkar og fara á hina og þessa tónleika. Ég hafði séð að hljómsveitin Two Toucans var að spila og vildi ólmur sjá sveitina; við Fonetik Simbol (úr Two Toucans, m.a.) höfðum lengi fylgt hvorum öðrum á Instagram og ég var einnig mikill aðdáandi tónlistar Two Toucans. Eftir tónleikana ákvað ég að kynna mig fyrir Fonetik og úr varð ágætis vinskapur. Helgi (Fonetik) á lítið og skemmtilegt plötufyrirtæki sem heitir Low Key Records og í vor bauð hann mér að gefa út EP á vegum fyrirtækisins. Það gerði útslagið sem sannfærði mig loks um að ráðast í verkið að gefa út litla plötu. Þetta var líka í fyrsta skipti sem ég hef ákveðið að vera rólegur og sitja á mér—í stað þess að henda öllum töktunum út í kosmósinn um leið og þeir voru tilbúnir; mig langaði að gera eitthvað aðeins stærra og metnaðarfyllra. 

SKE: Hver var hugmyndin á bak við Floru?

Sudo.: Ég vildi að ég gæti sagt að hugmyndin á bak við Floru væri djúpstæðari en raun ber vitni. Ég var einfaldlega í fílíng í nokkrar vikur og mér tókst, nokkurn veginn, að semja lúkufylli af lögum sem eru með svipuðu vibe-i. Það var þó mikilvægt að semja eins og ég gat á plötuna í stað þess að sampla—eins og ég hef nánast eingöngu gert til þessa. Undanfarið hefur mér verið fyrirmunað að semja tónlist og hef ég upplifað melankólískar tilfinningar í tengslum við það. Ég ákvað hins vegar að sigrast á skrattanum á öxlinni sem sagði mér að ég gæti ekkert samið. Fyrstu fjögur lögin á plötunni eru meira og minna eingöngu sample-based. Fimmta lagið, Bird of Paradise, er mjög mikil blanda af sampli og sömdu. Síðustu fimm lögin á plötunni eru svo samin frá grunni. Ég keypti mér rafmagnsbassa fyrir einhverjum tveimur mánuðum síðan og innblásturinn sem fylgdi því að eiga loksins bassa var eldsneytið sem keyrði sköpunarferli plötunnar áfram; enda má heyra í fyrrnefndum bassa á mörgum lögum plötunnar. 

SKE: Eitthvað að lokum?

Sudo.: Platan er pródúseruð og mixuð af mér. Hún er gefin út undir listamannsnafninu sudo., masteruð af Fonetik Simbol og „plötuumslagið” er hannað af Fonetik. Platan er gefin út hjá Low Key Records og er aðgengileg á Spotify, SoundCloud og Apple Music.

(SKE þakkar sudo. kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að hlýða á plötuna Floru á fyrrnefndum tónlistarveitum.)

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing