Í dag (31. ágúst) sendi hljómsveitin Balcony Boyz frá sér myndband við lagið Finna á mér (sjá hér fyrir ofan).
Lagið pródúseraði Ágúst Karel – sem jafnframt rappar í laginu ásamt Gabriel Mána – og var það Hermann Bridde sem sá um upptökur og hljóðblöndun. Myndbandið leikstýrði Midnight Mar (Aron Már Stefánsson).
Í tilefni útgáfunnar hafði SKE samband við þá Guðjón Kristófer og Gabriel Mána sem ræddu tilurð lagsins og hvað væri næst á dagskrá hjá sveitinni:
„Hugmyndin á bak við lagið er margslungin og mun hver og einn eflaust túlka lagið á sinn hátt en það var alltaf markmiðið. Lagið varð fyrst til í vor en við urðum að fresta útgáfu lagsins vegna annarra verkefna sem við þurftum að sinna. Næst á dagskrá hjá hópnum er að gefa út fleiri ,singles’ og mögulega gefa út mixteip í vetur.“
– Guðjón Kristófer / Gabríel Máni
Síðast sendu Balcony Boyz frá sér lagið Nóg til en á Facebook síðu SKE má sjá strákana flytja lagið í beinni í útvarpsþættinum Kronik.