Síðastliðinn 26. janúar gaf söngkonan BRÍET út myndband við lagið In Too Deep (sjá hér að ofan) á Youtube en um ræðir fyrsta lagið—sem og myndbandið—sem söngkonan sendir frá sér.
Myndbandinu leikstýrði Bríet sjálf í samstarfi við ljósmyndarann Önnu Maggý og hefur það notið þó nokkurra vinsælda frá því að það kom út. Youtube-rásin dynmk deildi meðal annars myndbandinu þann 12. febrúar en síðan þá hafa rúmlega 50.000 manns hlýtt á lagið á rásinni (einnig hefur lagið verið spilað tæplega 300.000 sinnum á Spotify).
Í dag (16. febrúar) gaf BRÍET út sína fyrstu EP plötu, 22.03.99, en platan inniheldur fjögur lög, þar á meðal In Too Deep.
Þess má einnig geta að BRÍET stígur á svið á tónlistarhátíðinni Sónar Reykjavík í kvöld (16. mars) og er þetta í fyrsta skiptið sem söngkonan—sem heitir réttu nafni Bríet Isis Elfar—kemur fram undir þessu nafni.
(Hér fyrir neðan má svo sjá viðtöl sem SKE tók við söngkonuna fyrir stuttu.)