Fréttir / Viðburðir
Ljósmynd: Brynjar Snær
Gott partí þarfnast góðrar tónlistar – en ekki bara góðrar tónlistar. Að halda partí einn í kjallaraholu í Grindavík getur varla talist gott partí, sama hversu góð tónlistin er. Þú gætir í raun „headbang-að“ grimmt við goðsagnakennda tónlistarsyrpu sérhannaða af DJ Yamaho, þar sem hvert lag er eins og úthugsaður leikur í alþjóðaskákmóti #GarryKasparov – en á endanum ert þú bara einn í kjallaraholu í Grindavík. Það sem gerir gott partí gott er aðallega fólkið og staðsetningin. Er þetta ástæðan fyrir því að SKE er sérdeilis spennt fyrir TAKTFAKT hátíðinni í byrjun júní, en hátíðin fer ekki einungis fram á einum fallegasta stað Reykjanesskagans (staður sem er oftast nefndur eldfjallagarðurinn á ensku: „Volcano Park“) – heldur mun hún einnig skarta helling af fallegu og viðkunnanlegu fólki. Til þess að koma okkur í stuð fyrir hátíðina settum við okkur í samband við skipuleggjanda TAKTFAKT, Carmen Jóhannsdóttur.
Sæl, Carmen. Hvað er að frétta?
Ég er bara svona almennt í stuði þessa dagana, tek sumrinu fagnandi og
er á fullu að undirbúa eitt bilaðasta og skemmtilegasta verkefni lífs míns:
TAKTFAKT
Einmitt, TAKTFAKT fer fram 4. júní á Reykjanesskaganum.
Hvað geturðu sagt okkur um þessa hátíð?
Þetta er 12 tíma tónleika- og tekknó partí þar sem bestu raftónlistarmenn
Íslands koma fram á einum fallegasta stað Reykjanesskagans. KEX
og Linnea Hellström sjá um veitingarnar en sérstök áhersla er lögð á
barina og veitingasöluna. Svo var ég svo heppin að fá Hrund Atladóttur í
liststjórnunina sem er með engum vafa að taka þetta lengra hvað varðar
sjónrænu hliðina.
TAKTFAKT er ekki beint sambærilegt neinu öðru sem hefur verið gert hérna
áður. Við erum í samstarfi við eðalvörumerki sem leggja jafn mikla
hugsjón í þetta og við – ekki bara lógó á plakati. Reyndar í þessu tilfelli er
ekkert lógó né plakat því markmiðið er að skilja eftir sig engan úrgang;
við bæði endurnýtum og erum að nota 100% niðurbrjótanlegar vörur á
TAKTFAKT. Fókusinn er sjálf upplifunin.
Hvaðan kom þessi hugmynd?
Það má segja að þetta sé draumaviðburðurinn. Ég hef verið svo
heppin að hafa fengið að upplifa og taka þátt í alveg stórkostlegum viðburðum, það er t.d. fátt sem toppar áramótatónleika Gus-Gus þar sem við stóðum bókstaflega í
Karabíska hafinu að dansa. Þar af leiðandi set ég markið mjög hátt þegar svona
gigg eru annars vegar. Ég hef verið að halda litlar samkomur þarna síðustu
sex árin og nú fannst mér fleiri ættu að fá að njóta og upplifa – gera
þetta alla leið.
Þessi hluti Reykjanesskagans, þar sem hátíðin fer fram, hefur stundum verið
kallaður „Area 51“ Íslands – af hverju er það?
Ætli það sé ekki bara af því að svo mörg óútskýranleg atvik hafa átt sér stað
þarna.
K-Hand er „aðalstjarna“ hátíðarinnar. Hver er það?
Ég myndi segja hún væri sérstakur heiðursgestur hátíðarinnar. Hún er eina
erlenda „act-ið“ og eina konan sem kemur fram á TAKTFAKT. K-Hand er
Detriot tekknó „legend“ sem hefur bæði verið að pródúsera, spila og gefa út í
yfir 30 ár. Hún á gríðarlegan feril að baki. Við getum ekki beðið eftir að heyra
hana spila, en ég mæli með því að fólk kíki á Boiler Room settið hennar – sem
var einmitt eitt af hápunktum Boiler room ársins 2015.
En svo ég fái nú samt að skjóta því hér inn þá er ég samt spenntust fyrir að
sjá öll lifandi atriðin og sérstaklega í þessu tryllta umhverfi, sbr. Gus-Gus,
THOR og Octal Industries ofl.
Verður þetta árlegur viðburður héðan í frá?
TAKTFAKT er ferðaverkefni og eru nú þegar komin plön fyrir næstu hátíð í
öðru landi. Markmiðið er að halda TAKTFAKT fjórum sinnum á ári alltaf
á nýjum stað. Ég vildi hrista senurnar saman og víkka sjóndeildarhringinn
fyrir alla þá sem taka þátt. Næst er ferðinni heitið til Mið-Ameríku. Við hvetjum
alla til mæta 4. júní því hátíðin verður bara haldin einu sinni þar. Mér finnst
mjög mikilvægt að halda þessu svolítið leyndardómsfullu með því að flytja
verkefnið alltaf um set.
Þú skrifaðir hjartnæman pistil eftir andlát Prince, en ef þú gætir
bókað hvaða listamann sem er á hátíðina (lífs eða liðinn), hver
yrði fyrir valinu?
Prince yrði augljóslega fyrir valinu.
Hvern styður þú til embættis Forseta Íslands?
Ég hef ekki gert það alveg upp við mig en mér finnst Guðni Th. virka sem
traustvekjandi og gagnsær náungi
Eitthvað að lokum?
Eigum við ekki bara að taka þetta alla leið og segja: „Að við erum hér saman
komin í dag til að fara í gegnum það sem við köllum lífið.“ – Prince
AMEN. SKE hvetur alla til þess að tryggja sér miða á hátíðina, en hægt er að nálgast frekari upplýsingar á www.taktfakt.com. Hér er svo smá „teaser“ ásamt K-Hand.