Íslenskt
Orðið gósentíð er dregið frá orðinu Gósenland og er tilvísun í Gamla testamentið (Gósenland var búsældarland í Egyptalandi þar sem Gyðingar bjuggu við allsnægtir um tíma) en orðið merkir mjög gott tíðarfar, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.
(Nánar: https://www.visindavefur.is/sv…)
Í þessu samhengi má segja að unnendur íslensks rapps hafa búið við gósentíð í ár en íslenskir rapparar hafa verið frjóir sem aldrei fyrr – og má segja að þetta eigi sérstaklega við síðastliðnar vikur: fullt af nýrri tónlist, nýjum myndböndum og nýjum plötum.
SKE tók saman það helsta.
Lord Pusswhip – Gengi (Geingsji)
10.08.2017
Lagið Gengi eftir rapparann og taktsmiðinn Lord Pusswhip kom út fyrir fjórum dögum síðan. Lagið pródúseraði Holly og er aðgengilegt á Soundcloud síðu Pusswhip.
Kilo – Trap Out
09.08.2017
Þann 9. ágúst gaf rapparinn Kilo út plötuna White Boy of the Year en sama dag kom myndband við lagið Trap Out út á Youtube. Lagið er að finna á fyrrnefndri plötu sem hefur jafnframt vakið mikla lukku. Þess má einnig geta að Kilo kíkti við í útvarpsþáttinn Kronik síðastliðið laugardagskvöld þar sem hann flutti lagið Chain Swang í beinni (myndband af flutningi rapparans mun rata inn á SKE.is von bráðar).
Seppi – Skúffan
09.08.2017
Skúffan er samansafn af „demó-um sem dóu við fæðingu,“ að sögn rapparans Seppa (sem er líklegast best þekktur sem fyrrum meðlimur hljómsveitarinnar Afkvæmi guðanna): „Ná þeirra voru lögð í skúffu til hinstu hvílu og áttu aldrei að líta dagsins ljós … Nú er skúffan yfirfull og hef ég því ákveðið að gera nokkrar ‘plötur’ úr þessum afgangs lögum. Hér er fyrsta samansafnið af lögum, nokkur þeirra hafa verið áður birt á Youtube en megnið hefur aldrei farið úr skúffunni.“
Stafrænt eintak er einnig fáanlegt án endurgjalds á https://seppi.bandcamp.com/
Balcony Boyz – Nógtil
05.08.2017
Hljómsveitin Balcony Boyz samanstendur af fjórum listamönnum en um Verslunarmannahelgina gaf hljómsveitin út lagið Nógtil. Lagið pródúseruðu Ágúst Karel og Gabríel Máni en Hermann Bridde sá um hljóðblöndun og masteringu.
Bent – OJ
01.08.2017
Rapparinn Bent var gestur útvarpsþáttarins Kronik í byrjun sumar þar sem hann frumflutti lagið Oj í beinni. Síðastliðinn 1. ágúst rataði myndband við lagið á Youtube. Myndbandið leikstýrði Bent sjálfur með aðstoð frá Ívari Orra Ómarssyni.
PLASTICBOY – Mikið
28.07.2017
Plasticboy er einn af forsprökkum hljómsveitarinnar Geisha Cartel en í lok júlí gaf hann út myndband við lagið Mikið. Lagið pródúseraði Plasticboy sjálfur í samstarfi við Bleache. MÓKI á heiðurinn á myndbandinu.
DJ B-Ruff feat. Anna Hlín – Kisses
27.07.2017
Þann 27. júlí rataði lagið Kisses eftir plötusnúðinn DJ B-Ruff og söngkonuna Önnu Hlín á Youtube en lagið fór í spilun á útvarspstöðinni Áttunni fyrir stuttu – og það við góðar undirtektir. Í samtali við SKE í kjölfar útgáfunnar tjáði B-Ruff blaðamanni að meira efni væri, að öllum líkindum, á leiðinni: „Stefnan er að gefa út fleiri lög með fleiri tónlistarmönnum, þ.e.a.s. ef tími gefst og ef vel tekst til. Draumurinn er að gefa út ,compilation’ plötu einn daginn – en fæst orð bera minnsta ábyrgð.“
Aron Can – Geri Ekki Neitt / Óþekk
Ungstirnið Aron Can er á miklu flugi um þessar mundir. Ekki nóg með það að einn notandi streymisveitunnar Spotify hafi hlýtt á lagið Fullir vasar í milljónasta skiptið í júlí – heldur gaf Aron Can einnig út tvö ný lög stuttu síðar, Geri Ekki Neitt og Óþekk.
Brandur – Slakir
20.07.2017
Rapparinn Brandur gaf út lagið Slakir síðastliðinn 20. júlí.
„Old School vibes.“
JóiPé & Chase – Ég vil það
19.07.2017
JóiPé og Chase voru gestir útvarpsþáttarins Kronik síðastliðið laugardagskvöld á X-inu 977. Ásamt því að spjalla við umsjónarmenn þáttarins um hvað væri framundan fluttu þeir einnig lagið sitt Ég vil það í beinni en lagið hefur notið mikilla vinsælda upp á síðkastið.
Joey Christ – Ísvélin
10.07.2017
Lagið Ísvélin er að finna á mixteipinu Joey sem Joey Christ gaf út á Spotify 10. júlí. Mixteipið inniheldur níu lög og á annan tug gestarappara koma við sögu á plötunni, þar á meðal Birnir, Yng Nick, Floni, Aron Can, Alvia, Herra Hnetusmjör, Krabba Mane, Geisha Cartel og Sturla Atlas.
Herra Hnetusmjör – Kling, Kling
06.07.2017
Herra Hnetusmjör gaf út myndband við lagið Kling, Kling í byrjun júlí. Í samtali við SKE í kjölfar útgáfunnar lýsti hann tilurð lagsins með eftirfarandi orðum:
„Joe Frazier viðraði þá hugmynd að taka upp keðjurnar mínar skellast saman og sampla það. Þaðan kom í rauninni conceptið af laginu. Hlynur Hólm (Ár eftir ár, 203 Stjórinn) gerði myndbandið og Ágúst Elí (Enginn mórall) á heiðurinn á brellunum í himninum.“
Joey Christ – Confessions Pt. 2
03.07.2017
Viku áður en Joey Christ gaf út miteipið Joey á Spotify kom platan Anxiety City út en platan var gefin út af Sticky Records. Platan inniheldur níu lög og skartar góðum gestum á borð við Högna (Hjaltalín), Sturlu Atlas, Birni, 101 Boys og Flona:
Beatmachinearon – Roses
26.06.2017
Bítið Roses eftir íslenska taktsmiðinn Beatmachinearon rataði nýverið inn á Youtube rásina Majestic Casual sem státar sig af yfir 3 milljónum áskrifenda. Þegar hafa notendur Youtube hlýtt á lagið Roses u.þ.b. 85.000 sinnum.