Nýjasta mynd Gríms Hákonarsonar Hrútar vann nýlega til verðlauna á Cannes kvikmyndahátíðinni í Frakklandi, eins og frægt er orðið. Þetta var í fyrsta sinn sem íslensk kvikmynd í fullri lengd vinnur verðlaun á hátíðinni. Myndin skartar Sigurði Sigurjónssyni og Theodóri Júlíussyni í aðalhlutverkum og fjallar um tvo bræður, Kidda og Gumma, sem hafa ekki talast við í áratugi, þrátt fyrir að búa hlið við hlið í afskekktum dal. Ragnar Tómas hitti Grím og Sigga að máli í Kaffivagninum út á Granda í síðustu viku.
Ragnar Tómas: Mig langaði að byrja á því að óska ykkur til hamingju með Hrúta og verðlaunin. Mér gafst loksins tækifæri að sjá myndina í vikunni og var mjög hrifinn. Mér skilst að nú þegar hafa 11,000 manns séð myndina hérna heima sem hlýtur að vera góðs viti. Mig langaði að byrja á Cannes: Hvernig var á Cannes? Gafst ykkur tækifæri til þess að sjá einhverjar myndir eða var þetta aðallega bara vinna, viðtöl og plögg?
Grímur: Já, hjá mér var þetta mikil vinna. Ég var þarna samt allan tímann, í 12 daga. Myndin var sýnd á föstudeginum fyrstu helgina. Það var mikið að gera þá. Við vorum þarna 20 manns frá crew-inu en svo róaðist þetta aðeins niður. En það voru samt alltaf einhverjar skyldur sem maður þurfti að sinna: kvöldverðir, kokteilboð, o.s.frv.
Ragnar Tómas: Fóru þið á einhverjar myndir?
Siggi: Sjálfur var ég bara þarna í tengslum við frumsýningu myndarinnar. Nei, ég náði ekkert að sjá fleiri bíómyndir. Ég sá hins vegar ansi margar úti á götu. Það dugði mér alveg (við hlæjum). Ég gat smjattað á því í nokkra daga. En svo, eins og Grímur segir, þá var mikið af viðtölum og plöggi í kringum þetta. En erindið mitt var fyrst og fremst að vera viðstaddur, og sjá þennan sirkús.
„Þá stóðu allir upp og klöppuðu í tíu mínútur. Það var ákveðinn léttir“
– Grímur Hákonarson
Ragnar Tómas: Ég var einmitt að hlusta á viðtal við David Edelstein, sem er kvikmyndagagnrýnandi hjá NPR í Bandaríkjunum, en hann var viðstaddur hátíðina. Hann sá nýjustu mynd Gus Van Sant, Sea of Trees, með Matthew McConaughey, og hún var púuð hressilega niður. Voruð þið ekki stressaðir varðandi viðbrögð manna við Hrútum?
Grímur: Jú, maður hafði heyrt svona sögur. Þetta var líka í fyrsta skiptið sem við sýndum myndina fyrir fullum sal. Þetta var heimsfrumsýning. Þannig að þetta var stressandi. En venjan er sú að menn klappa eftir að credit listinn er búinn, og þetta vissi ég ekki. Þannig að það var klappað pínulítið eftir að myndin kláraðist. Og svo bara hætti klappið. Þannig að maður hugsaði: „já, okay, þetta er bara búið“ (hlær). En svo þegar credit listinn kláraðist þá stóðu allir upp og klöppuðu í tíú mínútur. Og það var ákveðinn léttir.
Siggi: Já maður var auðvitað fullkomlega varnarlaus. Ég var að sjá þessa mynd í fyrsta skiptið. Ég hafði ekki séð hana í bíósal. Þannig að ég var fullkomlega án varna, læstur inni í Cannes, innan um allt þetta fólk. Þannig að það var ljúft að fá þessi viðbrögð í lok myndarinnar. Það voru ágætis laun.
Grímur: Já, það var ákveðinn léttir. Þetta var orðið þannig að þetta var það langt klapp að maður vissi ekki hvernig maður átti að vera. Við vorum búin að hneigja okkur, búin að fara í gegnum allt prótókolið.
Siggi: Þetta var skemmtilegt vandamál.
Ragnar Tómas: Grímur, hugmyndin að þessu handriti: Hvernig kom hún til? Getur þú lýst þessu ferli frá upphafi til enda?
Grímur: Já, mig langaði að gera sveitamynd. Ég á rætur að rekja úr sveit; foreldrar mínir eru úr Flóanum. Ég var í sveit þegar ég var krakki. Hvatinn að myndinni var sá að mig langaði að gera trúverðuga sveitamynd. Það hafði kannski ekki verið gerð þannig mynd í langan tíma. Mér fannst ég geta gert þannig mynd út af mínum bakgrunni. Svo kokkaði ég upp þetta handrit í framhaldinu. Ég var að vinna með tvær hugmyndir, annars vegar bræður sem talast ekki við, sem er mjög algengt út um allt land og er lýsandi fyrir íslensku þjóðina; og hins vegar svona faraldur, einhver sjúkdómur sem gerir það að verkum að allt hrynur, að það þurfi að skera niður kindurnar. Og tenging bóndans við kindina. Þessum tveimur hugmyndum er svolítið fléttað saman.
Ragnar Tómas: Já, þú nefndi það að þú hafir verið innblásinn af Halldóri Laxness, Sjálfstætt Fólk.
Grímur: Það er búið að skrifa svo mikið um myndina að maður er orðinn hálf ruglaður í hausnum. Fólk er byrjað að tengja þetta við Biblíuna og alls konar hluti. Maður veit varla lengur hvar maður stendur sjálfur (hlær). Ég var ekki að hugsa um Biblíuna. En auðvitað er ákveðin Bjartur í Sumarhúsum í þessum bræðrum. En ég las ekki Sjálfstætt Fólk áður, gagngert til þess að skrifa myndina. En auðvitað hef ég lesið Sjálfstætt Fólk oftar en einu sinni. Og að mínu mati er þetta besta bókin, ásamt Njálu.
Ragnar Tómas: Siggi, Íslenskar kvikmyndir eru oft þannig að díalógurinn skiptir rosa miklu máli, og persónusköpun hverfist mikið í kringum samtöl. En í Hrútum þá er rosa mikið af svipbrigðum og þú leikur þetta mikið með andlitinu. Sjarmurinn á bakvið Gumma leynist í augunum. Var ekki erfitt að tækla þetta verkefni? Var þetta ekki mikil undirbúningsvinna?
Siggi: Nei, fyrir það fyrsta þá var þetta alls ekkert erfitt, þegar ég horfi til baka. Það helgast fyrst og fremst af því að handritið var svo gott þegar ég fékk það í hendurnar. Leikstjórinn var einnig með svo tæra sýn hvað hann vildi fá út úr þessu handriti. Og þar með voru allir á sömu leið í vinnunni. Og svo spillti það heldur ekki fyrir, að það kom í ljós þegar við byrjuðum að vinna saman, ég og Grímur, að við erum svolítið líkir inn við beinið. Við deilum svipuðum áhugamálum og lífssýn að mörgu leyti. Fyrir mína parta, þá létti það þessa göngu rosalega; við gengum svolítið í takt.
Ragnar Tómas: Var karakterinn þá fullmótaður í handritinu eða var það eitthvað sem þú lagðir til máls, eða einhverjar hugmyndir sem þú komst með sjálfur, Siggi?
Siggi: Eflaust eitthvað, en það var talsvert um æfingar áður, sem er alveg lífsnauðsynlegt. Sem betur fer var það nú gert, sem er þó ekki alltaf raunin við tökur á íslenskum myndum. En sem betur fer var lagt upp með að æfa vel. Þannig að maður kom svolítið heitur á tökustað. Svo var rétt og gott andrúmsloft innan um allt fólkið og öll dýrin. Þetta var ferlega skemmtilegt. Erfitt og ekki erfitt.
Ragnar Tómas: Hver var erfiðasta senan?
Siggi: Það er oft flókið að vinna með dýrum, en við vorum með sveitamenn sem þekktu dýrin og voru hjálpsamir. Annars hefði þetta ekki verið hægt. En í minningunni var þetta bara ljúft. Ég var ekkert mikið í vinnunni einhvern veginn, í huganum. Ég var bara upp í Bárðardal að búa til sögu.
„En í minningunni var þetta bara ljúft. Ég var ekkert mikið í vinnunni einhvern veginn, í huganum. Ég var bara upp í Bárðardal að búa til sögu.“
– Siggi Sigurjónss
Ragnar Tómas: Var þetta langt tökuferli?
Grímur: Já, þetta var tekið upp í þremur hlutum. Upphaflega var planið að taka myndina upp í tveimur hlutum, yfir sumar og vetur. Við lentum svo í því að fresta nokkrum dögum út af snjóleysi. Við lentum í snjóleysi í nóvember. Þannig að myndin er tekin upp í janúar líka. Lokasenan er tekin upp í janúar. Þannig að þetta var langt tímabil, en það er ákveðinn kostur að geta skipt þessu svona niður. Þá getur maður hvílt sig á milli og breytt handriti og undirbúið sig betur. Það var mjög gott. Í sambandi við Sigga og Tedda, þá byrjuðum við að hittast og spjalla og kynnast, örugglega ári áður en við fórum í tökur. Okkur gafst góður tími til þess að melta þetta og kynnast betur.
Ragnar Tómas: Og hvað er næst á dagskrá fyrir Hrúta? Kvikmyndahátíðir?
Grímur: Já, næsta hátíð er Karlovy Vary í Tékklandi, sem er talin vera ein af stærri hátíðum í heiminum. Svo eru einhverjar hátíðir í haust sem við megum víst ekki tala um. En það er verið að slást um að sýna Hrúta og sem er á leiðinni á margar hátíðir. Oft eru myndir að komast inn á eina svona „A Festival“, en hún er sennilega á leiðinni á þrjár. Þannig að það gengur rosalega vel. Í þessum hátíðargeira núna, þá er þetta ein af heitustu myndunum sem er í dreifingu.
Ragnar Tómas: Já, hún hefur fengið þrusu dóma.
Grímur: Svo erum við að lenda í því að það eru einhver lönd þar sem það eru tvær stórar hátíðir, svipað eins og á Íslandi, og það er verið að rífast um myndina. Þannig að það er bara lúxusvandamál.
Ragnar Tómas: Já, mikið af lúxusvandamálum í gangi.
Grímur: Svo hefur hún verið að seljast rosa vel og núna síðast seldist hún til Kína, sem er víst mjög lokaður markaður. Það verður gaman að sjá hvernig kínverjar taka í þetta (hlær).
Siggi: En það er eitt sem maður þarf að gera þegar maður er búinn að ljúka einhverju, eins og þessari mynd sem er að baki, að maður þarf aðeins að rýna í það hvað er það sem veldur því að hún verður svona vinsæl hérna heima og erlendis. Bara til þess að læra. Ef t.d. að við færum í það að segja einhverja aðra sögu á morgun, þá þarf maður aðeins að skoða hvað er það sem virkar. Ég er svolítið í þeim þankagangi núna. Mér finnst þetta mjög athyglisvert. Ekki það að maður vilji segja sömu söguna aftur, en bara hvað er það?
Grímur: Tilfinningin er sú að þetta hafi gengið upp: varðandi leik og allt það, en það er ekki alltaf sem það er.
Siggi: En mig langar til þess að leggja áherslu á það, af því að ég hef töluverða reynslu í þessum bransa, að það byrjar allt og endar með góðu handriti og það var lykillinn að þessu öllu saman: Fyrir mína parta. Leikstjórinn er með afar tæra sýn. Þegar maður fær svona alvöru kjöt í hendurnar, þá þarf maður að vera býsna laginn við að klúðra því.
Ragnar Tómas: Stefnið þið að frekara samstarfi í framtíðinni?
Siggi: Ef ég mætti ráða, þá væri ég til í það. Grímur er með símanúmerið mitt (þeir hlæja).
Grímur: Já, það væri gaman að vinna með honum og Tedda (Theodór Júlíusson). Já, já, þetta var góður hópur. En nú er mikið verið að þrýsta á mann að gera einhverja svona kvennamynd.
Ragnar Tómas: Já, er það?
Grímur: Já, en bara í gríni. En framtíðin er í lausu lofti hjá mér núna.
Ragnar Tómas: Já, ég sá að þú ert að vinna í heimildarmynd um sósíalisma í Neskaupsstað.
Grímur: Jú, akkúrat. Það er mynd sem ég hef verið að vinna í síðustu tvö árin meðfram Hrútum. Ég þarf að finna einhvern tíma til þess að klára hana.
Ragnar Tómas: Hvenær reiknar þú með að hún komi út?
Grímur: Ég hugsa að hún komi ekki út alveg strax. Kannski eftir ár.
Ragnar Tómas: Svo var einhver að tala um sveita-lesbíu mynd. Var það eitthvað?
Grímur: Já, ég er að vinna í því. Það er samt ekki alveg komið á hreint. En ég gerði mynd, Bræðrabylta, sem fjallaði um samkynhneigða glímumenn, og ég þekki til einhverra dæma um lesbíur í sveit (við hlæjum). Það er svona eitthvað sem er í mótun. Ég missti þetta út úr mér í einhverju viðtali.
Siggi: Þú verður að standa við þetta (við hlæjum enn meira).
Ragnar Tómas: Ég las einhversstaðar, Grímur, að við tökur á myndinni þá svafstu ekki í fimm daga. Er eitthvað til í því?
Grímur: Já, það var nú fyrstu vikuna í tökunum. Ég átti í einhverjum vandræðum með svefn. Ætli að það hafi ekki verið það að ég var búinn að bíða lengi eftir tökunum, og var búinn að vinna í mörg ár að þessari mynd, svo var bara allt í einu komið að því og það er ákveðin pressa á leikstjóranum. Maður ber ábyrgð á þessu öllu saman. Það tók svolítinn tíma að festa svefn. En ég held að mér hafi tekist að fela þetta ágætlega.
Siggi: Já, ég var aldrei var við þetta svefnleysi leikstjóra sko (við hlæjum). Hann kom ekki með það á settið. Ég tek það fram að ég svaf alltaf mjög vel. Ég hélt mér svolítið gangandi á íslensku neftóbaki.
Ragnar Tómas: Það er allavega ekki að sjá á útkomunni að það hafi verið svefnleysi í gangi.
Grímur: Nei, og þrátt fyrir það leið mér alltaf rosa vel að koma á settið. Við vorum alltaf að ná einhverju góðu inn.
Ragnar Tómas: Að lokum, Siggi, hvað er á dagskrá hjá þér?
Siggi: Það er svo sem ýmislegt í pípunum sem betur fer. Ég verð með annan fótinn í Þjóðleikhúsinu næsta vetur. En það sem er svona helst á dagskrá er að taka smá sumarleyfi. Eftir allt þetta ævintýri. Þetta er búið að vera viðburðaríkt ár hjá mér og skemmtilegt, mikið verið að gerast á mörgum vígstöðum einhvern veginn. Nú er kominn tími til þess að raka sig og slaka á.
Grímur: Sama hér. Ég hef loksins haft tíma til þess að slaka á og er einmitt að lesa bækur og pæla í hvað maður ætlar að gera og svona. Það verður rólegt í sumar með hátíðarnar. En svo í vetur verður …
Ragnar Tómas: Meiri keyrsla?
Grímur: Já. Ég þarf að búa þarna á alþjóðlegum flugvelli.
Siggi: Já, við ætlum að sameinast í því að lesa góðar bækur og góðar sögur og kannski fáum við einhverja brilliant hugmynd og verðum í sambandi.
Ragnar Tómas: Takk kærlega fyrir spjallið.