Auglýsing

Lemúrastofninn réttir úr kútnum (SKE vs. Moses Hightower)

Viðtal / Viðburður

Moses Hightower er ein af mínum uppáhalds hljómsveitum. Hún er ein af mínum uppáhalds hljómsveitum vegna þess að hún er svo uppfull af sál („soulful.“) Og ef tónlist hefur enga sál þá er ekkert varið í hana. En svo spyrðu kannski Hvað er sál? Erfitt að segja. Sál í tónlist er kannski einhver vel heppnuð blanda af hreinskilni, tilfinningu, einlægni, rytmablús, djassi, ásamt smáslettu af gospel, en aðallega er sál „fílíngur,“ „hjarta“ – eitthvert óútskýranlegt „energí“ sem aðeins innsæið nemur. Aðrar hljómsveitir og listamenn sem hafa mikla sál, að mínu mati, eru Otis Redding, Nina Simone, Stevie Wonder, Billy Preston, D’Angelo og svona mætti halda áfram (en ekkert lengi, endilega, því sálin er fremur sjaldgæf.) En þið eruð eflaust engu nær. Hvað um það. Næstkomandi 1. júní 2016 spilar Moses Hightower á Húrra. Í tilefni þess hafði ég samband við Moses Hightower og lagði fyrir þá nokkrar hyldjúpar „preguntas.“

Bank, bank, hver er þar?

Nú, hinir eiturhressu Mosalallar í Moses Hightower.

Þann 1. júní 1967 sendu Bítlarnir frá sér plötuna Sgt. Pepper’s Lonely Hearts Club Band. Nákvæmlega fimm árum seinna (1. Júní 1972) giftist bandaríski raðmorðinginn John Wayne Gacey annari konu sinni, Carole Hoff. Og nú 24 árum seinna spilar Móses Hightower á Húrra. Við hverju megum við búast?

Það verða engin morð framin, við verðum í okkar fínasta og spilum til að gleyma.

Í hvert skipti sem við hlýðum á Háa C á Youtube, er þriggja til fjögurra mínútu þögn þegar lagið klárast. Þarf ekkert að fara kippa þessu í liðinn? Eða er þetta hluti af upplifuninni?

Það vill þannig til að við hlóðum laginu ekki upp en þetta markar þó viðhlítandi andakt og andlega inntöku.

Hvenær kemur nýja platan út?

Janúar 2031. Nei djók. Síðar á þessu ári. Er það ekki eitthvað? Ha?!?

Við erum í góðu sambandi við Valgeir Guðjónsson og hann elskar Móses. En hvaða hljómsveitir elskið þið?

Crosby, Stills, Nash og Young. Kendrick Lamar. Sly and the family stone. D’angelo. Bill Withers.

Hvern styðjið þið til embættis forseta Íslands?

„No comment.“

Þið tókuð einu sinni upp lag með Forgotten Lores. Ef þið gætuð fengið hvaða rappara sem „feature“ í lag (lífs eða liðinn) – hver yrði fyrir valinu?

Kendrick Lamar.

Er Maggi Trygg Questlove Íslands?

Neinei. Maggi er Maggi.

Verður ekki nóg að SKE hjá Móses í sumar?

Öööööööööööö … við verðum í hljóðveri, að borða falafel í Berlín, mikið í flugvélum. Græða á daginn og grilla á kvöldin.

Ef Móses mætti velja fyrirsögn þessarrar greinar – hver yrði fyrirsögnin?

Lemúrastofninn réttir úr kútnum.

SKE hvetur alla til þess að tryggja sér miða á Moses í byrjun júní. Hér eru svo nokkur sígild lög sem eru uppfull af sál.

Orð: RTH

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing