Auglýsing

„List pynting ef fegurð er pína.“—SEINT gefur út „We Already Know“ (viðtal)

Viðtöl

SKE: Eftir að hafa beðið í mörg ár eftir því að sjá J Dilla koma fram á tónleikum, tók þýski plötusnúðurinn DJ Decsktarr örlagaríka ákvörðun. Í aðdraganda tónleika bandaríska taktsmiðsins í Düsseldorfí desember 2005ákvað Deckstarr að heiðra Dilla með því að útbúa sérstakan stuttermabol (Deckstarr hitaði upp fyrir Dilla á tónleikunum). Bolurinn var svartur með hvítu letri og voru skilaboðin afar einföld: „J DILLA CHANGED MY LIFE.“ Síðan þá hafa samskonar bolir verið framleiddir í stórum stíl og er eftirspurnin væntanlega til marks um áhrif taktsmiðsins heitna (Dilla lést nokkrum vikum eftir umrædda tónleika, þann 10. febrúar 2006) … óhætt er að segja að Dilla hafi haft mikil áhrif á íslenska taktsmiði og íslenskt tónlistarfólk. Meðal þeirra sem hafa sótt innblástur í verk Dilla er ensk-íslenski tónlistarmaðurinn SEINT en í dag frumsýnir SKE nýjasta myndband SEINT við lagið „We Already Know“ (sjá hér fyrir neðan). Líkt og listamaðurinn segir sjálfur frá var hann undir áhrifum Kanye West og J Dilla við smíð lagsins. SEINT heitir réttu nafni Joseph Cosmo Muscat (áður kenndur við sveitirnar Brothers Majere, Celestine og Rímnaríki) og lýsir gjarnan tónlist sinni sem „heimsendapopptónlist („post pop“)og vonar undirritaður innilega að tónlistarmaðurinn reynist ekki sannspár í þeirri lýsingu (svona í ljósi loftslagsbreytinga). Í tilefni útgáfunnar spjallaði SKE við SEINT og forvitnaðist um lífið, listina og ýmislegt annað. SEINT gaf út plötuna „The World Is Not Enough“ í fyrra. Gjörið svo vel. 

Viðtal: RTH
Viðmælandi: Joseph Cosmo

SKE: Sæll og blessaður, hvað segirðu þá? 

 SEINT: Já, sæll, meistari. Ég hef sjaldan verið betri. 

SKE: Þú varst að gefa út myndband við lagið We Already Know. Hvað geturðu sagt okkur um lagið og myndbandið?

SEINT: Heldur betur. Lagið er, mundi ég segja, nýjar krossgötur í verkefninu: mikill óður til þeirra listamanna sem ég hef litið upp til, hvað innblástur varðar, í langan tíma. Mig hefur alltaf langað til að búa til early-J-Dilla-Kanye-esque bíts. Svo lét ég loks verða af því. Myndbandið sjálft var tekið upp í fljótu bragði af meðleigjanda mínum Ívari—á mjög svo snjóríkum degi. Það var vægast sagt kalt á meðan á tökum stóð. En við vorum hæstánægðir með útkomuna. Þeir segja Beauty is pain—ef svo er þá er Art torture (hlær.)

SKE: Hljóðheimur SEINT er sérstæður. Ég held að undirritaður hafi hugsað til Clams Casino þegar hann hlýddi á SEINT fyrst (sem þér finnst kannski fráleitt; svona er mannsheilinn ráðgáta). Hvaða tæki og tól nýtirðu þér í sköpuninni?

SEINT: Ég segi spot on. I’m God með Clams Casino er mitt jam. Ég er alls konar maður þegar það kemur að hljóðheimum annarra pródúsenta. Meðal annars hefur UK senan sterk áhrif hvað sköpun mína varðar. Listamenn á borð við Burial og Synkro eru ósjaldan spilaðir hér heimafyrir, svo ég nefni aðeins örfáa (annars væri listinn endalaus). Annars hef ég notast við forritið Reason í að verða tíu ár núna. Ég hef einungis verið að sampl-a og nota hljóð í forritinu fyrir utan þau örfá skipti þar sem Moog hljóðgervillinn hefur komið við sögu. Auðvitað hyggst ég framlengja hljóðheimim í náinni framtíð í utanaðkomandi hardware og analog—en það kemur allt með kalda vatninu. 

SKE: Það er mikil list að skrifa stutta samantekt yfir lengri fyrirbæri. T.d. ritaði ónefndur aðili eftirfarandi ágrip af kvikmyndinni The Wizard of Oz: „Ung stúlka vaknar upp í fjarstæðukenndu landi og myrðir fyrsta manninn sem á vegi hennar verður. Í kjölfarið gengur hún til liðs við þrjá okunnuga til þess að myrða aftur.“ Ef þú yrðir að rita sambærilegt ágrip af eigin ævi, hvernig myndi sú lýsing hljóða?

SEINT: Verð að viðurkenna að þetta kemur smá flatt upp að mér—en ég skal reyna:  

„Drengur fæðist í Englandi. Flytur til Íslands og elst upp í Breiðholti við mikla fátækt—en fær tónlistina í vöggugjöf. Einstæð þriggja barna móðir hans hvetur hann áfram í sköpuninni í gegnum súrt og sætt. Hann verður ástfanginn oftar en einu sinni yfir ævina en aldrei gengur það upp. Hann stofnar hardcore hljómsveit með bestu vinum sínum og ferðast og spilar mikið. Hljómsveitin hættir. Hann byrjar að skapa tölvutónlist. Klárar tveggja ára nám. Lendir í neyslu. Hýfir sig upp og skapar síðan SEINT.“  

Þetta er aðeins lengra ágrip en fyrirmyndin, þó eins stutt og það verður.  

SKE: Við förum ekki af því að lagið Closing Time eftir Tom Waits sé lag sem allir verða að heyra. Hvaða lag tilheyrir sama flokki að þínu mati? 

SEINT: Ég verð að viðurkenna að þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri þetta lag með Tom kallinum. Þó hef ég auðvitað hlustað mikið á þennan meistara. Fyrir mitt leyti þá er lagið Life on Mars með meistara David Bowie heitnum skylduhlustun. Ég hreinlega elska þennan mann. 

SKE: Þú og Dadykewl gáfuð út lagið About Us fyrir stuttu. Dadykewl er jafnframt í miklu uppáhaldi hjá SKE (höfum hlustað mikið á Sofna með þér undanfarið). Hvernig kom samstarfið til?

SEINT: Það finnst mér gaman að heyra. Við Daði kynntumst fyrst fyrir meira en ári síðan. Við vorum mjög hrifnir af tónlist hvors annars og lá það alltaf fyrir að gera eitthvað sniðugt. Svo í fyrrasumar sýndi ég honum taktinn við About Us og sannfærði hann um að syngja með mér á ensku. Hann átti mjög auðvelt með það strákurinn og lærði ég sjálfur heilmikið af honum á þessu stutta upptökuferli. Þetta verður líklega ekki í síðasta sinn sem við vinnum saman. Ég á eftir að plata hann út í einhverja vitleysu aftur við tækifæri. 

SKE: Uppáhalds tilvitnun eða textabrot?

SEINT: Mjög góð spurning. Ég vísa í tilvitnun sem hefur haft hvað mestu áhrif á mig í gegnum tíðina: 

“Everybody is trying to be Michael Jackson. But what they don’t realize is that you should just be yourself. Then you become Michael Jackson“—Kanye West

SKE: Við erum á því að sama afl sem knýr þróunarkenningu Darwin áfram, á stjarnfræðilegum skala, eigi jafnframt að einkenna lífshlaup hvers manns. Hvernig hefur þú breyst síðastliðin 10 ár (hvort sem það varðar tónlistina eður ei)?

SEINT: Ég trúi því innilega að hver mannvera sé alltaf sú sama í kjarnann frá blábyrjun (að endurholdgun undanskilinni, hvort sem fólk trúir því eður ei). Ég hef aðallega breyst hvað lífstíl og hugarfar varða. Ég hugsa betur um sjálfan mig og borða hollt. Ég elti hlutina sem ég vil í lífinu. Ég er ekki lokaður lengur. Og ég er óhræddur við að koma sjálfum mér á framfæri. Þetta eru hins vegar hlutir sem allir geta lært ef þeir halda sig við það nógu lengi. Tónlistin er auðvitað fylgifiskur alls þess hjá mér. 

SKE: Þú kemur fram á S.A.D. tónlistarhátíðinni á Paloma í byrjun febrúar. Eru þetta tónleikar gegn skammdegisþunglyndi, eins og einhver orðaði það. Ertu viðkvæmur fyrir skammdeginu sjálfur?

SEINT: Já, mikið rétt—gott framtak þar á ferð. Ég er eflaust eins og flestir: ekki mjög hrifinn af skammdeginu þótt að lítill partur af manni sé orðinn vanur því. Ég hef þó ekki upplifað slíkt þunglyndi í þó nokkurn tíma eftir að ég byrjaði að neyta réttu bætiefnin og tók mataræðið í gegn (þetta hefur vegið upp á móti sólarleysinu). 

SKE: Undirritaður þjáist frekar af langdegisþunglyndi; saknar myrkursins á sumrin og verður óttalega vonlaus. Hvað er til ráða?

SEINT: Ég get tengt við það. Það virðist vera besta jafnvægið á milli veturs og sumars hérna á klakanum okkar. En góð ráð fyrir slíku er erfitt að finna þar sem við stjórnum ekki blessaða sólarljósinu eins og er. Kannski í náinni framtíð—hver veit? Eina sem ég get mælt með eru myrkvunargardínur.

SKE: Hvernig lítur árið 2019 út fyrir SEINT?

SEINT: Mjög vel, enn sem komið er. Það er mikið af nýju efni á leiðinni: lög jafnt sem tónlistarmyndbönd. Framtíðin er björt. 

SKE: Var það eitthvað fleira, minn kæri?

SEINT: Svo sem ekki, ljúfur. Eða kannski eitt: Ian Brown er byrjaður að gefa út lög að nýju. Ég er einstaklega ánægður með það.

(SKE þakkar SEINT kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að kynna sér tónlist hans á Youtube og Spotify.)

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing