Orð: Síta Valrún
Ljósmyndir: Aníta Eldjárn
Viðmælendur: Björg Gunnarsdóttir, Una Valrún, Ólöf Jóhannsdóttir og Manuela Ósk Harðardóttir
Á seinasta ári í fatahönnun við Listaháskóla Íslands skila nemendur inn lokaverkefni þar sem þau hanna línu sem sýnd er á útskriftarsýningu Listaháskólans.
Línan samanstendur af sex til tíu settum.
Rannsóknarvinnan byrjar í desember, svo tekur skissuvinna við; bæði á blaði og í efni og svo að lokum verklega lokaferlið sem felst í að sníða, lita efni, þrykkja, prenta og sauma (til að nefna nokkur dæmi). Þessar lokavikur einkennast af miklu stressi, blóði, svita, tárum og síðast en ekki síst svefnleysi sem nær hámarki sínu í spennandi og skemmtilegri tískusýningu þar sem hver nemandi fær að láta sköpunarkraft sinn, hugmyndaflug og færni skína. Nemendurnir fá að mestu leiti frjálsar hendur þegar það kemur að sköpunarferlinu – frá kveikju hugmyndar til lokaútkomu.
Á sýningunni í ár eru allar línur mjög ólíkar og hefur hver sitt yfirbragð, áferð og karakter.
SKE valdi nokkrar úr útskriftarbekknum til að svara spurningum um innblástur, ferli og útkomu:
Björg Gunnarsdóttir
1. Hver var aðal innblásturinn að línunni?
Aðallega fékk ég innblástur af líkamanum og þeim mismunandi tilfinningastigum sem við göngum í gegnum á lífsleiðinni. Ég túlkaði með myndum, litum og efnisvali.
2. Hvaða textíl notast þú við í línunni?
Ég leitaði líka innblásturs til listafólks og varð ég heilluð af verkum Louise Bourgeois. Ég litaði flest öll efnin mín sjálf, vatnsmálaði og þrykkti munstur á.
3. Ertu sátt við útkomuna miðað við upprunalegu hugmyndina?
Já, ágætlega sátt miðað við þann stutta tíma sem fór í vinnslu flíkanna.
4. Hver er draumakúnninn, lífs eða liðinn? Hvern mundi þér finnast mesti heiðurinn/skemmtilegast að klæða?
Það væri draumur að fá að klæða einhvern af mínum uppáhalds fatahönnuðum. Yohji Yamamoto er mjög ofarlega á þeim lista.
Una Valrún
1. Hver var aðal innblásturinn að línunni?
Erfitt að segja í stuttu máli. Rannsóknarferlið var mikið og maður hafði tíma að kafa djúpt í mismunandi heima. Ég fór í ýmsar áttir, týndi saman það sem heillaði mig og að lokum var ég búin að mynda minn eigin heim. Mín lína var persónuleg. Ég notaði mína reynslu sem verkfæri og í rauninni var þetta ferli svolítið læknandi. Línan fjallaði um að lifa í heimi þar sem maður er einskonar „outkast“ og hún fjallaði um að flýja þann heim, fara út í óvissuna og vona að þjáningin taki enda. Ég vildi að endirinn væri fallegur og hljóðlátur. Svo kemur ný byrjun. Ég fékk líka mikinn innblástur frá ljósmyndum, eins og t.d. seríunni Afterlife eftir Nobuyoshi Araki og úr ljóðum af Sylviu Plath og Karin Boye.
2. Hvaða textíl notast þú við í línunni?
Mig langaði að hafa fötin létt og flæðandi, mjög djúsí og „luxurious.“ Efnin voru meðal annars silkiflauel, silki-satin og rifflað flauel. Mjög klassísk efni. Ég vildi lika að efnin væru öll náttúruleg til þess að getað litað þau. Ég notaði bara náttúrulegar litunaraðferðir þ.e.a.s mat til þess að lita. Ég nota t.d avocadohýði fyrir „nude pink“, brómber fyrir gráfjólubláan, rauðlauk fyrir sinnepsgulan, bláber fyrir fjólubláan og rauðkál fyrir grábleikan lit. Ég gerði endalaust af prufum en lokaútkoman var allt önnur en það sem ég ímyndaði mér. Að lita svona var mjög ófyrirsjáanlegt, lita palletan mín kom eiginlega bara í ljós undir lokin á ferlinu. Mér fannst það reyndar bara skemmtilegt og það hentaði línunni minni að vera smá frjáls.
3. Ertu sátt við útkomuna miðað við upprunalegu hugmyndina?
Já, ég er sátt, en það er margt sem ég mun gera öðrvísi næst. Ég mun taka því sem klikkaði sem lærdóm, og við erum náttúrulega bara ennþá að læra. Á lokasprettinum óskaði ég þess að ég hefði lengri tíma, en það er náttúrulega alltaf þannig.
4. Hver er draumakúnninn, lífs eða liðinn? Hvern mundi þér finnast mesti heiðurinn/skemmtilegast að klæða?
Ég væri mega til í að sjá Beyonce, Lísu Bonet og Erykhu Badu saman, allar í mínum fötum, í svakalegri „avant garde“ tísku-art-tónlistar stuttmynd.
Ólöf Jóhannsdóttir
1. Hver var aðal innblásturinn að línunni?
Aðal innblástur línunnar minnar var í grófum dráttum hinn almenni borgari, millistéttar verkamaður, sem kemur úr samfélagi þar sem glamúr og peningar eru allsráðandi.
2. Hvaða textíl notast þú við í línunni?
Ég litaði flest alla ullina sem ég notaði og silkiþrykkti síðan línurnar ofan á. Einnig silkiþrykkti ég allt zebra munstrið sem ég notaði á bæði jakka og buxur. Ég lét síðan „digital“ prenta munstur sem ég bjó til og notaði í jakka.
3. Ertu sátt við útkomuna miðað við upprunalegu hugmyndina?
Já, ég er mjög sátt við útkomuna. Það er alltaf frekar sérstök tilfinning að sjá teikningar verða að alvöru flíkum og er ég mjög sátt hvernig þetta gekk allt hjá mér.
4. Hver er draumakúnninn, lífs eða liðinn? Hvern mundi þér finnast mesti heiðurinn/skemmtilegast að klæða?
Ég veit í rauninni ekki hver væri helsti draumakúnninn en ég held það gæti orðið mjög áhugavert og skemmtilegt að klæða persónu eins og Divine, en ég notaði hana einmitt í rannsóknarvinnunni fyrir línuna.
Manuela Ósk Harðardóttir
1. Hver var aðal innblásturinn að línunni?
Aðal innblástur eru Beat skáldin Jack Keuorac og William Burroughs, þeirra ljóðlist og lífstíll. Línan var líka mjög innblásin af graffíti – en ég fékk til liðs við mig Óla Gumm, graffitilistamann, sem hjálpaði mér að útfæra mínar hugmyndir. Línan hefur líka Los Angeles 90s hip hop fíling – og átti að vera örlítið unisex með „oversized“ silúettur.
2. Hvaða textíl notast þú við í línunni?
Ég var að vinna með meðhöndlað leður, denim og bómull – en aðaláherslan hjá mér var á prent. Ég lét bæði „digital“ prenta fyrir mig, prentaði sjálf með silkiþrykki og spreyjaði og málaði svo beint á efnið.
3. Ertu sátt við útkomuna miðað við upprunalegu hugmyndina?
Í heildina er ég mjög sátt og það var bara skemmtilegt að sjá línuna þróast í ferlinu.
4. Hver er draumakúnninn, lífs eða liðinn? Hvern mundi þér finnast mesti heiðurinn/skemmtilegast að klæða?
Ég á mér svo sem engan draumakúnna en Miley Cyrus, ung Drew Barrymore og Svala Björgvins eru allar týpur sem myndu rokka þessa tilteknu línu betur en flestir.
Hér má sjá fleiri myndir eftir Anítu Eldjárn