Auglýsing

Saga dab-sins

Það
eru allar líkur á því – þ.e.a.s. ef þú ert ekki að veslast
upp á landsbyggðinni (á Sauðárkróki, t.d.) – að þér hefur
nýlega verið skotið skelk í bringu af óvæntum flogaköstum
íslenskra ungmenna.

Kannski
varst þú að rölta í gegnum Kringluna, eða að lalla um á
Klambratúni, er fallegt höfuð ungs manns (eða ungrar konu) féll
skyndilega niður í innanverðan olnbogann, á meðan hin höndin
skaust aftur fyrir ungmennið og stífnaði, líkt og að
handleggurinn væri stinnur vængur framúrstefnulegs flugtækis.

Líklegast
hefur þú rakið uppsprettu þessa vöðvakrampa til viðleitni
ungmennisins til að kæfa hnerra, í þágu kurteisinnar – en þér
mun hafa skjátlast.

Þetta
hefur ekkert með hnerra að gera.

Þetta
undarlega athæfi nefnist Dab meðal ungdómsins og segja má
að þessi hátíðlega athöfn sé yfirleitt framkvæmd í
fögnunarskyni – eða til þess að lýsa yfir ánægju. Endrum og
eins Dab-a menn í kómískum tilgangi.

Dab-ið
á rætur að rekja til Bandaríkjanna, nánar tiltekið til Atlanta
í Georgíufylki. Sagan segir að í ársbyrjun 2015 hafi nokkrir
meðlimir Hip-Hop senunar í Atlanta fundið upp „dansinn,“ sem
varð síðar vinsæll þegar bandarískar ruðningshetjur léku
eftir stælunum í beinni útsendingu.

(Hins
vegar hafa aðrir sagnfræðingar kastað þeirri kenningu fram að
Dab-ið eigi rætur að rekja til franska hershöfðingjans
Dabalowsky (sem ættaður var frá Póllandi), sem átti stóran þátt
í sigri Napóleons í bardaganum við Austerlitz. Eftir orrustuna á
hann að hafa drukkið þrjár beljur af Chateaux Margaux og í
sigurvímu sinni fundið upp Dab-ið.)

Frægasti
stuðningsmaður Dab-sins er án efa knattspyrnumaðurinn Paul Pogba
(landi Dabalowsky); hann hefur skarað framúr á sviði Dab-sins og
þykir sérdeilis tignarlegur þegar hann beygir sig og hneygir.

Sumir
vilja meina að Dab-ið sé í dauðateygjunum, en aðrir telja
dansinn vera lífvænlegan.

Hvað
um það.

Til
þess að koma í veg fyrir vandræðaleg augnablik á mannamótum,
viljum við koma á framfæri nokkrum örstuttum reglum hvað Dab-ið
varðar, þ.e.a.s. hvað má og hvað má ekki.

  1. Ekki
    er heimilt að Dab-a ef maður er stjórnmálafræðingur eða ef
    maður gegnir opinberu embætti (Katrín Jakobsdóttir fær
    hugsanlega undanþágu).
  2. Ekki
    skal Dab-a ef maður er kominn vel á fertugsaldurinn.
  3. Ef
    viðkomandi ætlar sér að Dab-a verður hann að Dab-a að mikilli
    innlifun og einlægni; ekkert hálfkák dugar til.
  4. Ef
    þú gengur rallhálfur niður Laugaveginn seint á laugardagskvöldi
    og æst ungmenni Dab-ar í áttina til þín, ber þér skylda að
    svara í sömu mynt; eins og segir á góðri ensku: “Don’t leave
    a brother (or a sister) hanging.”
  5. Vertu
    ávallt var um umhverfið þitt áður en þú
    Dab-ar. Ekkert er verra en að slá mann í rot með Dab-vængnum.
    Nema hinn sá sami eigi það fyllilega skilið.

Vitaskuld
eru þetta fremi slappar reglur, en reglur sem ber að virða engu að
síður.

Orð: Friðrik Níelsson

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing