Íslenskt
Raftónlistarmaðurinn SEINT hefur verið iðinn við kolann undanfarin misseri en ásamt því að koma fram á Eistnaflugi og Secret Solstice í ár þá vinnur hann einnig hörðum hönum að smáskífu í samstarfi við söngkonuna og lagahöfundinn KRÍU. Platan er væntanleg í haust.
Síðastliðinn 29. júlí leit myndband við fyrsta lagið frá samstarfi þeirra dagsins ljós en lagið ber titilinn They Live (sjá hér fyrir ofan). Lagið sjálft kom út í fyrra og er að finna á annarri smáskífu SEINT, Post Pop (SEINT pródúseraði lagið en KRÍA sá um söng og texta).
Þess má geta að SEINT kýs að skilgreina tónlist sína sem „Heimsendapopp“ og vill hann jafnframt meina að hann sé fyrsti tónlistarmaðurinn sem tilheyrir þeirri stefnu.