Íslenskt
Nýverið gaf hljómsveitin Tálsýn út sína fyrstu stuttskífu, ep1, og geymir platan fjögur lög (lesendur geta hlustað á plötuna hér fyrir ofan). Um ræðir gítardrifið rokk en í raun má segja að alls kyns stefnur skjóti upp kollinum á stuttskífunni.
Aðspurðir segjast meðlimir Tálsýnar einmitt vera að þróa sinn eigin hljóm:
„Þegar við stofnuðum hljómsveitina ræddum við hvernig tónlist við vildum semja og lögin komu fljótt um leið og við byrjuðum að spila saman. Þau voru samt alls ekki í þeirri stefnu sem við höfðum ákveðið í upphafi, en hey, svona gerast bara hlutirnir. Við ákváðum því að dvelja ekki of lengi við þetta, heldur koma lögunum frá okkur fljótt og örugglega svo við gætum snúið okkur að næstu plötu. Það er sem sagt stefnan hjá okkur að að gefa út þrjár fjögurra laga plötur og þannig skrásetja þroskaferli hljómsveitarinnar. Þá verðum við vonandi komnir með gleggri mynd hvert við stefnum.“
– Tálsýn
Tálsýn er nýstofnuð hljómsveit en þó hafa meðlimir hljómsveitarinnar allir verið virkir í öðrum hljómsveitum áður, sem dæmi má nefna Jan Mayen, Lokbrá og Quest. Þeir segjast ekki ætla að fagna þessari útgáfu með þar til gerðum útgáfutónleikum.
„Við erum strax farnir að skipuleggja ep2 og stefnum á upptökur í ágúst eða september. Þegar við verðum búnir að því ætlum við að telja í nokkra tónleika því þannig er best fyrir fólk að kynnast bandinu.“
– Tálsýn
Þess má geta að lagið Ótrúlegt er farið að heyrast á öldum ljósvakans og hefur Tálsýn getið sér gott orð undanfarið sem fjörug tónleikasveit.
„Það er því auðveldlega hægt að lofa því að þessi tálsýn svíkur engan,“ bæta strákarnir við.
Hér fyrir neðan er hægt að hlusta á ep1 á Youtube: