Auglýsing

Þóra Karítas Árnadóttir

„Það kom sterkt til mín að ef ég þraukaði upp á topp í svona lélegu formi þá myndi mér líka takast að klára bókina“

Leikkonan, framleiðandinn og rithöfundurinn Þóra Karítas Árnadóttir hefur mörg járn í eldinum. Auk þess að leika í sjónvarpi og á sviði lætur hún til sín taka sem framleiðandi bakvið tjöldin, og fyrir skemmstu kom út fyrsta bók Þóru, Mörk. Bókin sem hún byggir að miklu leyti á sögu móður sinnar hefur hlotið góðar viðtökur og mikið lof, er áhrifarík og falleg. Ske setti sig í samband við Þóru og ræddi við hana um Mörk, skriftir, leik og sitthvað fleira.


Fram til þessa hefurðu einkum verið þekkt af leik, hefurðu fengist lengi við skriftir?

Ég var mjög ung þegar ég byrjaði að skrifa bækur í huganum og vinna úr upplifunum með því að ímynda mér að fólk í kringum mig væri persónur í bók sem ég væri að skrifa. Mín fyrsta bók var skrifuð þegar ég var fimm eða sex ára en hún fjallaði um hvað ég þráði að eignast lítið systkini og endaði vel. Ég lék mér með orð og setti saman vísur sem barn og unglingur og vann sem blaðamaður um tíma. Snemma lét ég mér detta í hug að ég yrði jafnvel rithöfundur þegar ég yrði stór en er ég komst að því að flestir væru yfir þrítugt þegar þeir gæfu út sína fyrstu bók fannst mér ég þyrfti að bíða í óratíma þar til ég næði þeim aldri og var því ekki viss um að ég hefði þolinmæði til að halda í hugmyndina um að gefa út bók. Þessi löngun blundaði þó enn í mér þegar ég fór í leiklistarnám fyrir um áratug síðan en ég vonaðist til að geta involverað skrifin inn í sköpunina að loknu námi og snerta á fleiri flötum en að leika. Einn kennarinn minn hvatti mig til að vera alltaf með stílabók á mér því hugurinn fór svo oft á flug að það truflaði stundum einbeitinguna í náminu að vera skrifa bækur í huganum. Hvernig form listin tekur sér skiptir ekki endilega máli í mínum huga en ef maður hefur ríka tjáningar- eða sköpunarþörf þáskiptir það sköpum að finna rétt form og farveg fyrir það sem liggur manni á hjarta hverju sinni. Það er svo margt sem blundar innra með manni ef vel er að gáð og ég trúi að það sé gott að dreyma stórt og reyna að grípa og jarðbinda draumana með því að setja sér raunhæf, tímasett markmið og sjá fyrir sér að þannig geti draumarnir smám saman ræst.

Nýútkomin bók þín, Mörk, hefur þegar vakið mikla athygli og umtal. Hafa viðbrögðin í einhverju komið þér á óvart?
Já, sólin byrjaði að skína í útgáfupartýinu og hefur ekki hætt að skína síðan, það kom skemmtilega á óvart. Einnig hve margir eru til í að lesa og tala fallega um bókina og hve örlátir lesendur eru við að hafa samband og deila hugleiðingum sínum um lesturinn og samgleðjast okkur mömmu með útgáfu bókarinnar. Mér þykir afar vænt um það og finnst ég bara heppin að hafa fengið að vera með og sjá þetta allt verða að veruleika. Að draumur minn um að gefa út bók hafi ræst í leiðinni er bónus.

Söguna byggirðu mikið til á sögu móður þinnar. Hvað varð til þess að þú afréðst að skrifa hana núna?
Það sem réði úrslitum var að mamma var loks tilbúin til að segja sögu sína. Hún var það ekki fyrir rúmum áratug síðan þegar ég fór þess á leit við hana. Síðan liðu þrettán ár og ég var búin að afskrifa að sagan hennar kæmi út á bók. Svo þegar ég samdi smásögu um efnið af því ég hafði þörf fyrir að tjá mig um að skilja betur reynslu hennar varð úr að ég las hana upphátt fyrir hana á 61 árs afmælisdaginn og þá var hún allt í einu tilbúin til að tjá sig meira og við ákváðum að ráðast í verkefnið í sameiningu. Hún var sátt við að ég fengi að halda á pennanum og það réði úrslitum. Sáttin hennar og löngun til að saga hennar yrði sögð. Þessi saga hafði legið lengi í loftinu og var að mínu mati að bíða eftir að mega fæðast svo eftir á að hyggja var í raun lengi vel bara tímaspursmál hvenær hún kæmi út.


Eðli málsins samkvæmt hlýtur maður að spyrja hvort ritferlið hafi ekki tekið á, verið erfitt viðureignar?

Ég væri að ljúga ef ég segði að þetta hefði verið lauflétt en að sama skapi fólst mikill léttir í því fyrir mig að mega loksins tjá mig almennilega um og draga fram í dagsljósið það sem hafði farið fram í leynum og var falið í skuggum fortíðarinnar. En þetta var margþætt ferli. Fyrir utan að efnið væri átakanlegt vissi ég til dæmis ekkert hvort mér tækist að skrifa bók en mér var mjög umhugað um að vanda til verks til að heiðra mömmu og reyna að skrifa hana eins vel og ég teldi að hún hefði gert ef hún hefði skrifað bókina sjálf. Ég man ég fór í fjallgöngu þegar boltinn fór að rúlla af stað og var í skammarlega lélegu formi þegar ég lagði upp á fimmhundruð metra bratt fjall. Það kom sterkt til mín að ef ég þraukaði upp á topp í svona lélegu formi þá myndi mér líka takast að klára bókina. Þetta varð táknrænt fyrir mér. Ég vissi að það þyrfti andlegt þol kryddað þrjósku og þolinmæði til að þrauka ferðalagið og íraun voru skrifin svipað ferli. Ég þurfti stundum að taka mér pásu og anda en ég missti aldrei sjónar af því að komast upp á topp. Svo eins og í fjallgöngum grípur fögnuður mann þegar manni tekst að ljúka ætlunarverkinu en mitt í þessu ferli þegar ég var á fullu að skrifa bókina spurði fyrrum skólafélagi minn úr leiklistarskóla í London einmitt þessarar sömu spurningar og þú spyrð nú, hvort þetta væri ekki erfitt. Ég var úti að borða með honum og kærustunni hans og svaraði þeim að það kæmi mér á óvart hversu átakalaust ferlið væri. Tveimur tímum síðar var ég á vinnustofunni minni fyrir framan tölvuna að skrifa með krónísk tár streymandi niður kinnarnar að skrifa af því að ég tók efnið svo nærri mér, þá fattaði ég að ég hefði í raun verið íákveðinni afneitun um að þetta tæki á. En á meðan á ferlinu stóð og eftir á að hyggja er einfaldlega ofar í huga mínum hve hollt þetta ferli var og því missti ég ekki sjónar á því að halda áfram þótt tímabil hefðu komið þar sem ég hvíldi mig á efninu til að það væri ekki of yfirþyrmandi – uppskeran jú hefur því komið mjög ánægjulega á óvart og endorfínið flæðir um líkamann eins og að fjallgöngunni lokinni.

Ertu byrjuð á næsta verki?

Ég bjóst ekki við að ég myndi ráðast aftur í að skrifa bók en ég finn að eitthvað er farið að ólga í

undirvitundinni og mér finnst þetta krefjandi og spennandi vettvangur sem hentar mér vel því þar stjórna ég sjálf hvenær og hvort ég er að skapa ólíkt leiklistinni þar sem það er mestu leyti háð verkefnum og samstarfsfólki. Það eru tvær hugmyndir að slást um pláss innra með mér og ég veit bara að ég verð að gefa því tíma til að koma í ljós hvort þær yfirgefa mig eða hvað ég veðja á næst. Það er langur tími og mikil orka og vinna sem fer í að skrifa bók og það er því eins gott að velja vel ef maður leggur aftur af stað í slíka óvissuferð. Þegar rétta viðfangsefnið mætir svo á svæðið fer það ekkert á milli mála. Það rúllar eitthvað af stað sem er stærra en maður sjálfur og mín reynsla er sú að ef hugmyndin ætlar sér í gegn þá finnur hún leið.

Myndirðu íhuga að leita aftur fanga í nærumhverfi þínu þegar kemur að efnisvali?

Ég horfi mikið á það sem er í kringum mig en mér er minnistætt að Þorvaldur Þorsteinsson hvatti þá sem hafa áhuga á að skrifa til að taka eftir því sem tekið er eftir. Það safnast einhvern veginn upp kaflar meðan ég lifi lífinu en stundum er ég ekki nógu hlýðin við að setjast niður þegar blaðsíðurnar birtast í kollinum á mér og úr því þarf ég að leyfa mér að bæta. Ég á mjög auðvelt með að sjá ævintýri í augum fólks og langar oft að skrifa bækur um fólk sem á magnaðar sögur að segja. Ég fann ákveðna löngun til að teygja mig enn meir út í skáldskapinn í
Mörk og leyfði mér það á köflum en það er ansi fínlegt og óljós mörk milli skáldskapar og veruleika en allt gert með þeim hætti að það er aldrei á kostnað þess sára sannleiks sem birtist í bókinni. Þar er ekkert ýkt eða neinu bætt við. Ef ég legðist aftur í að skrifa bók sem byggir á raunverulegu fólki myndi ég að öllum líkindum fara út fyrir fjölskylduna. Annars er líklega best að fullyrða ekki neitt því hver veit hvar næsta saga leynist.

Tveimur tímum síðar var ég á vinnustofunni minni fyrir framan tölvuna að skrifa með krónísk tár streymandi niður kinnarnar að skrifa af því að ég tók efnið svo nærri mér

– Þóra Karítas

Hvað ertu að fást við um þessar mundir?

Ég var að framleiða stuttmynd sem heitir Regnbogapartý og er eftir Evu Sigurðardóttur og taka upp ferðaþætti á Vesturlandi og um Vestmannaeyjar fyrir Icelandair og Saga film en ég sé um handritaskrif og þáttastjórn á efninu sem er ætlað ferðamönnum sem eru að heimsækja Ísland og þættirnir eru sýndir á Youtube og um borð í flugvélum Icelandair.

Megum við gera ráð fyrir að sjá þig á skjám eða sviði í nálægri framtíð?

Ég mun birtast í nokkrar sekúndur á skjánum í nýrri seríu sem heitir Sense 8 í júní en hún er framleidd af Netflix og var að hluta til tekin hér á Íslandi. Leikstjórar seríunnar eru hin mögnuðu systkini Lana og Andy Wachowski sem leikstýrðu Matrix en það var mjög inspirerandi að hitta þessi heillandi, hlýju og samrýmdu systkini og sjá stiklu úr seríunni í lokahófi. Eftir að hafa séð brot af þættinum býð ég spennt eftir seríunni því ímyndunarafl Wachowski-teymisins takmarkast ekki við hefðbundinn tíma eða víddir og þau blanda saman ótrúlega mörgum menningarheimum og áhugaverðum persónum og stöðum í þáttunum.

Ég þakka Þóru kærlega fyrir spjallið og óska henni hjartanlega til hamingju með bókina og velgengni í hverju því sem hún tekur næst höndum.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing