Í bílnum
Síðastliðinn 23. febrúar var kvikmyndin Fullir vasar tekin til almennrar sýningar í öllum helstu kvikmyndahúsum landsins. Kvikmyndin segir frá fjórum mönnum sem ræna banka til þess að eiga fyrir tugmilljóna skuldum eins þeirra, Arnars Thor, við hættulegasta mann Íslands, Gulla bílasala, sem leikinn er af Ladda.
Umræddur skuldunautur (Arnar Thor) er leikinn af Hjálmari Erni Jóhannssyni sem hefur, líkt og aðrir leikarar myndarinnar, gert það gott á SnapChat og þá undir viðurnefninu Hjammi.
Fyrir fáeinum dögum síðan kíkti SKE á rúntinn með Hjálmari Erni og forvitnaðist um kvikmyndina, Snappið og ýmislegt annað (sjá hér fyrir ofan). Líkt og fram kemur í viðtalinu var talsvert erfiðara að leika í kvikmynd en Hjálmar reiknaði með:
„Ég lærði það að það er töluvert erfiðara að leika en ég hélt. Ég er svo heppinn með Anton (Anton Sigurðsson, leikstjori myndarinnar), því hann stýrði mér þannig að hann leyfði mér svolítið að fabúlera. Ég á rosalega erfitt að fara með (…) fyrirfram ákveðinn texta … það hefur hjálpað mér alveg rosalega mikið, og ég held að það sé að hjálpa alveg fullt af krökkum í dag, það er að vera með SnapChat-ið. Að vera alltaf fyrir framan myndavél … og vera alltaf að taka upp sjálfan sig.“
– Hjálmar Örn Jóhannsson
Hér fyrir neðan má svo sjá stiklu úr kvikmyndinni Fullir vasar.