Viðtöl
SKE: Fyrr á þessu ári gaf hin breska Arlo Parks út lagið „Super Sad Generation“ (Ofursorgmædda kynslóðin) sem hefur notið talsverðra vinsælda á Soundcloud og Spotify. Titill lagsins vísar í Z-kynslóðina, sem að mati Parks er kviksjá dapurleika, ástríðu og kvíða: „Það má segja að það sé furðuleg blanda depurðar og einlægni sem gegnsýrir þessa kynslóð.“ Íslenska tónlistarkonan og ljóðskáldið Ingibjörg tilheyrir þessari kynslóð—fólk sem er fætt á árabilinu 1995-2005 tilheyrir Z-kynslóðinni—en ólíkt jafnöldrum sínum, þ.e.a.s. ef eitthvað er að marka uppáhalds tilvitnun hennar, þá streitist Ingibjörg gegn þessum stimpli: „Það er ekkert mál að vera vansæll,“ segir hún, og vísar í Thom Yorke: „Það er erfiðara, og svalara, að vera hamingjusamur.“ Finnst undirrituðum þetta vera stórgóð speki (þó það sé vissulega ýmislegt til að svekkja sig yfir). En hvað um það … Ingibjörg gaf nýverið út lagið „Dance Again“ og í tilefni útgáfunnar heyrði SKE í Ingibjörgu og spurði hana út í listina og lífið. Gjörið svo vel.
Viðtal: RTH
Viðmælandi: Ingibjörg Helga Steingrímsdóttir
SKE: Nú er Verslunarmannahelgin genginn í garð: Gerðirðu eitthvað sniðugt og hvaða lag hlýddirðu oftast á?
Ingibjörg: Um verslunarmannahelgina fór ég til Vínar með vinum mínum og nú erum við í Ungverjalandi í kastala þar sem við ætlum að njóta lífsins í 10 daga í hitanum. Lagið sem hefur verið á repeat þessa dagana er Juice með Lizzo því það kemur manni alltaf í gott skap og er alveg tilvalið að dansa við.
SKE: Fyrir þá sem ekki þekkja til Ingibjargar Helgu—hver er hún og fyrir hvað stendur hún?
Ingibjörg: Ég er 23 ára tónlistarkona og ljóðskáld úr Kópavoginum. Góð tónlist hefur verið mikill bjargvættur í mínu lífi og ég vil að fólki líði vel þegar það hlustar á tónlistina mína. Þá er takmarkinu náð.
SKE: Þú varst að gefa út lagið Dance Again. Hvernig kom lagið til og hvernig var sköpunarferlið?
Ingibjörg: Lagið kom fyrst til mín þegar ég skrifaði nokkrar textalínur upp í tölvunni minni. Ég pældi reyndar ekki í þeim í margar vikur fyrr en ég rambaði á góðan hljómagang á píanóinu sem mér fannst hljóma vel við textann. Ég prófaði að blanda lagi og texta saman og fannst undirstöðurnar nógu fínar til þess að leika mér með þetta og fínpússa í nokkra daga.
SKE: Grundvallast texti lagsins í raunveruleikanum eða er þetta alfarið spuni?
Ingibjörg: Minn innblástur fyrir textann var auðvitað mitt líf og umhverfi en ég setti líka inn orð sem pössuðu við þemað: það að líða vel og finna gleðina í því að þora að vera maður sjálfur. Þegar maður er kominn með eina hugmynd er ekki svo erfitt að halda áfram að spinna textann.
SKE: Undirritaður er á því að lagið Closing Time eftir Tom Waits eigi erindi til allra tónlistarunnennda. Að þínu mati: Eitt lag sem allir verða að heyra—og hvers vegna?
Ingibjörg: Mér finnst að allir ættu að hlusta á lagið Bandit með Neil Young, þó það væri ekki bara nema fyrir viðlagið: „Some day you’ll find everything you’re looking for.“ Lagið hefur einfaldan boðskap sem allir hafa gott af því að heyra við og við; að það sé allt í lagi að hafa ekki allt á hreinu og að framtíðin hafi alltaf möguleika á því að vera stórkostleg. Þess fyrir utan er þetta einstaklega fallega gerð tónsmíð.
SKE: Uppáhalds tilvitnun eða textabrot?
Ingibjörg: Uppáhaldstilvitnunin mín er, „It’s easy being miserable. Being happy is tougher—and cooler.“
– Thom Yorke
SKE: Bandaríski rithöfundurinn William Faulkner sagði eitt sinn að „aðeins átök hjartans eru verðug þess að skrifa um.“ Hvaða togstreita brýst um í hjarta Ingibjargar Helgu um þessar mundir?
Ingibjörg: Aðaltogstreitan sem brýst um í mér þessa dagana er að vera að flytja til Þýskalands og geta ekki fengið mér pítusósu og hitt vini mína og fjölskyldu hvenær sem ég vil í náinni framtíð.
SKE: Hvaða bók hefur haft hvað mestu áhrif
á þig?
Eleanor Oliphant Is Completely Fine fannst mér vera besta og mannlegasta bók sem ég hef lesið í langan tíma. En annars held ég að Bernskubók, Táningabók og Minnisbók Sigurðar Pálssonar hafi haft mjög djúpstæð áhrif á mig svo ég get innilega mælt með þeim líka.
SKE: Eitthvað að lokum?
Að lokum: dansaðu aftur.
(SKE þakkar Ingibjörgu kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að gefa laginu „Dance Again“ gaum. Hér fyrir neðan er svo lagið „Super Sad Generation“ eftir Arlo Parks.)