Auglýsing

„Var mjög góður og samviskusamur námsmaður.“—SKE spjallar við Magnús Trygvason (ADHD)

Viðtöl

SKE: Í epísku viðtali við tímaritið Vulture frá því í fyrra viðurkenndi bandaríski tónlistarmaðurinn Quincy Jones að honum hafi ekki þótt mikið til trommarans Ringo Starr koma: „Paul var versti bassaleikari sögunnar og Ringo? Gleymdu því.“ Máli sínu til stuðnings vísaði Quincy í atvik sem átti sér stað í ónefndu hljóðveri, þar sem Ringo var búinn að rembast í þrjár klukkustundir við stutta trommusyrpu, þegar Quincy missti þolinmæðina og stakk upp á því að hann tæki sér pásu. Á meðan Ringo skrapp frá plataði Quincy djasstrommarann Ronnie Verrell til þess að hljóðrita syrpuna í laumi, og er Ringo snéri loks aftur í hljóðverið og hlustaði á upptöku Verrell sagði hann: „Þetta hljómar alls ekki illa.“ Svaraði þá Quincy, líklega í hálfum hljóðum: Einmitt, vegna þess að þú ert ekki að spila!“ („Yeah, motherfucker, because it ain’t you!“). Undirrituðum þykir líklegt að Magnús Trygvason Eliassenstundum titlaður Trommari Íslandshefði, líkt og Verrell, farið létt með trommusyrpuna sem vafðist svo fyrir Ringo; Magnús er t.a.m. einn fárra íslenskra trommara sem tekst að leika eftir óhefðbundri sveiflu Jay Dilla á trommunum á trúverðugan hátt (segja þeir sem hafa vit á málunum) … hvað sem þeim vangaveltum líður heyrði SKE í Magnúsi fyrir stuttuog þá í tengslum við útgáfutónleika hljómsveitarinnar ADHD í lok maí. Sveitin fagnar útgáfu plötunnar „ADHD7“ næstkomandi 23. maí á Græna Hattinum á Akureyri og 24. maí í Kaldalóni í Hörpunni. Líkt og fram kemur í viðtalinu var Magnús sjaldnast látinn sitja eftir og var, að eigin sögn, ágætis námsmaður. Gjörið svo vel.  

Viðtal: RTH
Viðmælandi: Magnús Trygvason Eliassen

SKE: Sæll og blessaður, hvað segirðu þá?

Magnús Trygvason Eliassen: Ég hef það fínt. Takk.

SKE: 8. mars síðastliðinn gáfuð þið ADHD-menn út plötu sem heitir því frumlega nafni ADHD7 og er—eins og titilinn gefur til kynna—sjöunda plata sveitarinnar. Er þetta bara leti, allir þessir tölustafir?

M: Þetta er plata númer 7. Hví ekki að kalla hana ADHD7? Nei, ég bara spyr!

SKE: Öllu gamni sleppt: ADHD7 er vönduð plata. Lagið Stulli er í ákveðnu uppáhaldi. Hver er sagan á bak við lagið? 

M: Ómar samdi það í kafi. Mjög gaman.

SKE: Svo ég spóli aðeins til baka. Undirritaður fann enga heimild fyrir því hvaðan nafn sveitarinnar kemur. Hvaðan kemur þetta? 

M: Ýmsar ástæður—sem eru hernaðarleyndarmál. Sorrý.

SKE: Er það ekki rétt skilið að Tómas Jónsson sé búinn að taka við hlutverki Davíðs Jónssonar? Hvers vegna?

M: Davíð er í smá pásu. Það eru allir vinir og mjög gaman! En Tommi hefur túrað með okkur undanfarin tvö ár og er nú meðlimur. 

SKE: Hljómsveitin fagnar útgáfu fyrrnefndrar plötu á Græna hattinum 23. maí og í Kaldalóni (í Hörpu) 24. maí. Sjálfur hefur þú spilað á ófáum hljómleikum—en hvaða gigg stendur upp úr?

M: Veit það ekki alveg … ég man það fyrir næsta viðtal.

SKE: Vinsælasta lag ADHD á Spotify heitir í höfuðið á þér—enda suddalegur á trommunum í því lagi, eins og svo oft áður. Hvaða lag þykir þér vænst um, úr eigin smiðju?

M: Mér þykir vænt um öll lögin mín!

SKE: Rúmlega 500.000 manns hefur horft á tónleika ADHD á KEX á Youtube. Vinsælasta athugasemdin fyrir neðan myndbandið er svohljóðandi: „Það er líkt og að stærðfræði- og sögudeildin hafi komið sér saman til þess að spila tónlist, en áttað sig svo á því að það vantaði trommara; kom svo í ljós að maðurinn sem gjarnan var látinn sitja eftir, er ansi fær slagverksleikari.“ Því er ekki úr vegi að spyrja: Varstu oft látinn sitja eftir í skóla?

M: Vá! Geggjaðar athugasemdir! Ég var mjög góður og samviskusamur námsmaður, ótrúlegt en satt, þannig að ég var ekki látinn sitja eftir mjög oft, sko …

SKE: Í annarri athugasemd er þér líkt saman við karakterinn Jesse Pinkman úr Breaking Bad. Í því samhengi: Hvað ertu að horfa á þessa dagana og mælirðu  með einhverju?

M: Ég var að klára Star Trek: Discovery þáttaröð númer tvö. Frábært sjónvarpsefni!

SKE: Sem trommari Íslands, hvaða þrjú lög geyma trommuleik sem veita þér mestu ánægju? 

M: Taking Flight með Vijay Iyer tríóinu, trommað af Marcus Gilmore.

Stratus, samið og trommað af Billy Cobham.

Oliloqui Valley eftir Herbie Hancock, trommað af Tony Williams.

SKE: Undanfarið höfum við hlustað mikið á Delvon Lamarr Organ tríóið. En þú?

M: Á það alveg eftir…

SKE: Eitthvað að lokum? 

M: Bara. Það verður mjög gaman á útgáfutónleikunum okkar. Við loooofum!

(SKE þakkar Magnúsi kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að tryggja sér miða á útgáfutónleika ADHD 23. og 24. maí.)

Miðasala: https://tix.is/is/harpa/event/7974/adhd-utgafutonleikar/

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing