Auglýsing

Ylja hlustar á Límonaði en ekki á Útvarp Sögu

Það er ekki langt síðan að ég hoppaði á Ylju „lestina.“ Það er ekki langt síðan að sökum þess að ég hafði ekki áttað mig á ágæti þessarar eimreiðar – útsýnisins sem hún býður upp á og tónunum sem hljóma þar um borð. Það gerðist fyrir tveimur vikum síðan. Vinafólk mitt frá Bandaríkjunum var á landinu. Við fórum Gullna Hringinn. Ég ætlaði mér að búa til „mixtape“ með sígildum íslenskum lögum þegar ég álpaðist á nýjasta lag Ylju, Í spariskóm – og ákvað að kafa dýpra; þar sem ég hafði áður fyrr staðið áhugalaus við hlið teinanna og horft í aðra átt er Ylju lestin þaut framhjá, áttaði ég mig nú á þeim mistökum sem ég væri að gera – og tók á rás, byrjaði að elta vagninn. Ég spretti eftir teinunum sem klunnalegur kúreki í lélegum Vestra og rétt náði taki á handriðinu á aftasta vagni. Nú er ég farþegi. Aðdáandi. Stuðningsmaður. Ef ég væri ekki í flugi yfir Atlantshafið væri ég á leiðinni með Ylju lestinni á tónleika í kvöld – á Bryggjunni Brugghús. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og er frítt inn. Í tilefni þess setti ég mig í samband við Ylju og lagði fyrir þau nokkrar viðeigandi spurningar:

Já, góðan daginn. Hvað segið þið í Ylju gott?

Góðan daginn. Við erum alveg blómstrandi hress.

Gott að heyra. Þið senduð frá ykkur lagið Í spariskóm nú á dögunum, sem er afskaplega fallegt lag. Maður skynjar ákveðna angurværð í texta lagsins. Getið þið farið nánar út í það?

Tilfinningin sem maður fær þegar vorið er að koma, það birtir yfir öllu og eftirvænting er í loftinu eftir langan og drungalegan vetur. Maður gleymir depurðinni sem oft fylgir vetrinum þegar maður sér glitta í vorið og þá er tími til kominn að dusta rykið af spariskónum og njóta tilverunnar í góðra vina hópi.

Eru fleiri lög í vændum á næstunni?

Já, við erum með nokkur í bígerð sem við erum spennt fyrir. Stefnan er sett á aðra plötu en við ákváðum að vera ekki að setja neina pressu á okkur í þeim efnum, leyfa þessu bara að gerast í góðum fíling.

Simon og Garfunkel eða André 3000 og Big Boi (Outkast)?

…Monsi og Keli allan daginn.

Þið spilið á Bryggjunni í kvöld … ef þið yrðuð að „pitch-a“ tónleikana í stuttri lyftuferð, hvernig væri sú söluræða?

Betri uppskrift að mánudagskvöldi er varla hægt að finna: Geggjaður staður, klikkaður bjór og matur, gúrme veðurspá og Ylja í gúmmelaði næs fíling með bæði nýtt og gamalt efni… Og bíddu, bíddu, bíddu… Það er líka frítt inn!

Hvað eruð þið að hlusta á þessa dagana – og hvað eruð þið ekki að hlusta á?

Við hoppuðum t.d. öll um borð í svalandi Límonaði-lest hennar hátignar Bjé. – Gott stöff.

Við erum ekki að hlusta á Útvarp Sögu.

Hvern styður Ylja til embættis forseta Íslands?

Náttúran, menningin, móðurmálið, kynjajafnrétti… Við styðjum Andra Snæ.

Fyrir tveimur árum síðan ritaði ritaði Joe C eftirfarandi orð undir Youtube myndbandi af Ylju að spila á KEX-P: „Of Monsters and Men pretty much sound the same as these guys, and they’re huge. If these guys did more songs in English like ‘Fall’ then they would be a lot more successful seeing as the two singers are incredibly hot, instead of one fat guy and a meh-looking woman. hvað finnst ykkur um þessi ummæli Joe C?

Karma mun bíta Joe C harkalega í afturendann fyrir að gera lítið úr Ragga, sem er ekki bara rosa sætur strákur heldur löðrandi af sjóðheitum hæfileikum. – Og þau bæði! Síðan fer sjúklega í taugarnar á okkur þegar útliti er blandað inn í umræður um gæði tónlistar.

Ef Ylja yrði að lýsa sjálfri sér eins og skipi í Ha Long flóa í Víetnam – hvernig myndi sú frásögn hljóða?

Ylja er skip sem flestir ættu að geta notið sín á. Ýmsar spennandi pakkaferðir í boði; Allt frá rólegum kajak siglingum umluktum ævinýralega fallegu útsýni, hugljúfum, dreymandi sólböðum í hengirúmum og yfir í spennandi klettastökk þar sem adrenalínið fer með mann á flug – og lendingin er ávallt mjúk. Þó svo að á yfirborðinu líti Ylja út fyrir að vera rólegt og afslappað skip þá breytist sú hugsun fljótt eftir að um borð er komið enda skipsverjar fullir af góðu gamni. Sumir mundu jafnvel ganga svo langt að segja Ylju vera partýbát!

Eitthvað að lokum?

Allir um borð! Og svo fengum við okkur Snapchat um daginn, ,,yljamusic”. Endilega addið okkur 🙂

Ef þið mættuð velja fyrirsögn þessara greinar – hver yrði sú fyrirsögn?

Eitthvað krassandi og samhengislaust.

SKE þakkar Ylju kærlega fyrir spjallið og hvetur alla til þess að láta sjá sig á Bryggjunni í kvöld. Hér er lagið Í spariskóm ásamt hinu sígilda Út.

Orð: RTH

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing