Eins og fram hefur komið á www.ske.is, var Emmsjé Gauti gestur Benna B-Ruff og Robba Kronik í útvarpsþættinum Kronik á X-inu 977 síðastliðið laugardagskvöld (03. desember). Gauti flutti lagið Strákarnir í beinni (https://ske.is/grein/emmsje-gau…) ásamt því að sitja fyrir og svara nokkrum viðeigandi spurningum.
Í viðtalinu ræddi Gauti, meðal annars, mikilvægi þess að vera einu skrefi á undan samkeppninni hvað tónlist og varning („merchandise“) varðar. Í kjölfarið barst hljómsveitin Úlfur Úlfur í tal og gaf Benni B-Ruff það í skyn að tvíeykið væri að leggja á ráðin um nýstárlega útgáfu á komandi misserum. Gauti brást við af mikilli forvitni og var ekki langt frá því að stofna til illdeilna á milli síns og vina sinna í Úlfi Úlf.
„Hvað eru þeir að plot-a? Þú verður að segja mér hvað þeir eru að plot-a. Þeir eru náttúrulega að fara gefa út plötu á næsta ári – þegar ég verð búinn að gefa út þrjár plötur … Nei, djók. Af hverju er ég að drulla yfir þá. Ég elska Úlf Úlf. Þetta eru bestu vinir mínir.“
– Emmsjé Gauti
Útvarpsþátturinn Kronik er í loftinu öll laugardagskvöld á milli 17:00 og 19:00. Í hverjum þætti geta hlustendur hlýtt á allt það ferskasta sem er í gangi í Hip-Hop tónlist hverju sinni. Einnig fá þeir Benni og Robbi til sín góða gesti í hverjum þætti.