Auglýsing

„Getur vel verið að lögin endi á einni plötu.“—SKE spjallar við Sögu Nazari

Viðtöl

SKE: Nú á dögunum gaf tónlistarkonan Saga Nazari út lagið „Mission“ á Spotify. Saga Nazari, sem er nýorðin tvítug, hefur svo sannarlega verið iðin við kolann í ár; ásamt því að hafa gefið út myndband við lagið „Don’t Gotta Be Real“ í haust—og verið gestur SKE og Sýrlands í „Sýrland Sessions“ um svipað leyti—hefur söngkonan einnig sent frá sér ein sex lög á Soundcloud í ár (ásamt því að koma við sögu á lögunum „Vetrarhjarta“ og „Nóg til“). Í tilefni útgáfunnar heyrði SKE í Sögu og forvitnaðist um tónlistina og ýmislegt annað. 

Viðtal: RTH
Viðmælandi: Saga Ýr Nazari
Ljósmynd: Kristinn Sigmarsson

SKE: Sæl og blessuð, hvað segirðu þá?

Saga Nazari: Mjög róleg og slök bara eins og er—nett manísk af og til. 

SKE: Þú varst að gefa út lagið Mission. Hvaða merkingu hefur titill lagsins?

SN: Uppgjörið er byrjað.

SKE: Lagið pródúseraði APOZEM. Hver er nú það?

SN: Viktor Einar Vilhelmsson. Hann er mjög fær í því sem hann gerir. 

SKE: Ef þú gætir unnið með hvaða takstmið sem er, lífs eða liðinn, hver yrði fyrir valinu?

SN: Næ ekki að fletta í gegnum alla minnisbókina í höfðinu á mér en ef ég tala um smekkinn minn akkúrat núna þá leynast svo margir gimsteinar á Soundcloud. Núna er ég t.d. mjög skotin í Nourish á Soundcloud, þar sem nokkrir taktsmiðir sem skapa svipaða blöndu af elektróník, alternative, R&B og Hip Hop koma saman.

SKE: Er plata í vinnslu?

SN: Ég er ennþá óviss. Ég er að gefa út stök lög („singles“) núna til að byrja með. Það getur vel verið að þau endi öll á einni plötu—en það þarf eiginlega bara að koma í ljós. Ég er að vigta og sigta út fullt af óútgefnum lögum, sumt hæpað, sumt væmið. 

SKE: Guðinn hans Hegel hefur verið okkur hugleikinn síðustu daga—ásamt öðru. En hvaða málefni eru þér efst í huga um þessar mundir? 

(hahaha) Eg þurfti að Google-a þetta til að fatta hvað þú áttir við: „Guðinn hans Hegel.“
En, já, málefni? Þau eru svo mörg:

—Ungt fólk er að deyja úr eiturlyfjaneyslu hægri-vinstri og það er ekkert verið að fjármagna SÁÁ.
—Leigumarkaðurinn er brandari. 
—Það er kreppa á leiðinni. 
—Of mörg hótel. 
—Heimurinn er að fara að enda. (Djók. Samt ekki.)
—Ég hef einblínt mest á hreyfinguna Ég á bara eitt líf. Ég mæli með því að lesendur heimsæki slóðina egabaraeittlif.is til að styrkja það málefni og fræða ykkur betur um komandi verkefni.

Nánar: https://www.egabaraeittlif.is/

SKE: Við byrjum yfirleitt sérhvern morgunn á hlaðvarpi. Ertu hlaðvarpsaðdáandiog ef svo er, með hverju mælirðu?

SN: Ég er nýbyrjuð að hlusta á nýju hlaðvarpsþættina hans Arons Inga. 

SKE: Við vorum að hlýða á lagið I Wish I Knew How It Would Feel to Be Free með Nina Simone og mælum eindregið með því. Eitt lag sem allir verða að heyra—og hvers vegna?

SN: Lost On You með LP vegna þess að textinn er svo einlægur. Maður heyrir í röddina á henni, jafnvel í Live útgáfunni, hversu hrá sálinn er meðan hún flytur lagið—hversu hrein og í senn skítug tilfinningin er. Svo bætir hún við svona nett óperu-raul inn í lögin sín, sem er eitthvað sem ég hef aldrei heyrt áður. Ég varð sjálf dáleidd þegar ég heyrði lagið í fyrsta sinn, sem var þá Live útgáfan (hún er betri, að mínu mati).

SKE: Hvernig lítur árið 2019 út fyrir Sögu?

SN: Ég hef enga hugmynd. Ég er að reyna að einbeita mér að deginum í dag. Eins og stendur leyfi ég mér að gefa út stök lög („singles“) eftir því hvernig mér líður hverju sinni. Svo sækist ég í gigg hér og þar og tek þátt í öllu forvarnarstarfi, þ.e.a.s. þegar mér býðst tækifæri til þess að nýta þetta litla svið sem ég hef til að koma þeim skilaboðum sem að ég tel vera mikilvæg á framfæri.

SKE: Eitthvað að lokum?

SN: Gleðileg Jól.

(SKE þakkar Sögu Nazari kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að hlýða á lagið „Mission“ á Spotify. Hér fyrir neðan má svo sjá Sögu flytja lagið „Blekkingin“ í Sýrland Sessions.)

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing