Viðtöl
SKE: Í nóvember gaf söngkonan Hafdís Huld út ábreiðu af laginu „One Moment in Time“ sem hin bandaríska Whitney Houston heitin gaf út árið 1988. Lagið sömdu þeir John Bettis og Albert Hammond (ef eitthvað er að marka athugasemd hins síðarnefnda á Facebook er hann afar ánægður með útgáfu Hafdísar). Lag Hafdísar verður að finna á plötunni „Variations“ sem söngkonan hyggst gefa út í febrúar á næsta ári og geymir platan fleiri tökulög, þar á meðal „Simply The Best,“ „I Want To Break Free“ og „The First Time Ever I Saw Your Face.“ Í tilefni útgáfunnar heyrði SKE í Hafdísi, en hún—eins og margir vita—hefur verið viðloðandi tónlist í hartnær þrjá áratugi; söngkonan steig sín fyrstu skref með hljómsveitinni GusGus, aðeins fimmtán ára gömul, en eftir að leiðir skildu, undir lok tíunda áratugsins, hóf Hafdís að semja tónlist undir eigin formerkjum. Ásamt því að ræða væntanlega plötu—forvitnaðist SKE einnig um aðrar ábreiður sem eru í sérstöku uppáhaldi hjá Hafdísi. Gjörið svo vel.
Viðtal: RTH
Viðmælandi: Hafdís Huld
Ljósmynd: Gassi
SKE: Sæl, Hafdís. Hvað segirðu þá?
Hafdís: Af mér er allt gott að frétta; þetta er dásamlegur árstími og ég var að klára að taka upp plötu (en það er auðvitað ekki hægt að segja allt gott í miðri umræðunni um þetta Klausturs mál.)
SKE: Þú varst að gefa út ábreiðu af laginu One Moment In Time eftir Whitney Houston. Hvernig kom það til?
Þetta er svona fyrsta erlenda lagið sem að ég man eftir að hafa heillast af. Ég man mjög vel eftir því þegar mamma kom heim með vínyl plötuna með Whitney Houston þar sem hún stendur í fjörunni í hvíta sundbolnum og man hvað mér þótti þetta mögnuð rödd frá fyrstu hlustun.
SKE: Lagið verður að finna á
plötunni Variations sem
inniheldur fleiri ábreiður.
Hvaða lag, af þeim sem
verða að finna á plötunni,
þykir þér vænst um?
Þau eru nokkur þarna sem ég tengi við af mismunandi ástæðum, en ætli mesta nostalgían sé ekki tengd One Moment In Time. Svo hef ég alltaf haldið upp á Dolly Parton þannig að það var gaman að velja eitt af hennar lögum á plötuna. Við enduðum svo upptökuferlið á því að taka upp The Swimming Song eftir Loudon Wainwright og í því lagi syngur dóttir mín bakraddir ásamt ömmum sínum þannig að mér þykir auðvitað mjög vænt um þá útgáfu.
Nánar: https://hafdishuld.bandcamp.co…
SKE: Talandi um ábreiður: Hvert
er, að þínu mati, besta
tökulagið (sem skákar jafnvel
upprunalega laginu?)
Útgáfa Roberta Flack af First Time Ever I Saw Your Face sem var samið af Ewan McColl er mjög falleg. Margir halda einmitt að hennar útgáfa sé sú upprunalega. Svo þykir mér cover platan hans Johnny Cash alltaf góð.
SKE: Platan kemur út í febrúar á næsta ári. En hvernig lítur 2019 annars út?
2019 byrjar mjög vel. Ég hef verið valin til þess að koma fram sem Official Showcase Artist á Folk Alliance International í Montreal í Kanada í byrjun árs en það er stærsti þjóðlaga (folk music) viðburður í heimi. Svo heldur kynningarferlið tengt nýju plötunni áfram með tónleikahaldi fram á sumar.
SKE: Okkur skilst að þú sért nýkomin úr tónleikaferðalagi. Hvert fórstu og hvað stóð upp úr?
Við vorum að koma heim frá Bretlandi. Við spilum þar reglulega og það er alltaf jafn góð tilfinning að spila fyrir fullu húsi; ég á orðið mjög tryggan hlustendahóp þar. Það sem stendur upp úr er að á þrennum tónleikum mættu áhorfendur sem höfðu flogið milli landa til þess að sjá tónleikana—sá sem kom lengst að flaug frá Bandaríkjunum. Jú, og svo hafði ég mjög gaman af áhorfendum í Winchester sem mættu í ski-jumper búning, uppáhalds laginu sínu til heiðurs. Þeim var orðið frekar heitt í lok tónleikanna.
SKE: Eitt lag sem allir verða að heyra—og hvers vegna?
Dream Small sem ég samdi með vini mínum Boo Hewerdine. Það er svo gott að minna sig á að njóta litlu hlutanna og sjá fegurðina í hversdagsleikanum. Lífið er ekki keppni.
SKE: Ertu hlaðvarpsaðdáendi. Ef svo er, með hverju mælirðu?
Nei, en það er góð hugmynd á löngum keyrslum á tónleikaferðalögum. Á hverju ætti ég að byrja?
SKE: Við mælum t.d. með Radiolab, Revisionist History, The Inquiry (og fyrir lengra komna: Entitled Opinions).
SKE: Hvað það varðar er SKE Líklega að fara af stað með hlaðvarp um frelsi og rapptónlist. Hvað finnst þér um rapptónlist, eða jafnvel íslenska rapptónlist?
Ég fagna því að á okkar litla landi sé svona fjölbreytt tónlistarmenning. En persónulega tengi ég lítið við rapptónlist hvort sem hún er íslensk eða erlend. Þannig að það er ekki rapplag á leiðinni frá mér.
SKE: Ef þú yrðir að lýsa sjálfri þér sem húsgagni í vönduðum IKEA bækling—hvernig myndi sú frásögn hljóða?
„Glaðleg, fyrirferðarlítil og endingargóð.“ (Ég er mjög lágvaxin, hef verið í tónlistarbransanum í 23 ár.)
SKE: Uppáhalds tilvitnun eða textabrot?
We can’t direct the wind
But we can adjust the sails
—Dolly Parton
SKE: Helsta prinsipp í lífinu?
Heiðarleiki og sanngirni skipta mig mjög miklu máli.
SKE: Að lokum: Uppþot er í samfélaginu í kjölfar þess að upptaka af ósiðsamlegum samræðum rallhálfra þingmanna lak á netið. Hvernig horfir þetta mál við þér?
Þetta er algjör viðbjóður. Ég bara trúi því ekki að þessir þingmenn ætli ekki að segja af sér, já eða bara að þeir fái að starfa fyrir þjóðina aftur eftir að hafa sýnt af sér slíka kvenfyrirlitningu og mannvonsku.
SKE: Eitthvað að lokum?
Takk fyrir spjallið, nú ætla ég að fara og setja upp jólaseríu og baka nokkrar smákökur. Sex ára dóttir mín getur ekki mögulega beðið lengur eftir jólastemningunni.
(SKE þakkar Hafdísi Huld kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til þess að fylgjast með söngkonunni á Spotify. Hér fyrir neðan er svo ábreiða Hafdísar af laginu „Have Yourself a Merry Little Christmas.“)