Auglýsing

Hilmir Snær og Blær

SKE: Að lesa er að leyfa höfði rithöfundarins að hvíla tímabundið á eigin herðum. Góður rithöfundur er sá sem býr yfir höfði sem lesandinn er tregur að skila, sökum þess að lesandinn er svo heillaður af sjónarmiði og hugsunarferli höfundarins að honum langar helst til þess að veita því varanlegri samastað. Sérhver rithöfundur þráir þesskonar höfuð, höfuð fyrir allar herðar og allar aldir, og sem samræmist ekki einungis eigin líkama – heldur líkama mannkynsins alls … óhætt er að segja að Halldór Kiljan Laxness hafi státað sig af þesskonar höfði, en hann er, að öllum líkindum, sá höfundur hvers höfuð hefur hvílt á herðum flestra landa sinna – og er heimurinn ekki fallegur séður með augum Laxness: „Ekkert á jörðinni er eins yndislegt og sönn ást milli pilts og stúlku í góðu veðri um nótt á voru, þegar hestarnir eru sofnaðir í túnunum“ (Salka Valka). Fyrir stuttu settist SKE niður og ræddi við leikarana Hilmi Snæ Guðnason og Þuríði Blævi Jóhannsdóttur, en þau fara með aðalhlutverkin í uppsetningu Borgarleikhússins á verkinu Salka Valka eftir Halldór Laxness. Við ræddum Laxness, stórar spurningar og góðar bækur. 

„Maður getur ekki brotið reglur sem maður þekkir ekki.“

– Blær

Viðtal: Ragnar Tómas
Viðmælendur: Hilmir Snær Guðnason og Þuríður Blær Jóhannsdóttir
Ljósmyndir: Allan Sigurðsson

(Ég kem mér fyrir við lítið borð í almenningsrými Borgarleikhússins og ræsi tölvuna. Stuttu seinna röltir Hilmir Snær í átt að borðinu og tekur sér sæti andspænis mér. Hann er fúlskeggjaður, í grárri ullarpeysu og gæti alveg eins verið jafnaldri minn – þó svo að hann sé 18 árum eldri. Við tekur minniháttarhjal (“small talk”): „Þú ert að fara að leika í Úti að aka, ekki rétt?“ spyr ég.)

Hilmir Snær: Já, heitir verkið Úti að aka? Ég er ekki byrjaður á því – hef ekki einu sinni lesið það.

(Við hlæjum. Á meðan við bíðum eftir Blævi, líður tíminn eins og honum einum er lagið. Þess á milli þegjum við Hilmir og tölum, þegjum og tölum.)

Blær, úr fjarska: Hilmir! 

Hilmir: Já! Við erum hérna.

(Blær gengur þversum yfir salinn, heilsar okkur og fær sér sæti. Hárið á Blævi er ein ringulreið, einskonar hvirfilbylur kyrrstæðra hára. Hún útskýrir að greiðslan tilheyri sýningunni Sölku Völku. Ég kinka kolli, fullur aðdáunar.) 

SKE: Heyrðu, ég er með spurningar. Eigum við ekki að vinda okkur í þetta?

Hilmir: Dembum okkur í þetta.

Blær: „Let’s do it.“

LÆGÐIR

SKE: Hilmir var geispandi, og er geispandi; ég get ímyndað mér að það sé mikil keyrsla svona rétt fyrir frumsýningu? 

Hilmir: Þetta hefur nú verið voðalega rólegt hjá okkur, hingað til. En svo svona þremur vikum fyrir frumsýningu þá er byrjað að herða ferðina. Ég held nú að leikhópurinn sé aðallega að kljást við einhverjar lægðir í veðrinu; það eru allir svo syfjaðir!

(Hilmir rekur upp hlátur.) 

Hilmir: Þetta er nú ekki út af einhverju álagi hjá mér – það er miklu meira álag á henni. 

(Um þessar mundir er Blær að leika í Njálu og Mamma Mia, ásamt því að undirbúa Sölku Völku.)

TILMÆLI LEIKSTJÓRANS

SKE: Ég var að lesa viðtal við Yönu, leikstýru verksins, en hún sagðist leggja mikið upp úr því að leikararnir setji sig vel inn í söguna, sumsé, að þeir kynni sér inntak versksins vel. Fóruð þið eftir þessum tilmælum Yönu?

Blær: Ég las bókina í fyrsta skiptið, þegar ég vissi að ég væri að fara leika í sýningunni. Ég hefði nú átt að vera búin að lesa þetta miklu fyrr, en hún var geggjuð – ER geggjuð. Það er nauðsynlegt að þekkja verkið vel ef maður ætlar að brjóta það upp; maður getur ekki brotið reglur sem maður þekkir ekki.

Hilmir: Forvinnan var náttúrulega ansi mikil. Við sátum við borð heillengi, bæði að kryfja verkið og bera það saman, á einhvern hátt, við okkar tíma. Það er svolítið flakk í þessari uppsetningu, sem er leikgerð: Við erum ekki beint að taka bókina og skella henni á svið. Þessu er svolítið blandað saman. Það er kvikmyndarteymi að fara kvikmynda Sölku Völku og leikstjórinn hefur lært í skóla með Lars von Trier … 

(Blær hlær.)

Hilmir: Leikjstórinn vill beita nýstárlegum áhrifum, sem er kannski leið Yönu til þess að færa þetta fram til dagsins í dag. Pólitíkin og annað kemur inn í þetta.

Blær: Við eyddum fyrstu tveimur vikunum að ræða pólitík – sem var eiginlega mest þreytandi.

(Hilmir hlær.)

Blær: Maður kom heim alveg þurrausinn. Ég fékk þurrkublett í framan – líkamleg viðbrögð. Enda erum við ekki pólitíkusar.

SKE: Þannig að það má segja að þessi rammi sé sleginn utan um verkið: Það er verið að kvikmynda Sölku Völku?

Hilmir: Já, eða, það kemur annað slagið inn í sýninguna. Þetta er ekki endilega megináhersla verksins.

SKE: Salka Valka var, skilst mér, upprunalega hugsað sem handrit?

Hilmir: Já, þetta átti að vera kvikmyndahandrit. 

Blær: Woman in Pants, átti þetta að heita á ensku.

SKE: Og Laxness sá fyrir sér að Greta Garbo mundi leika aðalhlutverkið.

Blær: Akkúrat. 

Hilmir: Þetta er kannski líka vísun í það. 

„Ég held að það megi líkja leikurum við óléttar konur; þær hugsa ekki um neitt annað!“

– Hilmir Snær

HELSTA LEXÍAN

SKE: Hver er helsta lexían sem þið hafið dregið frá verkinu?

(Þau hugsa sig um. Blær tekur fyrst til máls.)

Blær: Ég lærði að pólitík er mjög erfið, en það er mikilvægt að setja sig inn í hana; því fyrr því betra. Ég fann það svolítið í gær – það kallast nú kannski ekki beint lærdómur – en það eru ákveðnir hlutir að opnast fyrir mér, tilfinningalega. Salka gengur í gegnum svo margt. Maður speglar líf sitt í hennar. Hún opnar á hluti sem maður sjálfur hefur ekki tekist á við. Bara, til dæmis, eins og það að hún er að kveðja kærastann sinn …

SKE: Varstu að kveðja kærastann þinn?

Blær: Nei, nei, ég meina bara …

Hilmir: Það sem Salka er að fást við.

Blær: Ég sé Sölku alls staðar. Hún tekst á við hluti á öðruvísi máta en ég. Ég er að læra af því: „Já, það er hægt að takast á við hlutina svona.“ Það er ekki endilega rétt, en það er önnur leið.

Hilmir: Það er líka svo fyndið að þegar maður sekkur sér ofan í leikrit, eða einhverja svona vinnu, þá fer maður að sjá hana alls staðar. Í kringum sig. Í fréttunum, til dæmis. Eitthvað sem maður tekur ekkert endilega eftir dags daglega.

Blær: Mig langar alltaf að tala um þetta. Ég mæti í matarboð og mig langar bara að tala um mig!

(Hilmir hlær.)

Blær: Það sem ég er að upplifa á hverjum einasta degi. En það hefur ekkert upp á sig, vegna þess að enginn skilur neitt. Þannig að ég er að reyna koma mér út úr rassgatinu á sjálfri mér. Leikhópurinn verður fjölskyldan manns í þann tíma sem að það stendur yfir, af því að maður tengist einhverjum böndum sem enginn annar, í rauninni, skilur. Við erum að tala eitthvað tungumál sem enginn skilur. 

Hilmir: Ég er náttúrulega að verða 48 ára og er búinn að gefast upp á þessu: að vera tala um vinnuna mína annars staðar. Ég veit að ég kemst ekki neitt með það, þannig að ég er hættur því.

SKE: Í alvörunni?

Hilmir: Já, ég bara nenni því ekki.

SKE: Hvað talar þú þá um í staðinn?

Hilmir: Bara voðalega lítið!

(Við hlæjum og Blær sérstaklega dátt.)

Hilmir: Ég tala um hesta og veiði. 

Blær: Ég spyr hvort að það sé eitthvað slúður. 

SKE: Ég er mikill hlaðvarpsmaður og það er það eina sem ég tala um. Svo hugsa ég oft: „Djöfull er ég ógeðslega leiðinlegur!“ 

(Þau hlæja.) 

Hilmir: Ég held að það megi líkja leikurum við óléttar konur; þær hugsa ekki um neitt annað!

(Blær hlær: „Það er verið að skapa hérna!“ bætir hún svo við, hnyttin.)

Hilmir: Og svo eru allir rosalega meðvirkir með þeim, en nenna ekki sjálfir að hlusta á þetta – vegna þess að þeir eru ekki sjálfir að eignast börn.

(Við hlæjum.) 

Blær: Og skilja það ekki heldur! Maður kemur heim og …

(Blær fer í ákveðinn leiklistarham, stendur upp, gengur nokkur skref frá borðinu og þrammar síðan uppgefin til baka: „Ohhhh.“)

Blær: Ég leggst upp i til Gumma (kærasti Blævar): „Ég á svo bágt!“ En hann skilur mig ekki og ég get ekki útskýrt af hverju. 

SKE: Talandi um óléttar konur, hvíla ekki álög á þessu verki?

(Hér kem ég, hugsanlega, upp um sjálfan mig á sérdeilis Freudískan máta. Ég, sem ritaði eitt sinn „Við erum ölll börn Guðs – nema börnin, sem eru meira í ætt við Djöfulinn,“ nota hér orðið Álög en ekki Blessun yfir óvæntri fjölgun mannkynsins.)

SKE: Urðu ekki þrjár fyrrum aðalleikkonur verksins óléttar á meðan á sýningunni stóð?

Blær: Jú, jú. Dóra og Gunna og Ilmur – og núna Unnur. 

Hilmir: Já, einmitt. Kannski er komið að þér? 

Blær: Ég sagði nú í einu viðtali að Unnur hafi nú bara tekið þetta á sig fyrir mig. En maður veit ekki: Við erum ekki enn búin að frumsýna.

„Það eru eiginlega bara forréttindi í þessu starfi að vinna með yngra og eldra fólki, á þannig vinnustað þar sem enginn er beinlínis yfirmaður hins. Þetta heldur í manni lífinu.“

– Hilmir Snær

LÆRDÓMUR

SKE: Hafið þið lært eitthvað af hvort öðru? Hefur þú kennt Blævi mikið, Hilmir?

(„Nei, það held ég nú ekki,“ segir Hilmir auðmjúkur. Blær hlær með miklum sprengikrafti; hún er dýnamít.)

Blær: Jú, þú hefur kennt mér fullt!

Hilmir: Hún er bara góð leikkona og það er gaman að horfa á hana vinna. Þetta er í annað sinn sem við vinnum saman og mér lýst bara æ betur á hana! Hún verður mjög flott Salka.

Blær: Ég er nú ávallt að fylgjast með þér úr fjarska. 

Hilmir: Kannski lærir fólk af manni og maður lærir sjálfur. Það er mikilvægt fyrir eldri leikara, til þess að læsast ekki inni og staðna, að fylgjast með unga fólkinu og læra af því. Það eru eiginlega bara forréttindi í þessu starfi að vinna með yngra og eldra fólki, á þannig vinnustað þar sem enginn er beinlínis yfirmaður hins. Þetta heldur í manni lífinu.

SKE: Og það trúir því enginn að þú sért 48 ára. 

Hilmir: Þetta er Pétur Pan syndrómið.

(Þau hlæja. „Einhvers staðar leynist gotneskt málverk af Hilmi í risi í Vesturbænum,“ hugsa ég með sjálfum mér #DorianGray.)

Hilmir: Þetta er eitthvað sem kemur kannski með árunum. Það er samt fyndið að í hvert skipti sem maður kemur að nýju verki finnst manni að maður kunni aldrei neitt.

Blær: Þú ert þá að segja mér það að þetta verði svona að eilífu!?

(Blær hlær.)

Hilmir: Það er bara svoleiðis: Maður kemur og finnst manni ekki kunna neitt, en svo áttar maður sig á því að maður hefur nú örugglega lært eitthvað. Ég held að það sé líka voðalega mikilvægt að ganga inn í verkefni svolítið tómur. Þú þekkir kannski ekki leikstjórann og það þarf alltaf að finna upp tungumálið á nýtt.

SKE: En minna stress samt?

Hilmir: Jú jú, það er minna stress. 

Blær: Það er samt mjög fyndið með svona manneskjur eins og mig, með viðurkenningarþörf á háu stigi, að þetta er ævistarf sem veltur á því að fá viðurkenningu frá öðrum, þ.e.a.s. á hverju einasta kvöldi eru 500 manns að klappa þér lof í lófa: „Fæ ég Vúuu eða verð ég púuð?“ Ég er ung og veit ekki alltaf hvað ég er að gera. Er ég að gera rétt? Hver getur sagt manni hvort að maður sé að gera rétt eða ekki? Þetta er mjög lýjandi, en byggist svolítið á því að annað fólk segji við þig: „Þetta var flott!“

(Blær verður svolítið efins með þessa pælingu sína, þó svo að undirrituðum finnist hún mjög áhugaverð.) 

Blær: Æji, vitið þið hvað ég á við? Æji, við skulum ekki setja þetta í viðtalið! Ég næ ekki alveg að koma þessu í orð …

SKE: En er það ekki bara kjarninn í því að vera listamaður?

Blær: Jú.

SKE: Þetta veltur allt á skoðunum annarra?

Hilmir: Þetta er mikilvægt í allri vinnu, alveg sama hvað þú gerir. En í okkar starfi þarf maður náttúrulega að hafa harðan skráp. Við erum gagnrýnd meira fyrir okkar vinnu heldur en í flestum öðrum greinum. Stundum gengur þetta og stundum ekki.

„Ég held að ef þú „identifyar“ sem Íslendingur, þá mun þetta sprengja á þér heilann! Ég ætla segja það. Ég ætla bara að kasta þessari sprengju fram!“

– Blær

VERSTA GAGNRÝNIN

SKE: Hver er versta gagnrýnin sem þið hafið fengið?

Blær: Ég hef ekki verið hérna lengi og hef verið mjög heppin með sýningar. Borgarleikhúsið hefur sett á svið svo flottar sýningar frá því að ég kom. Ég hef aðallega fengið gagnrýni fyrir rappið – en þar fékk ég nauðgunarhótanir. 

Hilmir: Það er ekkert annað. 

Blær: En þannig er þetta þar; það er allt annað. Ég hef lært að það er fólk sem skiptir ekki máli.

SKE: Já, er það ekki svolítið þannig?

Blær: Jú, jú.

Hilmir: Maður hefur fengið mjög vonda gagnrýni. Maður er náttúrulega búinn að vera í þessu helvíti lengi. Auðvitað tekst manni misvel upp. Stundum finnst manni hún ómakleg og röng. Þá er maður bara ósammála – og það er líka bara allt í lagi. En stundum er jafnvel einhver sannleiksvottur í því. Þá verður maður bara að taka því og bæta sig.

„Ég hef aðallega fengið gagnrýni fyrir rappið – en þar fékk ég nauðgunarhótanir.“

– Blær

STUTT SÖLURÆÐA

SKE: Ef þið yrðuð að selja lesendum leikritið Salka Valka með söluræðu í örstuttri lyftuferð – hvernig myndi sú söluræða hljóma?

(Blær hlær og Hilmir líka.)

Blær: Vá!

Hilmir: Það er erfitt að segja. Það eru þrjár vikur í frumsýningu og þetta er yfirleitt tíminn þar sem leikhópurinn er hvað óöruggastur. Í dag vorum við til dæmis að púsla öllu saman, fínpússa, henda út senum, taka inn nýjar. Við erum á voðalega skrítnum stað, sjálf. Við vitum ekkert nákvæmlega hvar þetta lendir eða hvert þetta fer.

Auglýsing

Blær: Og maður er einangraður líka. Mér finnst þetta snilld, en ég er inni í þessu.

Hilmir: Ég held að … 

(Alexía, kynningarfulltrúi Borgarleikhússins, grípur inn í samtalið og segir okkur að stóra sviðið sé klárt fyrir myndatöku. Við þökkum henni fyrir og höldum spjallinu áfram.) 

Hilmir: Við getum allavega sagt að þetta sé öðruvísi Salka en fólk á von á. Það má ekki búast við bókinni.

Blær: Ég held að ef þú „identifyar“ sem Íslendingur, þá mun þetta sprengja á þér heilann! Ég ætla segja það. Ég ætla bara að kasta þessari sprengju fram!

(Ég hlæ. Tilhugsunin um það að höfuð leikhúsgesta splundrist í miðri sýningu fær mig til þess að skella upp úr líkt og að ég sé mennsk híena á hláturgasi.) 

Blær: Þessar persónur fanga einhvern kjarna, sem flestir eiga að geta tengt við.

SKE: Sterk söluræða.

Hilmir: Já, það er kannski það sem ég átti við, þetta er nýstárleg sýning. Hún tekur hana öðrum tökum og mér finnst þetta mjög áhugavert. 

SKE: Þið eruð búin að selja mér þetta.

ERFIÐAR SPURNINGAR

SKE: Ef þið gætuð fengið svar við hvaða spurningu sem ykkur lystir – hvaða spurningar mynduð þið spyrja?

Blær: Þetta eru svo erfiðar spurningar. 

SKE: Þetta þarf alls ekki að vera flókið.

(Hilmir og Blær hverfa inn í eigin hugsanir. Ég reyni að létta andrúmsloftið með kímni.)

SKE: Ég get líka spurt ykkur hvort að það sé mikill munur á því að leika á sviði og í kvikmynd. 

(Þessi spurning er, án efa, mesta klisja sem hægt er að beina að leikara. Hilmir horfir á mig og er ekki viss hvort að ég sé að grínast eða ekki, þangað til að ég brosi. Þá brosir hann á móti, feginn.)

Hilmir: Nei, við skulum ekki taka hana … svar við hvaða spurningu sem er. Ég er svo upptekinn af málum heimsins núna: nýja forseta Bandaríkjanna, hlýnun jarðar – þetta veður, er, svo skrítið. Ég myndi helst vilja vita: Hvað verður um okkur – ef við breytum engu – eftir 20 ár? 

SKE: Mjög gott. 

Blær: Í kjölfarið á því langar mig að vita: Hvað gerist eftir dauðann. 

(Hilmir hlær.)

SKE: Ég var einmitt að hlusta á hlaðvarp um „near-death experiences“ í dag – svo að ég drepi ykkur með einhverjum hlaðvarpstilvísunum.

(Hilmir og Blær hlæja mjög dátt. Ég fjalla stuttlega um inntak þáttarins en kem því illa til skila. Blær segir mér að þegar menn deyja þá léttast þeir um 21 grömm. Þetta á víst að vera þyngd sálarinnar.)

Blær: Ég sagði það einmitt í hinu viðtalinu mínu að ég er búin leika svo mikið vegna þess að ég er svo hrædd við að deyja. 

„Ég myndi helst vilja vita: Hvað verður um okkur – ef við breytum engu – eftir 20 ár?“

– Hilmir Snær

AÐ SKIPTA UM SKOÐUN

SKE: Yana Ross sagði eitt sinn að það sem heillaði hana mest við Laxness var það að hann átti svo auðvelt með að skipta um skoðanir. Við mannfólkið erum svo gjörn á það að bíta hlutina í okkur. Að skipta um skoðun er sjaldgæfur hæfileiki, og jafnframt mjög fagur, að mínu mati. Ég ætla að beina annarri, mjög djúpri, spurningu að ykkur: Hafið þið skipt um skoðun varðandi eitthvað svona stórt málefni?

(Þau hugsa sig um.)

Hilmir: Kannski ekki skoðanabreyting, frekar viðhorfsbreyting. 

SKE: Þið megið líka segja Nei.

Blær: Nærtækasta dæmið: Ég er alin upp á kommúnistaheimili. Án þess að vera mjög pólitísk í hugsun þá er búið að innræta í mig ákveðinni andúð á Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Um leið og Bjarni Ben opnar munninn þá bara: „Oohhhh.“ Ég hef aldrei sýnt þessum skoðunum neina virðingu. Hins vegar er ég aðeins að opna fyrir hugmyndina að fólk sé ekki vont – að það sé ekki bara að hugsa um sjálft sig. Ég er aðeins farin að geta séð sjónarhorn annarra.

SKE: Er þetta ekki eitthvað sem sprettur upp frá leiklistinni líka; þú ert alltaf að spegla þig í mismunandi fólki … en þú, Hilmir. Tengirðu við þetta?

Hilmir: Já, ég held að það sé mikilvægt að vera viðsýnn, að geta hlustað á annarra manna skoðanir, borið virðingu fyrir þeim og komið með mótrök. Þó svo að þú sért ekki beint sammála þeim. Það er ekkert eins erfitt og að rífast um pólitík og að vera á öndverðum meiði. Þú getur eins sleppt því; það kemur aldrei neitt út úr slíkum viðræðum.

Blær: En þannig virðast líka flestir Íslendingar vera: Allir vilja segja sína skoðun en enginn er tilbúinn að leggja sitt lífsviðhorf í hættu.

Hilmir: Þetta er eitthvað sem er búið að tala um, í kosningunum vestanhafs. Af hverju kemst svona maður (Donald Trump) til valda? Það eru margir sem segja að þetta sé þessi pólitíski rétttrúnaður um alla hluti, að þetta fólk hafi ekki leyft fólki að tala um innflytjendur eða eitthvað á móti kvenréttindum. Ef við hlustum ekkert á þessar raddir, ef við leyfum þessum skoðunum ekki að vera uppi, þá kaffærum við þær og þá verður líka einhver sprenging úr þeirri áttinni. Kannski er það það sem hefur gerst.

(Við hlæjum.)

Hilmir: Svo þegar að það kemur einhver sem er eins og þau þá bara verður sprenging og allir snúast í fasismann. Það er svo stutt í fasismann í fólki. Hann er í mannskepnunni.

SKE: Það er líka ágætt hérna heima að þegar að íslenska Þjóðfylkingin bauð sig fram þá fékk hún að koma upp á yfirborðið og tjá sínar skoðanir en fékk, samt sem áður, lítið sem ekkert fylgi. Sem er kannski öfugt við það sem átti sér stað í Bandaríkjunum … ég er með nokkrar spurningar í viðbót. Hvernig eru þið á tíma? 

(Þau segjast vera slök. Blær ákveður að fá sér smá kaffi og ég slæst í för, rölti með henni inn í miðasöluna, þar sem kannan bíður. Konan sem stendur fyrir aftan veitingabásinn í hinum enda salsins hrópar í átt til okkar og spyr hvort að við viljum vöfflur: „Nei takk, ég þarf að passa línurnar, elskan mín,“ segir Hilmir. Blær tekur í sama streng. Ég hefði ekki verið á móti því að fá mér vöfflu, en ákveð að láta það vera. Þegar við setjumst aftur til borðs blaðra ég um eigin reynslu af Bandaríkjunum. Síðan fylgi ég þessu blaðri eftir með sígildri spurningu.)

SKE: Það er ein spurning sem ég spyr alltaf í öllum viðtölum: „Hvernig myndirðu lýsa sjálfum þér.“ Hilmir, byrjum á þér.

Hilmir: Úfff … þetta er erfið spurning.

(Blær skellir upp úr.)

Hilmir: Eigum við ekki að geyma þessa bara … (Hilmir hlær.) … en að lýsa sjálfum sér er voðalega erfitt. Ég er maður sem er enn í mótun þrátt fyrir að vera orðinn svona gamall!

(Blær springur úr hlátri og Hilmir líka.)

SKE: Þannig á þetta að vera; maður á stöðugt að þróast og þroskast. 

Hilmir: Ég er enn að leita af sjálfum mér. 

Blær: Ég er … Ég er uhhmm … Ég er full tilhlökkunar. Þannig myndi ég lýsa sjálfri mér í dag. Tilhlökkunar og ótta.

(Við hlæjum.

VISKÍ OG BÆKUR

SKE: Ég og félagar mínir stofnuðum bókaklúbbinn Viskí og bækur í sumar. Getið þið mælt með einhverri góðri bók fyrir leshópinn? 

Blær: Ég ætla að mæla með hlaðvarpi: Jólatalatal.

SKE: Jólatalatal – hvað er það? 

Blær: Það er svona spunahlaðvarp. Þetta eru tveir strákar úr Improv Iceland – þar á meðal kærastinn minn. Ég er bara að selja!

(Blær hlær.)

Blær: Og þeir fá til sín gesti. Á maður líka að mæla með áfengi? Nei, en svo mæli ég með Sölku Völku, náttúrulega.

Hilmir: Ég mæli þá með Knut Hamsun, alveg eins og hann leggur sig. Það er alveg ótrúlegur höfundur, einn af mínum uppáhalds. Ekki ósvipaður Laxness. Enda skrifar hann Gróður jarðar, til dæmis, sem er mjög lík Sjálfstæðu fólki. Halldór skrifar hana eftir á. Þetta er í sama þema, en það er alveg ljóst að Laxness hefur viljað gera svoleiðis íslenska sögu.

Blær: Er það hann sem skrifaði Sultur?

Hilmir: Já.

SKE: Við ræddum þetta einmitt á síðasta fundi, að taka Knut-arann fyrir. Þetta verður þá bara Salka og Knut á næsta ári.

Blær: Og reyndar eitt, leikrit, sem heitir Sjúk æska. Ég man nú ekki hvað höfundurinn heitir en hún er rituð á svipuðum tíma og við erum að upplifa í dag, nema þá var það rétt fyrir seinni heimstyrjöldina. Hann er í rauninni að segja að nasistarnir séu á leiðinni. Og þá vissi fólk ekki hvað það var. Þetta svipar til okkar tíma.

SKE: Ég var einmitt að lesa Veröld sem var eftir Zweig. Hafið þið lesið hana?

Hilmir: Já, ég hef lesið hana. Það er ótrúleg bók.

SKE: Það er einmitt þessi kyrrð fyrir stríðið, áður en allt fer til fjandans …

(Þetta eru ágætis lokaorð, að mínu mati: Lifum við ekki á tímum lognsins á undan storminum? Er ekki stutt í það að allt fari til fjandans? Hvað um það … SKE þakkar Hilmi Snæ og Þuríði Blævi kærlega fyrir spjallið og mælir með því að lesendur láti sjá sig á frumsýningu Sölku Völku þann 30. desember í Borgarleikhúsinu. Einnig mælir SKE með lestri bóka, sumsé, að lesendur leyfi höfuði rithöfunda að hvíla tímabundið á eigin herðum – og þá sérstaklega höfði Halldórs Kiljan Laxness.)

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing