Íslenskt
Í gær (14. september) frumsýndi rapparinn Emmsjé Gauti myndband við lagið Hógvær (sjá hér fyrir ofan) á Bryggjunni brugghús en lagið verður að finna á væntanlegri plötu sem rapparinn hyggst gefa út í kringum áramótin.
Myndbandinu leikstýrði Magnús Leifsson og var það tökumaðurinn Þór Elíasson sem stóð sína plikt á bak við myndavélina.
Myndbandið er í anda Dressman auglýsinga þar sem hópur karlmanna spókar sig um í fínum fötum á meðan Gauti sér um rappið.
Í tilkynningu sem fylgdi útgáfu lagsins á Facebook þakkaði Gauti samstarfsfólki sínu kærlega fyrir aðstoðina:
„Ég ætla að byrja á því að þakka Magnúsi Leifssyni leikstjóra fyrir sína gullputta, elska að vinna með honum því fagmennskan drýpur af hverju andartaki í ferlinu. Ég vil þakka Þór Elíassyni fyrir þægilega nærveru og sturlaða myndatöku. Dagur Benedikt, takk fyrir ljós og grip. Daníel Gylfason fyrir fókus. Ég vil þakka Ernu Bergmann fyrir að láta okkur líta vel út. Alexander Sigurður Sigfússon, takk fyrir að smink. Luis Ascanio/trickshot fyrir litina. Takk allir sem komu að myndbandinu, það eru nokkur nöfn sem ég er ekki að telja upp en þið vitið hver þið eruð og hversu mikið við metum ykkar framlag … að lokum vil ég senda sérstakar þakkir á alla þessa gaddamn hotboys sem sáu um að láta myndbandið lúkka eins og það gerir. TAKK FYRIR OKKUR. LENGI LIFI RAPPMÚSÍK!“
– Emmsjé Gauti
Þess má geta að Björn Valur Pálsson, Jóhann Bjarkason og Ingi Már Úlfarsson pródúseruðu lagið í samstarfi við Gauta. Friðfinnur Oculus sá um masteringu.