Auglýsing

Hvað er CV-ismi???

CV-ISMI

Nútíminn

Störfin skilgreina okkur mennina (nútímamennina). Án starfsheitis erum við ekkert – einungis fölir deplar á radarskjá lífsins: ljós okkar fölnar í útjaðrinum.

Vissirðu ekki að:

„Dauðinn er atvinnuleysi án sérmenntunar.“ – Davíð Oddsson

Í kokkteilboðum, meðal ókunnugra, líður okkur illa og vanlíðan okkar gagnvart þessu ókunnuga fólki stafar fyrst og fremst út frá óvissunni: Við vitum ekki við hvað þau starfa – starfsheiti þeirra eru ósýnileg.

Og er því fyrsta spurningin sem við spyrjum, náttúrulega, þessi:

„Hvað gerir þú?“

Og þegar svarið kemur („Ég er læknir“) lækkar blóðþrýstingurinn, róast hjartslátturinn – og í huganum klístrum við grófan stimpil á enni viðkomandi: LÆKNIR („Nú, jæja“).

Og auðvitað:

Samfélag okkar er einn jötunvaxinn frjáls markaður – markaður sem grundvallast aðallega á hugmynd Adam Smith um sérhæfingu einstaklingsins:

„Við erum það sem við gerum.“ – Manúela Ósk

Líf okkar snýst um vinnuna og út frá þessu samfélagsskipulagi höfum við jafnframt þróað samsvarandi trú: CV-ISMANN.

Hvað er CV-ismi?

CV-ismi er ekki opinbert trúfélag og má segja að mörg okkar aðhyllumst þessa trú óafvitandi.

Það er engin ein Biblía í CV-ismanum, heldur eru helgirit ismans samansafn mismunandi bóka, bóka á borð við Vinsældir og áhrif eftir Dale Carnegie, Leyndarmálið eftir Rhondu Byrne, Sjö venjur til árangurs eftir Stephen Covey og Lífsleikni Gillz eftir Friedrich Nietzsche, o.s.frv.

En CV-isminn er ekki einvörðungu samtíningur heilagra rita – heldur er CV-isminn, fyrst og fremst, ákveðið hugarfar, ákveðið viðhorf.

Sjáðu:

Iðkandinn er þeirrar skoðunar að öll reynsla sé fagmannleg reynsla – að allar lífsreynslur séu ekkert annað en mögulegar beitur fyrir vinnuveitendur framtíðarinnar.

Hlustaðu:

Faðir ungrar stúlku hlýðir á dóttur sína lýsa yfir áhuga sínum á franskri tungu – „Læra frönsku, segirðu, já það gæti nú aldeilis litið vel út á ferilskránni, elskan.“

Tveir vinir ræða hjálparstarf í Nepal – „Þetta verður flott á CV-inu.“

Ung móðir brýtur á sér ökklann í ítölsku Ölpunum og haltrar í átt að þorpinu, gædd nýtilkomnu þakklæti fyrir ótryggu eðli mannlegrar tilvistar. Þremur árum seinna, í atvinnuviðtali hjá HB Granda, segir hún jákvæðum rómi – „Þetta er ástæðan fyrir því að ég er svona stundvís, sjáðu. Tíminn er af skornum skammti.“

Og öllu þessu fólki vegnar, yfirleitt, vel: fær vinnu, launahækkun og breiðir út boðskapinn með fáguðum nafnspjöldum.

And-CV-istar

En ekki eru allir fylgjandi þessari stefnu.

Nei:

Til er sérstök undirtegund manna sem hafnar þessari trú #trúleysingjar.

Þeir eru ekki þeirrar skoðunar að öll reynsla sé fagmannleg reynsla, heldur trúa þeir því að öll reynsla sé fagurfræðileg reynsla – listræn reynsla – andleg reynsla.

Þeir lifa ekki til þess að fóðra ferilskránna í von um betra starf, heldur lifa þeir til þess að fóðra sálina – í von um betra líf.

Fólk þetta er gjarnan nefnt and-CV-istar, eða heimskingjar – eða listamenn.

Listamenn verja tímanum í sköpun og segjast vilja opna augu samtímamanna sinna fyrir æðri sannleik og fegurð; segjast eiga sér hugsjón og framtíðarsýn; segjast búa yfir gagnrýnni hugsun og tilbiðja frumlegheit.

En þeir eru skotspæni markaðsins.

Þeir búa ekki yfir neinni hagnýtri sérmenntun.

Þeir státa sig ekki af neinum virðulegum starfstitli.

Þeir eru bara fölir deplar á radarskjá lífsins –

sinna einvörðungu láglaunastörfum og þiggja oft styrki frá ríkinu.

Þeir eru ekkert.

Ég er ekkert.

Getur einhver lánað mér Vinsældir og áhrif eftir þennan Carnegie?

Orð: RTH

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing