Auglýsing

Instagram-færsla Jonah Hill vekur eftirtekt: „Reyni að sleppa takinu.“

Fréttir

Í gær (15. janúar) birti blaðamaðurinn Joshua Rothman grein á vefsíðu New Yorker undir yfirskriftinni Listin að taka ákvarðanir („The Art of Decision-Making“). 

Nánar: https://www.newyorker.com/maga…

Í grein sinni vísar Rothman meðal annars í ísraelska heimspekinginn Edna Ullmann-Margalit sem hefur lengi brotið heilann um ákvörðunartöku mannsins. Eitt af því sem gerir fyrirbærið svo flókið, að mati Margalit, er togstreitan á milli manneskjunnar sem er og þeirrar sem verður. 

„Í grein frá árinu 2006,“ ritar Rothman „segir Margalit frá manni sem var í fyrstu tvístígandi í garð barneigna vegna þess að hann gat ekki afborið tilhugsunina að verða leiðinlega týpan, sem eru, jú, oftast örlög foreldra. Ákvað hann þó loks að fjölga sér og með tímanum þróaði hann með sér sömu hvimleiða eiginleika og aðrir foreldrar—en var, engu að síður, hamingjusamur!“  

Margalit og aðrir sem bollaleggja ákvörðunartöku—þar á meðal heimspekingurinn Agnes Callard—leggja því iðulega áherslu á mikilvægi þess að átta sig á því að gildi hvers og eins geta breyst. 

Í þessu samhengi er því áhugavert að rýna í nýjustu Instagram-færslu bandaríska leikarans Jonah Hill, þar sem hann undirstrikar mikilvægi þess að sleppa takinu á gamla sjálfinu:  

„Ég byrjaði að iðka brasilískt jiu-jitsu fyrir tveimur mánuðum síðan og reyni að æfa fjórum til fimm sinnum í viku. Þegar ég ólst upp var ég lítt heillaður af jiu-jitsu, aðallega sökum þess að strákarnir sem æfðu jiu-jitsu í menntaskóla börðu mig og vini mína reglulega til óbóta. Innst inni gerði ég mér samt sem áður grein fyrir fegurð listgreinarinnar. Ég er 35 ára í dag og geri mitt besta til þess að gleyma því sem gerði mig óöruggan—eða vakti minnimáttarkennd í brjósti mér—er ég var táningur. Það (að forðast slíka hluti) er tímasóun og fortapaður lærdómur. Ég er að reyna að sleppa takinu. Það er ekkert jafn auðmýkjandi og að vera lúbarinn af 12 ára gömlum dreng … ég veit að það kanna ð hljóma kjánalega en það er frekar magnað að gera hluti sem maður hélt að maður gæti aldrei gert.“ 

– Jonah Hill

Fjölmargir hafa samsamað sig þessum orðum og hafa rúmlega 300.000 manns lagt blessun sína yfir hugarfar Hill, með þartilgerðum likes á Instagram. 

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing