Auglýsing

„Íslensku þjóðlögin eru svo áhugaverð og sérstæð.“—SKE spjallar við Ylju

Viðtöl

SKE: Árið 1713 vann breska ljóðskáldið Alexander Pope hörðum höndum að enskri þýðingu á Hómerskviðum. Er hann stritaði við að snara þeim tæplega 16.000 línum Ilíonskviðu yfir á ensku, velti hann því fyrir sér hvernig best væri að fjármagna útgáfuna. Snéri hann sér að lokum að Áskriftarmódelinu, svokölluðu, og hét styrktaraðilum sínum að hann, sem höfundur, myndi endurgjalda þeim greiðann með því að kasta kveðju til þeirra í fyrsta bindi bókarinnarog stóð hann við stóru orðin; nöfn 750 velunnara verkefnisins voru rituð í fyrsta bindið. Í dag stendur gjörvallt mannkynið í þakkarskuld við fyrrnefnda bakhjarla og nýtur góðs af göfuglyndi þeirra. Nú, rúmum 300 árum seinna, gefst Íslendingum sambærilegt tækifæri, sumsé að gerast velgjörðarmenn mannkynsins á ný, en tvíeykið Ylja stendur fyrir hópfjármögnun á vefsíðunni Karolina Fund um þessar mundir (sumir vilja meina að hópfjármögnun sé arftaki áskrifarmódelsins). Markmiðið er að fjármagna gerð og útgáfu 10-laga þjóðlagaplötu í Ylju-stíl. Í tilefni þess heyrði SKE í þeim Gígju og Bjarteyju og forvitnaðist nánar um plötuna. Gjörið svo vel.

Viðtal: RTH

Viðmælendur: Gígja Skjaldardóttir & Bjartey Sveinsddóttir
Ljósmynd: Einar Óskar Sigurðsson

SKE: Ylja fagnar 10 ára afmæli í ár—hvað stendur upp úr og hvað viljið þið í afmælisgjöf?

Ylja: Eins væmið og það hljómar þá stendur helst upp úr 10 ára vinátta á milli okkar beggja sem heldur bara áfram að styrkjast. Svo höfum við saman, í gegnum Ylju, kynnst ótrúlega skemmtilegu, flottu og hæfileikaríku fólki sem hefur haft áhrif á okkur og þroskað, bæði sem tónlistarkonur og sem manneskjur.

Í afmælisgjöf óskum við okkur að platan okkar verði að veruleika með hjálp þeirra sem styrkja okkur á Karolina Fund.

Karolina Fund: https://www.karolinafund.com/p…

SKE: Einmitt: Um þessar mundir stendur Ylja fyrir söfnun á Karolina Fund en markmiðið er að fjármagna 10 laga þjóðlagaplötu í Ylju-stíl—en af hverju þjóðlög?

Ylja: Íslensku þjóðlögin eru svo áhugaverð og sérstæð. Við höfum frá upphafi haft mikið dálæti af íslenskum þjóðlögum og alltaf gripið til þeirra inn á milli á tónleikum. Þau hljóma oft ótrúlega skringilega en eru á sama tíma hrikalega falleg og/eða skemmtileg. Eflaust hefur það líka haft áhrif á áhuga okkar á þjóðlögum að við kynntumst í kór, þar sem var mikið sungið af þeim.

SKE: Plötuumslagið hannaði Bobby Breiðholt og Bjartey teiknaði myndirnar. Hvernig komu myndskreytingar Bjarteyjar til og hvaða þýðingu hefur
Listaverkið?

Ylja: Okkur langaði að hafa myndir sem tengdust „sínglunum” sem við vorum að gefa út og Bjartey tók það að sér að teikna myndir fyrir þá. Upphaflega ætluðum við allt aðra leið varðandi plötuumslagið. Það átti að vera ljósmynd. Svo stuttu fyrir fyrirhugaða myndatöku hringdi Gígja í Bjarteyju og sagði henni að það væri gjörsamlega galið að hún myndi ekki bara teikna myndina sem myndi prýða plötuna—hinar myndirnar væru svo geggjaðar!

Við vorum búnar að ákveða nafnið á plötunni sem er Dætur og út frá þeirri pælingu varð myndin til. Hún tengist okkur tveimur, móður jörð og þjóðararfinum. Við fengum svo grafíska hönnuðinn Bobby Breiðholt til að hanna með okkur umslagið og setja saman.

SKE: Platan er unnin í samstarfi við Guðmund Óskar. Hvernig kom samstarfið til og hvert er hans helsta hlutverk?

Ylja: Hann var sá fyrsti sem okkur datt í hug til að vinna þetta verkefni með okkur. Við lítum mikið upp til hans og hans verka og svo höfðum við aðeins unnið með honum áður og þótt mikið til hans koma. Hans hlutverk var meðal annars að hjálpa okkur með útsetningu laganna, taka upp, hljóðblanda og síðast en ekki síst, þá spilaði hann á hin og þessi hljóðfæri inn á plötuna … semsagt, mjög mikilvægur gæi.

SKE: Platan mun bera titilinn Dætur. Er þetta dulin tilvísun í CrossFit?

Ylja: Nei, bíddu ha? Hvað er CrossFit?

SKE: Uppáhalds lagið ykkar á plötunni?

Ylja: Það er mjög breytilegt eftir dögum … okkur finnst þau öll svo geggjuð!

En akkúrat í dag þá finnst Bjarteyju Stóðum tvö í túni og Gígju finnst Heyr himna smiður uppáhalds.

Ylja: Hvernig geta áhugasamir lagt verkefninu lið?

Nú er söfnunin okkar að líða undir lok á Karolinafund og það vantar bara herslumuninn. Þess vegna mælum við með því að fólk fari inn á https://www.karolinafund.com/project/view/2010 og skoði þar pakkana sem eru í boði. Með því að kaupa ykkur varning þar (plötu, geisladisk, taupoka, listaverk og fleira) eruð þið í leiðinni að styrkja verkefnið okkar.

SKE: Eitt lag sem allir verða að heyra—og hvers vegna?

Ylja: Bíum, bíum bambaló. Það þekkja allir lagið og allir kunna textann—en það vita ekki allir að það eru heil sex erindi í laginu, hvert öðru flottara. Við ákváðum að syngja þau öll til að gera laginu sem best skil og erum ekkert smá ánægðar með útkomuna.  

SKE: Hvað eruð þið að hlusta á þessa dagana—og hvað eruð þið EKKI að hlusta á?

Ylja: Við erum báðar mikið að hlusta á Jóa Pé og Króla. Þeir eru bara svo geggjaðir!

Við erum ekki að hlusta á First Aid Kit.  

SKE: Eitthvað að lokum?

Ylja: Við ætlum að halda geggjaða afmælis- og útgáfutónleika í Bæjarbíói í Hafnarfirði þann 20. október næstkomandi þar sem öllu verður til tjaldað. Miðasala fer í loftið á www.tix.is í næstu viku. Tryggiði ykkur miða! Svo má ekki gleyma því að pulsurop er versta ropið.

(SKE þakkar Ylju kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til þess að styðja við hljómsveitina á Karolina Fund.)

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing