Önnur sería spjallþáttarins My Next Guest Needs No Introduction er væntanleg á Netflix næstkomandi föstudag (31. maí). Þátturinn er í umsjón hins bandaríska David Letterman sem er svo sannarlega hokinn af reynslu þegar það kemur að viðtölum; Letterman stýrði spjallþættinum Late Night With David Letterman í 33 ár á bandarísku sjónvarpsstöðinni NBC.
Meðal þeirra gesta sem koma við sögu í annarri seríu My Next Guest Needs No Introduction er samlandi Letterman Kanye West. Í nýrri stiklu sem var birt á Youtube um helgina má sjá brot af spjalli West og Letterman þar sem hinn fyrrnefndi minnist móður sinnar (sjá hér að ofan). Donda West, móðir Kanye, lést árið 2007:
„Þetta hefði verið skemmtilegasti tími lífs hennar: að sjá ömmubörnin sín hlaupa um húsið; að geta keypt handa þeim leikföng.“
– Kanye West
Þess má einnig geta að Ellen DeGeneres, Lewis Hamilton og Tiffandy Haddish verða einnig gestir Letterman í annarri seríu þáttarins. Hér fyrir neðan er svo brot úr viðtali Letterman við fyrrum forseta Bandaríkjanna, Barack Obama (frá fyrstu seríunni).