Fréttir
Sagan segir að fyrirbærið open mic night (þar sem hljóðneminn er öllum opinn) eigi rætur að rekja til fjórða áratugs síðustu aldar; þá kom hópur þeldökkra nemenda og fræðimanna—mest megnis frá nýlendum eða yfirráðasvæðum Frakklands—sér saman á te- og kaffihúsum Parísar í því augnamiði að ræða hugmyndir og verk höfunda sem kenndir voru við endurreisnina í Harlem.
Forsprakkar hópsins voru systurnar Paulette og Jane Nardal, háskólanemendur í París frá Martinique, en fyrrnefndar samkomur leiddu til stofnunar Negritude hreyfingarinnar, sem hafnaði nýlendustefnu Evrópu, aðhylltist sósíalískri hugsjón og gerði afrískri menningu hátt undir höfði.
Næstkomandi föstudag 5. apríl efnir plötusnúðurinn DJ Bricks—einnig þekktur sem Bróðir BIG—til sambærilegs kvölds (sumsé, open mic night) á Boston í miðbæ Reykjavíkur. Þá stíga rappararnir Kilo, M.V. Elyahsyn úr tvíeykinu Regn., Sdóri og Helgi A (Landaboi$) á svið og er aldrei að vita hvort að rímur þeirra komi til með að geyma háfleygar skírskotanir í endurreisnina í Harlem.
Nánar: https://www.facebook.com/events/338655140093071/
Samkvæmt DJ Bricks verður hreinræktuð boom bapp rapptónlist á boðstólunum. Um ræðir fyrsta kvöldið af öðrum væntanlegum í tónleikaseríu undir stjórn Bricks á Boston:
„Ekki er um hefðbundna tónleika að ræða heldur eru hljóðnemarnir látnir ganga manna á milli og ekkert ákveðið fyrirfram, eingöngu leikið eftir eyranu.
Á hverju kvöldi verður „open mic“ og hverjum sem er frjálst að grípa í hljóðnemann.
Við hvetjum alla rappara, söngvara, hljóðfæraleikara og annað tónlistarfólk til að vera með.“– DJ Bricks
Hér fyrir neðan eru svo nokkur vel valin lög eftir ofangreinda rappara.