Viðtöl
SKE: Eflaust tengja flestir við texta lagsins „Light Of New Day“ eftir hljómsveitina GRINGLO—en í textanum biður lagahöfundur sjálfan sig afsökunar. Ástæðan fyrir afsökunarbeiðninni er sú að hann, lagahöfundurinn, hefur, eftir á að hyggja, reynst sjálfum sér sjálfsöruggur fram úr hófi: of viss í sinni trú að þau kænskubrögð sem hann galdri fram í dag reynist heillavænleg í stríði morgundagsins.
„So many times I said sorry /
To myself for being sure /
That the strategies I conjure up today /
Will do good for tomorrow’s war /“
Lífið er oftast, eins og einhver sagði, samansafn mislukkaðra áætlanna—og er því ágætt að tileinka sér það viðhorf sem lagahöfundur ákveður að temja sér síðar í textanum, sumsé að baða sig í ljósi nýs dags og treysta innsæinu. Í ljósi hugulsemi fyrrnefnds textabrots kemur það kannski ekki á óvart að hljómsveitin GRINGLO leggi mikið upp úr þýðingarmikilli textagerð—og því ber að fagna. Í tilefni útgáfu plötunnar „From Source“ sem kom út í dag (6. júlí), heyrði SKE í hljómsveitinni og forvitnaðist um plötuna, framtíðina og ýmislegt annað.
Viðtal: RTH
Viðmælandi: GRINGLO
Ljósmynd: Diana Sus
SKE: Til hamingju með plötuna. Hvað var þetta langt ferli?
GRINGLO: Við byrjuðum í rauninni að
hljóðrita plötuna seint í fyrra. Fyrstu tvö lögin, Dawn og Light
Of New Day eru tekin upp á síðasta ári en síðan kláruðum við
restina jafnt og þétt frá janúar til júní. Upprunalega ætluðum við að gefa hana út snemma í vor en þar sem þetta er
frumraun okkar í plötugerð þá var ýmislegt sem við þurftum að
læra á meðan á ferlinu stóð og margt sem tók örlítið lengri tíma en
við reiknuðum með.
SKE: Hvers vegna þessi titill: From
Source?
GRINGLO: Meiningin á bak við nafnið verður kannski ljósari þegar seinni partur verksins kemur út á næsta ári
en hann mun heita To the Ocean. Það er hægt að skilja þetta
á fleiri en eina vegu. Augljósa útskýringin er auðvitað að
þetta sé saga af á sem rennur frá uppsprettu og til sjávar. Ef
maður notar aðeins hægra heilahvelið þá má túlka þetta sem
ferðalag sálar í gegnum hringrás lífsins eða sem sköpunarferli
listamanns sem leitar inn á við að innblæstri og fæðir síðan
sköpunarverk sitt út í efnisheiminn. Áin er táknmynd fyrir svo
margt að það væri hægt að halda lengi áfram en það er best
að skilja eitthvað eftir fyrir ímyndunaraflið.
SKE: Eru tónleikar í vændum?
GRINGLO: Við spilum með hljómsveitinni Darth
Cayote í menningarhúsinu Hofi 12. júlí. Síðan verðum við hérna
heima um Verslunarmannahelgina og eftir það liggur leið okkar á
Fiskidaginn mikla á Dalvík. Síðan er aldrei að vita hvort það
dettur eitthvað inn í millitíðinni. Bókunarsíminn er alla vega
opinn!
SKE: Hvaðan kemur nafnið, GRINGLO?
GRINGLO: Upprunalega notuðumst við við nafnið Gringlombian sem er listamannsnafn Ivans, söngvara og
gítarleikara hljómsveitarinnar. Þetta byrjaði allt sem persónulegt verkefni hans árið 2015. Síðan þegar verkefnið stækkaði og tók á sig mynd sem hljómsveit fannst okkur ráð að breyta nafninu aðeins. Fólk var líka í smá erfiðleikum með að bera þetta fram; okkur fannst
það reyndar lúmskt skemmtilegt fyrst um sinn en það var kannski
ekki vænlegt upp á markaðssetningu að gera.
(Fyrir mjög forvitna þá er Gringlombian orð sem Ivan bjó til úr setningunni Gringo de Colombia, sem er tilvitnun í ættfræðilegan
uppruna hans.)
SKE: Það er einhver Bob Dylan fílíngur
í sumum laganna. Eruð þið miklir Dylan-menn?
GRINGLO: Það er svo sem enginn af okkur ástríðufullur Dylan áðdáandi þó svo að við höfum hlustað á
allt það helsta frá honum og berum að sjálfsögðu mikla
virðingu fyrir honum sem tónlistarmanni, textasmið og áhrifavald.
Ivan er reyndar mikið gefinn fyrir að hlusta á sænska
tónlsitarmanninn Tallest Man on Earth en hann er einmitt
undir miklum áhrifum frá Bob Dylan. Þar sem Ivan er laga og
textasmiður sveitarinnar er ekki ósennilegt að eitthvað hafi
smitast yfir.
SKE: Þið gáfuð út myndband við
lagið Light Of New Day í byrjun árs, sem er einmitt að
finna á plötunni. Eru fleiri myndbönd væntanleg?
GRINGLO: Já, klárlega. Við erum að leggja
drög af því að skjóta myndband fyrir lagið Stranger sem er fjórða lagið á plötunni. Handritið er nú þegar klárt
og við ætlum að reyna að byrja tökur sem fyrst.
SKE: Hvað aðgreinir GRINGLO frá öðrum
hljómsveitum?
GRINGLO: Við leggjum mikið upp úr
þýðingarmikilli textagerð. Textarnir fjalla oftar en ekki um
málefni, samfélagsleg eða andleg, sem okkur finnst vert að tala
um. Markmiðið frá degi eitt hefur alltaf verið að lyfta
einstaklings- og samvitundinni upp á hærra stig í gegnum upplifun
á tónlist.
SKE: Eitt lag sem allir verða að heyra?
Hvers vegna?
GRINGLO: Ef við þyrftum að velja eitt lag af
plötunni þá yrði það örugglega lagið Through the Doubt.
Textinn hefur mikið tilfinningalegt gildi fyrir okkur og okkur
finnst heildarhljómurinn afskaplega vel heppnaður—enda fengum
við til liðs við okkur frábært tónlistarfólk við gerð
lagsins. Hjörleifur Örn Jónsson spilaði inn helling af rosalega
flottu klassísku slagverki; Andrea Gylfadóttir söngkona spilaði á
selló fyrir okkur; og Kristján Edelstein, gítarsnillingur, setti sitt
fingrafar á lagið með alls konar gítarhljóðum og hljóðbrellum á
hápunkti lagsins.
SKE: Eitthvað eitt sem eflaust fáir
vita um GRINGLO?
GRINGLO: Fyrr á árinu hélt Karlakór
Akureyrar, Geysir—einn elsti karlakór landsins—stóra vortónleika
þar sem Ivan spilaði tvö af lögum plötunnar ásamt
strengjakvartett, píanóundirleik og tæplega 40 manna karlakór!
SKE: Kostir og gallar við Akureyri?
GRINGLO: Kostirnir eru nú auðvitað veðrið
og vinalega andrúmsloftið. Svo er líka margt gott að fæðast í
tónlistarlífinu á Akureyri. Tónlistarsenan var búin að vera í
svolitlum dvala en með komu námsbrautarinnar Skapandi tónlist í Tónlistarskóla Akureyrar eru spennandi hlutir farnir að gerast
og mikið af ungu hæfileikafólki fólki að stíga fram. Gallinn
fyrir iðið tónlistarfólk er kanski sá að það eru ekki margir
staðir til að spila á, en ef maður er sniðugur er alltaf hægt
að finna lausnir og skapa tækifæri.
SKE: Eitthvað að lokum?
GRINGLO:
Platan er komin.
Hún er gjöf okkar til þín.
Þetta er Haiku.
Við þökkum öllum
sem veittu okkur hjálparhönd við gerð plötunnar; við erum ykkur
ævinlega þakklátir (og já, fylgist með okkur á FB og
Instagram fyrir nýjustu fréttir!)
Facebook: https://www.facebook.com/gringlo/
Instagram: https://www.instagram.com/gringloband/
(SKE þakkar GRINGLO kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að hlýða á EP plötuna From Source. Hér fyrir neðan er svo myndbandið við lagið Light of New Day ásamt ítarlegum upplýsingum um fyrrnefnda plötu.)
Platan er styrkt af Hljóðritasjóð Íslands.
Upptökustjórar: Sigfús Jónsson og Haukur Pálmason
Hljómblöndun og lokavinnsla: Haukur Pálmason.
Meðlimir: Ivan Mendez(gítar, söngur) Guðbjörn Hólm (bassi, bakraddir), Guðjón Jónsson(hljómborð,píanó), Arnar Scheving(Trommur, slagverk).
Gestahljóðfæraleikarar í hljóðveri: Andrea Gylfadóttir (Selló), Haukur Pálmason (slagverk), Hjörleifur Örn Jónsson (klassískt slagverk), Kristján Edelstein (Rafmagnsgítar), Gert-Ott Kuldparg (sópran sax), Edda Guðný Örvarsdóttir(Tenór sax), Helgi Svavar Þorbjörnsson (Horn), Þorkell Ásgeir Jóhannsson (Básúna), Þórhildur Örvarsdóttir (vocal producer).