Auglýsing

„Lífshamingjan felst ekki í mössuðum lærum.“ – Hildur

Söngkona, pródúsent og áhugakona um broddgelti

SKE: Lífið er stundum eins og gamall sovéskur þjóðvegur, niðurníddur, ósamfelldur, bugðast hann í gegnum óbyggðir Síberíu eins og niðurskorinn snákur. Vissulega tapar maður stundum áttum, horfir í kringum sig undrandi, einsamall og niðurlútur – líkt og síðasti krypplingurinn á jörðinni: „Hvert var ég aftur að fara?“ spyr maður sjálfan sig, er fjöllin og guðirnir þegja eins og mállausir risar. Á þesskonar stundum er örugglega fínt að eiga Hildi að, en tvö vinsælustu lög hennar, Bumpy Road (Holóttur vegur) og I’ll Walk With You (Ég geng með þér), gefa ekki einvörðungu til kynna að hún skilji eðli vegarins: Leiðin upp er líka leiðin niður, og öfugt (Heraklítus) – heldur geyma þau einnig ákveðna staðfestu: Hildur virðist staðráðin í því að ganga með vinum sínum í gegnum fjöll og firnindi, hryggð og gleði. Það er góður eiginleiki. En hvað um það … Í síðustu viku lagði SKE nokkrar vel til fundnar spurningar fyrir Hildi og deilum nú með lesendum: Gjörið svo vel.

Sæl, Hildur. Hvað er helst í fréttum?

Hæ! Það er allt frábært að frétta, mér er ógeðslega illt í líkamanum eftir æfingu í Mjölni, var að borða sjúklega góðan cashewhnetukjúkling og ég er að vinna í nettu lagi, þannig að jább, ég er góð.

Hvaða tónleikar stóðu upp úr í sumar – og af hverju?

Vá, það er erfitt að velja! En ég held ég verði að segja þegar ég spilaði eftir gleðigöngu Reykjavík Pride við Arnarhól, það var gjörsamlega ruglað. Ég hafði ekki spilað fyrir fullan Arnarhól áður og það er frekar tryllt tilfinning að sjá svona marga að horfa og syngja með! Ég var líka í sérsaumuðum jakka fyrir tilefnið sem leit út eins og diskókúla á sterum og mér leið mjög töff.

Ef þú yrðir að lýsa sjálfri þér eins og húsgagni í vönduðum IKEA bæklingi – hvernig myndi sú frásögn hljóða?

Nett hilla (því það er frekar líkt Hildur) með gríðarmiklu notagildi. Lífgar upp á hvaða herbergi sem er.

Við höfum heyrt að þú sért „livin’ that flöskuborð-á-B5 lifestyle.“ Er það rétt?

Já, ég get staðfest að það hafi gerst. Þetta var mjög gott grín hjá vinahópnum mínum um Verslunarmannahelgina. Við keyptum flöskuborð og spömmuðum svo samfélagsmiðlana með myndum um “that lifestyle” og allir héldu að við værum að missa vitið. En gott grín er alltaf gott grín, hvort sem það inniheldur flöskuborð á B5 eða hund í slopp.

Telur þú að tónlist sé skotspónn hugans?

Ókei í fyrsta lagi þurfti ég að googla “skotspónn” til að vera viss um að ég skildi spurninguna. En, uuu, ég segi bara já. Má ég fá aðra spurningu?

Er lífsleiðin einn holóttur vegur (a.k.a. bumpy road)?

100%. Ég kláraði textann við þetta lag eitt kvöld í maí og missti svo vinnuna nokkrum dögum seinna. Ef það er ekki til þess að staðfesta trúverðugleika þessa texta þá veit ég ekki hvað. Svo er reyndar lífið búið að leika við mig eftir þá holu – þannig að já, lífið er upp og niður en þegar maður dettur niður er eina leiðin aftur upp. Og svo er ég ekkert að spá í hvar næsta hola gæti verið eða vorkenna mér ef eitthvað leim gerist. Mæli með þeim hugsunarhætti.

Uppáhalds tilvitnun / „one-liner“?

Not all who wander are lost. Það á frekar vel við um líf mitt.

Hvað hugsar þú um þegar þú ert andvaka kl. 4 um nótt og það er rigning úti?

Þá er ég örugglega að semja eða útsetja lag í huganum. Sem gerir það að verkum að ég verð spennt að gera það í alvöru og get ennþá síður sofnað. Þetta er mjög heimskulegur vítahringur. Svo á ég það líka til að hugsa um sirka allt sem ég vilji framkvæma næstu þrjá mánuði og hvernig ég vilji gera það. Líka mjög heimskulegt kl. 4 um nótt.

Sérðu eftir því að hafa hætt í frjálsum íþróttum?

Neinei, ég var komin með það mössuð læri að þetta var komið gott. Svo fékk ég ansi marga Íslandsmeistaratitla og keppnisferðir erlendis í reynslubankann. Þetta kenndi mér margt og gaf mér risa keppnisskap, en mig langaði aldrei að verða atvinnuíþróttamaður, tónlistin togaði of mikið í.

Ef þú gætir valið fyrirsögn þessarar greinar, hver yrði fyrirsögnin?

Lífshamingjan fæst ekki í mössuðum lærum.

SKE þakkar Hildi kærlega fyrir spjallið.

Viðtal: Ragnar Tómas
Viðmælandi: Hildur
Ljósmyndir: Birta Rán

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing