Auglýsing

Lítill heimur

Í gær var mannskæðasta skotárás í sögu Bandaríkjanna framin þegar hinn 29 ára gamli Omar Mateen myrti 50 manns á næturklúbbi í Orlando. Mateen, sem var víst fæddur í New York, bjó í Port St. Lucie í Flórída þar sem hann starfaði sem öryggisvörður í íbúðarhverfinu og golfklúbbinum PGA Village

en þar var ég staddur fyrir tveimur vikum síðan í sumarfríi ásamt kærustu minni.

Til þess að komast inn í hverfið þurfa menn að keyra í gegnum öryggishlið. Einn daginn tekur ungur glaðlyndur maður á móti okkur í hliðinu og biður um skilríki. Ég rétti honum ökuskírteinið og hann hverfur inn í skálann til þess að fletta okkur upp í kerfinu. Þegar hann kemur til baka horfir hann hugsi á bleika ökuskirteinið og spyr mig hvaðan ég er.

„From Iceland,“ segi ég.

„Iceland!“ segir hann, undrandi á svip.

„Icelandic strongman, yes? Big, Icelandic strongman!?“ hann bendir á mig og hlær, hnyklar svo vöðvana líkt og Jón Páll og opnar hliðið.

Ég og kærastan horfum á hvort annað og brosum: „Þessi var skondinn.“

Í þann mund sem við keyrum í gegnum hliðið sveigir hjólreiðamaður framhjá skálanum og inn í hverfið. Ég furða mig á þessu „falska“ öryggi og hef orð á því við kærustu mínu: „Hver sem er kemst inn í þetta hverfi svo lengi sem hann sé ekki akandi. Bandaríkin furðulegur staður.“

Nokkrum dögum síðar keyrum við aftur í gegnum öryggishliðið og sami maður gengur út úr skálanum.

„Hey, it’s the big Icelandic strongman, again!“ segi ég og ætla að taka upp þráðinn að nýju en uppsker lítil sem engin viðbrögð. Hann virðist ekkert muna eftir mér, tekur bara við ökuskírteininu og röltir inn í skálann þögull. Svo gengur hann út og opnar hliðið, svolítið fýldur á svip.

„Ekki eins hress í þetta skiptið,“ segi ég við kærustuna.

Í morgun byrjaði svo dagurinn líkt og allir aðrir dagar: Ég lagaði kaffi og las fréttirnar á netinu.

Skotárásin í Orlando var mér efst í huga. Ég smellti á frétt sem birtist á heimasíðu Unilad undir yfirskriftinni First Photos of Gunman Released as his Dad Reveals Motive sumsé, fyrstu myndirnar af árásarmanninum birtar. Ég las í gegnum greinina og skoðaði myndirnar.

Ég hafði séð þennan mann áður, en átti svolítið erfitt með að átta mig á því hvar.

Í greininni kom fram að faðir Mateen, Mir Seddique, taldi að ástæðan á bakvið árásina ætti sennilega rætur að rekja til hommahaturs; tveimur mánuðum fyrir árásina hafði Omar Mateen séð tvo karlmenn kyssast í Miami. Sú sýn gerði hann æfan.

Ég skoðaði fleiri greinar og einhvers staðar stóð að Omar Mateen hafði keypt 9 mm hríðskotarbyssu ásamt .223 caliber árásarrifil í Port St. Lucie í lok maí þar sem hann starfaði. Sem öryggisvörður. Í PGA Village.

Þetta var hann, öryggisvörðurinn.

Síðan þá hef ég gengið með skrítna tilfinningu í maganum. Það er svolítið sérkennilegt að hugsa til þess að maður hafi átt í samskiptum við verðandi fjöldamorðingja nokkrum dögum áður en hann stóð fyrir mannskæðustu skotárás í sögu Bandaríkjanna og að sá maður hafi gengið með skammbyssu í beltinu og átt að heita „öryggisvörður.“

Hugur minn er hjá aðstandendum og fórnalömbum árásarinnar. Vonandi að Bandaríkin vakni til vitundar og taki endanlega fyrir það að hatursfullir, geðsjúkir menn geti rölt út í búð og keypt sér hríðskotabyssur.

Ást. Friður. Kærleikur.

Orð: RTH

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing