Ljósmynd: Kristján Tómas Árnason
Á laugardaginn var hin árlega Menningarnótt Reykjavíkur haldin. Menningarnótt er, eins og einhver sagði, eina kvöld ársins þar sem Íslendingar eru fleiri að tölu en útlendingar á götum Reykjavíkur, sem veitir manni óneitanlega einkennilega hugarfró: að vita það að ef einhver geðsjúklingur myndi byrja að stráfella múginn í sendiferðabíl myndi maður að minnsta kosti andast í örmum samlanda sinna, í stað þess að engjast um í sárum sínum innan um óhljóð þýskra ferðamanna: „mein Bein, mein Bein, aß das Auto mein Bein.“ (Google Translate)
Ég hóf kvöldið heimafyrir.
Er ég hellti viskí yfir heilann minn sem fyrirbyggjandi verkjadeyfir gegn miskunnarleysi tilvonandi mannmergðar, sötraði móðir mín hvítvín og hældi mér fyrir það hversu hreinleg íbúðin var; að hugsa sér að ég, sem fyrir nokkrum árum síðan gat ekki með nokkru móti ráðið fram úr auðskiljanlegu myndleturstáknum þvottavélar, héldi nú heimili eins og hver önnur miðaldra húsmóðir. Móðir mín gaf það meira að segja í skyn að heimilisplönturnar geisluðu af grænum hraustleika. Ég velti þessari ólíklegu framþróun fyrir mér er faðir minn drakk bjór og talaði á mælskan hátt um íslenska náttúruna á meðan systir mín og frændi hlustuðu með þeirri kurteisislegri eftirtekt sem hefur ávallt einkennt Níelsson ættina.
„Já, þetta er áhugavert,“ sögðu þau eins og tvö falleg lömb.
Er við gengum yfir Ingólfstorg, blasti við okkur höfuðeinkenni Menningarnætur, sumsé, ölvun íslenskra ungmenna á almannafæri. Að fylgjast með þeim var eins og að fylgjast með háöldruðum, holdugum manni afklæðast í sturtuklefanum í Vesturbæjarlauginni: viðbjóðslegt en óhjákvæmilegt. Einhver smáhaus þröngvaði systur mína til samtals við Hlöllabáta og er ég beið eftir því að hún losaði sig úr sjálfheldunni hleraði ég samtal tveggja unglinga. Þeir voru að ræða aðdáanlegu árásargirni vinar þeirra. Samtímis kenndi ég í brjóst um þá og hataði – en fyrr en var bar síðarnefnda tilfinningin mig ofurliði og til þess að lina eigin sársauka langaði mig helst að beina þeim að útgangi tilvistarinnar með aðstoð vélsagar.
„Vrúúúúúm.“
(Segður mér: Af hverju fær raðmorðingjamenningin ekki að njóta sín á kvöldi sem þessu?)
Í Hljómskálagarðinum söng Valdimar – en hann hafði, fyrr um daginn, ferjað jafngildi fimm skólastráka á herðum sínum meðfram tíu kílómetra löngu malbiksfljóti og virtist hann enn fljóta í skýjum hlaupavímunnar. Ég færði þungann á milli fótanna og hlustaði á meðan hljómsveitin renndi í gegnum katalóg þekktra laga. Lokalagið, Yfirgefinn, gat af sér þyrpingu gæsabóla á upphandleggjum mínum og tilhneigingin til þess að „mosh-a“ helltist yfir mig. En vitaskuld „mosh-aði“ ég ekki. Þess í stað ákvað ég að veita tilfinningum mínum útrás með því að bíða þangað til að lagið kláraðist og klappa síðan lófunum saman í hægagangi líkt og ég væri enskur aðalsmaður að fagna sigursælum Póló knapa.
„Með miklu heimilishaldi fylgir mikil og fyrirsjáanleg, jafnframt aumkunarverð, ró.“ – Ben Parker
Svo varð ég svangur.
Fyrir tilviljun gengum við framhjá eina matarvagninum í borginni sem var ekki umvafinn mannfólki (matargerð er jú menning, nema hugsanlega á Texas borgurum skv. athugasemdum ferðamanna á Trip Advisor, en þar er talað um „intestinal terrorism.“); en þetta var tímabundið ástand. Um leið og ég hafði lokið við að panta teygði röðin sig út á götu sem langur borgaralegur mannormur. Ég pantaði mér kjúklinga crepes með sinnepi og tókst mér að hesthúsa máltíðinni án þess þó að bletta skeggbroddana með óaðlaðandi gulum lit. Ég tók eftir vinkonu minni í röðinni og heilsaði henni. Á meðan sonur hennar leitaði að ímynduðum verum í þeim falsveruleika sem liggur á mörkum snjallsímans og raunheimsins (sumsé, Pokémon), leitaði ég að veruleikanum á mörkum vímunnar og edrúleikans (sumsé, Ljóðlist).
„Always be drunk,“ sagði Baudelaire – og mér finnst það ágætis fyrirmæli.
Stuttu síðar skildum við systur mína á Subway en hún hafði mælt sér mót við víðförulan Kanadabúa – og ég hef engan áhuga á Kanadabúum. Kanadabúar eru of réttsýnir til þess að vera skemmtilegir; nema kannski Rob Ford, sem var of skemmtilegur til þess að vera réttsýnn. Með kossi og knúsi kvöddum við systur mína og röltum við, ég og frændi minn, á Arnarhól til þess að fara á trúnó. Eins og oft áður gerði ég gat á hjartað mitt og leyfði tilfinningunum að flæða – tjáði mig síðan með miklum handahreyfingum eins og dragdrottning í látbragðsleik. Vitaskuld hlustaði frændi minn á mig með sömu kurteisislegri eftirtekt og hann hafði sýnt föður mínum fékk ég samviskubit yfir því að vera misnota edrúleika hans á svona svívirðilegan hátt.
„Fullt fólk er fífl,“ hugsaði ég með sjálfum mér um sjálfan mig er Bubbi gólaði um sjálfan sig með sjálfum sér í bakgrunninum.
Á svölunum á Brandenburg, á meðan á flugeldasýningunni stóð, byrjaði ég síðan að velta fyrirbærinu „Menningarnótt“ fyrir mér: Einhver sagði að menning væri það sem við gerum en aparnir gera ekki. Samt finnst mér eins og við Íslendingarnir séum sérstaklega apalegir á Menningarnótt. Flestir vinir mínir voru blekaðir sem smokkfiskar og höguðu sér eins og illa innrættir simpansar: „We hate Asians,“ sagði vinur minn við Chicago búa af asískum uppruna á Mikkeller sem tók þessum léttvæga rasisma með mestu ró, brosti bara og svaraði: „Me too!“
Sjálfur endaði ég eins og afrískur mannapi, mállaus á Nonna Bita – með kjaft yfir seinlæti bátaframleiðslunnar.
„Ertu að fokkin djedda í mér!?“ öskraði ég á Nonna sjálfan sem er svo vel kunnugur þeirri vitleysu sem vellur upp úr þreyttum, hífuðum Íslendingum að næturlagi að hann brosti og setti upp svip eins og Markús Aurelíus á vígvellinum.
„The universe is change; our life is what our thoughts make it.„
Segður mér: Er ekki ákveðin menning í ómenningunni?
Orð: Friðrik Níelsson