Auglýsing

Mikilvægi þess að draga sig í hlé frá áreiti hins daglega lífs

Áhugavert

Nýverið var Cal Newport, prófessor í tölvunarfræði við Georgetown háskólann í Bandaríkjunum, gestur hlaðvarpsþáttarins Hidden Brain þar sem hann ræddi bók sína Deep Work: Rules for Focused Success in a Distracted World sem kom út í fyrra.  

Í bókinni ræðir hann meðal annars þá venju nokkurra áhrifaríkra hugsuða að draga sig í hlé frá mannlegu samfélagi – oftast nær á tiltölulega afskekkta staði – með það fyrir stafni að ná dýpri einbeitingu. Newport vill meina að þessi tiltekni vani hafi síðar meir leitt til mikilsmetinna verka.

Þannig byggði sálfræðingurinn Carl Jung lítinn kastala í grennd við Zurich, sem hann nefndi Bollingen Turninn, þar sem hann einbeitti sér að ævistarfi sínu; rithöfundurinn Mark Twain leitaði athvarfs frá áreiti hversdagsins til þess að sitja við skriftir í litlum kofa á lóð sinni í Connecticut (eiginkonan hans þurfti að blása í lúður til þess að boða hann í mat); og J.K. Rowling, höfundur Harry Potter bókanna, leigði sér svítu á Balmoral hótelinu í Edinburgh í því augnamiði að einbeita sér að sjöundu bók seríunnar, Harry Potter and the Deathly Hallows

Notar Newport hugtakið Deep Work (Djúp vinna) til þess að lýsa umræddri viðleitni og segir að slík vinnubrögð fyrirfinnast vart í okkar nútímaheimi, þ.e.a.s. fæstir þeirra sem sinna störfum sem krefjast hugsunar í dag ná þesslegri einbeitingu:

„Jafnvel þegar við höldum að við séum að einbeita okkur að einu tilteknu verkefni þá erum við samt sem áður að athuga tölvupóstinn eða símann á fimm til tíu mínútna fresti. Þetta hefur afar neikvæð áhrif á skilvirkni og einbeitingu hugans; það að fara úr einu í annað er eitt og sér afar slæmt.“

– Cal Newport

Máli sínu til stuðnings segir Newport að það sé tiltölulega auðvelt að sýna fram á neikvæð áhrif þess að fara úr einu í annað á virkni heilans; vísar hann meðal annars í rannsókn eftir viðskiptafræðinginn Sophie Leroy þar sem flókin þraut var lögð fyrir tvo mismunandi hópa þátttakenda: fyrri hópnum gafst tækifæri til þess að einbeita sér að þrautinni án alls áreitis – en hinum síðari ekki. Verulegur munur var á frammistöðu þessara tveggja hópa (sumsé, síðari hópnum gekk talsvert verr að leysa þrautina). 

Bætir Newport því við að flestir þeir einstaklingar sem sinna störfum sem krefjast hugsunar í dag gera það undir sams konar skilyrðum og síðari hópur þátttakendanna í ofangreindri rannsókn. 

„Flest skynjum við að athyglin okkar er of dreifð og það leiðir til kvíða og þreytu. Hins vegar tökum við þessu ekkert of alvarlega – en þetta er, að mínu mati, miklu meira aðkallandi; ef þú hefur lifibrauð þitt af hugsun þá þarftu að huga að virkni heilans.“

– Cal Newport

Að mati Newport skiptir það engu máli hvort að viðkomandi sé að berjast fyrir Pulitzer verðlaununum eða sé einfaldlega að sinna sínu starfi sem blaðamaður, þýðandi eða smiður (o.s.frv.): Allir þeir sem sinna störfum sem krefjast hugsunar eiga að láta virkni heilans sér varða vegna þess að djúp vinna hefur ekki einvörðungu áhrif á gæði vinnunnar heldur einnig á hamingju einstaklingsins sem sinnir vinnunni. 

Áhugasamir geta hlýtt á viðtal Shankar Vedantam, umsjónarmanns hlaðvarpsins Hidden Brain, við tölvunarfræðinginn Cal Newport hér fyrir neðan:

https://www.npr.org/2017/07/25/…

Fyrirlestur Cal Newport á TED x Tysons:

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing