Viðtöl
SKE: Næstkomandi 29. september stendur viðburðafyrirtækið Overground Entertainment fyrir Hip Hop tónleikum á Gauknum þar sem danski rapparinn og taktsmiðurinn Sicknature stígur á svið ásamt einvalaliði íslenskra rappara. Í tilefni þess heyrði SKE í Birki Kristjáni Guðmundssyni—betur þekktur sem Bróðir BIG—forsprakka Overground Entertainment, og spurði hann spjörunum úr.
Viðtal: RTH
Viðmælandi: Birkir Kristján Guðmundsson
SKE: Já, góðan daginn. Hvað segir Bróðir BIG þá?
Bróðir BIG: Allt glimrandi gott, mikil tilhlökkun fyrir stóra kvöldinu!
SKE: Næstkomandi 29. september blæs Overground Entertainment til heljarinnar Hip Hop veislu á Gauknum—en hvað geturðu sagt okkur um Overground Entertainment?
BB: Overground Entertainment er tónleikabatterý sem varð til því ég og nokkrir fleiri vildum efla íslenska Hip Hop menningu. Okkur fannst of lítið í gangi í underground boom bapp senunni og vildum breyta því. Við reynum að halda tónleika reglulega þó okkur hafi ekki tekist að halda nema ca. eina á ári hingað til—en við erum þó hvergi hættir.
Facebook-síða viðburðar: https://www.facebook.com/event…
SKE: Á tónleikunum stígur rapparinn og taktsmiðurinn Sick Nature úr Snowgoons á svið. Fyrir þá sem þekkja ekki til kauða—hver er það?
BB: Sicknature er danskur taktsmiður og rappari. Hann er hluti af þýska taktsmíðateyminu Snowgoons en þeir hafa bæði gefið út safnplötur í samstarfi við nafntogaða listamenn innan Hip Hop senunnar sem og smíðað heilu plöturnar fyrir listamenn á borð við M.O.P. og Onyx. Sicknature hefur einnig gefið út nokkrar plötur undir eigin formerkjum og unnið mikið með Ill Bill úr Non Phixion.
SKE: Hefur Sick Nature sem listamaður einhverja sérstaka þýðingu fyrir þig?
BB: Já, algjörlega. Ég uppgötvaði Snowgoons sem polli. Þetta var á svipuðum tíma og ég uppgötvaði Torrent—sem opnaði auðvitað algjörlega nýjan heim fyrir mig tónlistarlega séð. Á sama tíma var ég að kynnast tónlist R.A. The Rugged Man, Celph Titled, Ill Bill og fleiri listamanna sem tilheyrðu þessari harðkjarnastefnu Hip Hopsins. Sicknature og Snowgoons voru auðvitað að smíða takta fyrir þá alla, þó svo að ég hafi ekki endilega vitað það þá. Þessi harðleikni („agression“) sem þessir rapparar höfðu hreif mig og varð til þess að ég byrjaði að skrifa rapptexta sjálfur (þó ég hafi nú alveg verið Hip-Hop haus síðan ég var átta ára eða jafnvell fyrr). Ég hef í raun bara verið að komast að því núna, eftir að hafa talað við Sicknature í gegnum netið, hversu mikið af því efni sem ég hef haldið upp á í gegnum tíðina er úr hans smiðju.
SKE: Hvernig kom það til að OE ákvað að flytja Sick Nature til landsins?
BB: Í raun flytur Sicknature sjálfan sig inn. Hann hafði samband við mig á Facebook og spurði hvort ég gæti komið tónleikum á fót fyrir hann. Flugið og gistinguna bókar hann sjálfur og hann kemur fram án endurgjalds—alveg eins og hitt listafólkið sem stígur á svið til að styðja við Sicknature, RVK/CPH tengslin og Hip Hop menninguna.
SKE: Besta lag Sick Nature—sem rappari? Sem pródúsent?
BB: Sem rappari þá eru nokkur mjög góð lög á nýju plötunni hans Copenhagen Kaiju, t.d. bara titillag plötunnar. Á eldri plötunni hans Nature of the Contaminated eru líka svakaleg samstarfslög, eitt með Celph Titled og eitt með Ill Bill og Vinnie Paz.
Sem pródúser þá er a.m.k. frægasta lagið hans Seven með Army of the Pharaohs en hann hefur pródúsað svo ótrúlega mikið fyrir svo ótrúlega marga að það er nánast ómögulegt að svara þessari spurningu. Play Ya Part ft. Ill Bill og Doap Nixon af Labor Union plötunni hans King Syze úr AOTP hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér.
„Það kostar ekki krónu inn og það verður meðal annars frír bjór fyrir þá sem mæta snemma. Húsið opnar kl. 20:00.“
– Bróðir BIG
SKE: Hvað kostar inn og hvenær hefjast tónleikarnir?
BB: Það kostar ekki krónu inn og það verður m.a.s. frír bjór fyrir þá sem mæta snemma. Húsið opnar kl. 20:00.
SKE: Ásamt Sick Nature stígur glás af íslenskum röppurum á svið, þar á meðal Cell7, Kilo, Class B, Þriðja hæðin og Valby Bræður—en ætlar Bróðir BIG ekki að handleika hljóðnemann?
BB: Að sjálfsögðu. Ég sé líka um DJ-mennsku svo það verður nóg að gera hjá mér.
En svo eru líka margir svakalega góðir á dagskránni sem eru þó lítið þekktir eins og t.d. Morgunroði, sem mér finnst vera einn allra besti íslenski rappari allra tíma; og Nicky J sem var áður afbragðs Hollywood leikari og lék í Lost, 24 og fleiru en í dag býr hann í Reykjavík og er uppistandari og rappari með kómísku yfirbragði. Svo erum við með Einn úr Tónum úr Ruslinu sem er algjör neðanjarðargoðsögn og fleiri mjög góða. Valby Bræður þurftu því miður að afboða komu sína en okkur tókst að sannfæra Vivid Brain að hlaupa í skarðið fyrir þá.
SKE: Hvað aðgreinir góða rapptónlist frá slæmri rapptónlist?
BB: Það fer auðvitað eftir smekk hvers og eins en fyrir mitt leyti þá skiptir textinn öllu máli. Ég nenni ekki að hlusta á rapp sem inniheldur karlrembu, kvenfyrirlitningu eða ultra-materíalisma eins og svo margt rapp einkennist af í dag. Ofnotkun á Hi-höttum fer líka oft í taugarnar á mér og getur oft skemmt fyrir mér annars góð lög. En gott, alvöru Hip-Hop inniheldur frið, ást, samstöðu, visku og skilning (peace, love, unity, knowledge, wisdom, understanding)—án þessara grunngilda Hip-Hop menningar vantar alla sál í dæmið.
SKE: Eitthvað að lokum?
BB: Ég vil bara hvetja fólk að mæta á þessa tónleika. Þetta er einstakur viðburður: Erlendur listamaður í hæsta gæðaflokki, 12 önnur íslensk atriði í þokkabót, frítt inn og frír bjór. Þetta gerist ekki mikið betra.
(SKE þakkar Bróður BIG kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til þess að láta sjá sig á tónleikunum.)