Í gær gaf rapparinn MCMG (sem heitir réttu nafni Guðmundur Sverrisson) út myndband við lagið Alright á Youtube (sjá hér fyrir ofan). Lagið pródúseraði B-LEO og var það Þorbergur Erlendsson sem leikstýrði myndbandinu.
Í samtali við SKE í gærkvöldi sagði rapparinn að hlustendur mættu vænta meira efnis á komandi misserum:
„Þetta er fyrsta lagið og myndbandið sem ég sendi frá mér – en það er hellingur á leiðinni. Ég hef verið í samstarfi við The Swede úr 808 Mafia og þar af leiðandi er íslensk náttúra í ákveðnum forgrunni, þ.e.a.s. til að vekja athygli erlendis.“
– MCMG
Fyrir þá sem ekki þekkja til 808 Mafia þá er þetta bandarískt taktsmiðateymi sem samanstendur af rúmlega tuttugu taktsmiðum. Hópurinn hefur pródúserað fyrir listamenn á borð við Waka Flocka Flame, Gucci Mane, Future, Drake, Migos, o.fl.
Hér fyrir neðan er lagið Moves sem taktsmiðurinn Fuse úr 808 Mafia pródúseraði fyrir Íslandsvininn Big Sean.