Rogue One: A Star Wars Story verður frumsýnd í kvikmyndahúsum víðsvegar um heiminn 16. desember, en myndin segir frá hópi ólíklegra hetja sem leiða saman hesta sína til þess að ræna teikningum af Dauðastirninu (The Death Star).
Myndin mun skarta Felicity Jones, Diego Luna, Riz Ahmed, Ben Mendelsohn, Jiang Wen, Donnie Yen, Forest Whitaker, Mads Mikkelsen, Alan Tudyk og Jonathan Aris. Leikstjóri myndarinnar er Gareth Edwards og handritið skrifuðu þeir Chris Weitz og Tony Gilroy.
Verður þetta fyrsta sinn í sögu Star Wars þar sem tónskáldið John Williams sér ekki um tónlistina. Í hans stað kemur Alexadre Desplat.
Í lok stiklunnar bregður fyrir stuttu skoti af illmenninu Darth Vader og ef marka má viðbrögð aðdáenda á netinu þá er það helsta aðdráttarafl myndarinnar. Darth Vader hefur ekki komið við sögu Star Wars kvikmynda frá því að myndin Revenge of the Sith kom út árið 2005.
Rogue One gerist rétt á undan kvikmyndinni A New Hope sem kom út 1977.