Laugardaginn síðastliðinn (11. maí) gáfu bandarísku tónlistarmennirnir Anderson .Paak og Flying Lotus út myndband við lagið More (sjá hér að ofan).
Myndbandinu leikstýrði hinn japanski Shinichiro Watanabe sem er hvað þekktastur fyrir að hafa leikstýrt sjónvarpsþáttunum Cowboy Bebop, Samurai Champloo og Space Dandy.
Lagið More verður að finna á plötunni Flamagra sem Flying Lotus hyggst gefa út næstkomandi 24. maí. Um er að ræða sjöttu hljóðversplötu Flying Lotus og mun platan geyma hvorki meira né minna en 27 lög. Þá munu fjölmargir listamenn koma við sögu á plötunni, þar á meðal Little Dragon, Shabazz Palaces, Denzel Curry, Tierra Whack, George Clinton og Solange.
Þess má geta að erindi Anderson .Paak í laginu More geymir tilvísun í lagið Da Art of Storytellin’ (Part 1)—“Somebody hit me the other day for a rendezvous—eftir bandaríska tvíeykið Outkast, sem og tilvísun í lagið They Reminisce Over You (T.R.O.Y.)—“When they reminisce over you, my God“—eftir Pete Rock og CL Smooth.
Þá verður lagið Fire Is Coming einnig að finna á plötunni Flamagra en Flying Lotus gaf út myndband við lagið í apríl (David Lynch kemur við sögu í laginu).