Fréttir
Í gærkvöldi (15. júní) var blað brotið í sögu tónlistar þegar rapparinn Jay-Z var fyrstur rappara til þess að vera vígður inn í frægðarhöll lagasmiða (Songwriters Hall of Fame) en athöfnin fór fram í New York í Bandaríkjunum.
Var það enginn annar en fyrrverandi forseti Bandaríkjanna Barack Obama sem hélt sérstaka ræðu í tilefni innvígslunnar og eru flestir á því að hún hafi verið ansi vel heppnuð (sjá hér fyrir ofan). Í ræðu sinni tjáði Obama hlustendum að hann og Jay-Z eigi ýmislegt sameiginlegt:
„Ég er á þeirri skoðun að ég og Jay-Z skiljum hvorn annan; enginn þeirra sem kynntist okkur þegar við vorum ungir menn hefði búist við því að við værum þar sem við erum í dag.“
– Barack Obama
Songwriters Hall of Fame (SHOF) var sett á laggirnar árið 1969 og síðan þá hafa fjölmargir lagasmiðir verið heiðraðir með inngöngu inn í höllina, þar á meðal Bob Dylan, Henry Mancini, Marvin Gaye, Michael Jackson, Elton John of fleiri.
Samkvæmt reglum SHOF koma aðeins til greina þeir lagasmiðir sem hafa starfað í 20 ár eða lengur en Jay Z gaf út sína fyrstu plötu, Reasonable Doubt, árið 1996.
Þess má einnig geta að Madonna, Cat Stevens og George Michael voru einnig tilnefnd í ár en fengu ekki inngöngu.