SKE kynnir fyrsta Djasspistil sumarsins …
„Ég verð ævinlega tortrygginn í garð föðurlandsástarinnar, sérstaklega þeirri tegund föðurlandsástar sem einkennist af öfgafengnu stolti og hömlulausu háreysti – satt að segja má ég vart koma auga á flöktandi fána án þess að hnykla hnotubrúnu augabrúnunum í kuldalegri vantrú. Ég var ekki alltaf svona, en ég er svona í dag, og verð svona alla daga framvegis – að svo best ég veit. Uppspretta þessarar tortryggni er nefið, sem virðist nema einhvern vott af frumstæðri ættbálkartryggð í hvert skipti sem þjóðhollustan brýst út á meðal vina eða venslamanna. Þetta er þannig vottur sem maður nemur einvörðungu eftir að hafa varið þónokkrum tíma í sögulegt og heimspekilegt heilabrot (nefið byrjar að krumpast við minnsta tilefni); sérhvert tilfelli veifandi fána, gólandi þjóðsöngs eða þjóðlegs gleðskaps er, í huga bókelsks bezzerwizzer eins og mér – ekkert annað en myrkur styrjaldarforleikur í sinfóníuleik sögunnar. Segðu mér: Er heimurinn ekki ætíð á barmi styrjaldar? … Í gær, hins vegar, var þaggað niður í þessum skynsamlegu grunsemdarröddum í hálfa aðra klukkustund; samheldnin skók mig líkt og suðurlandsskjálftinn, og ég, rallhálfur á tíu-hæða stillans – féll ofan í hyldýpi ættjarðarástarinnar um leið og einlægur íþróttaþulur skrækti hástöfum við sigurmark íslenska landsliðsins gegn Austuríkismönnum. Hjartað sló í takt við 330,000 önnur hjörtu. Ef hér væri her væri nafn mitt nú á registurinu og gengi ég um götur Reykjavíkur með byssusting og bláa álpahúfu, bersögull í garð kvislinga og heigla.
Ég er heimsborgari – en íslenskur heimsborgari.“
– Ragnar Tómas