Auglýsing

Óður til Gunnars Nelson

Gunnar Nelson er þjóðhetja. Hann er þjóðhetja sökum þess að þegar það kemur að því að misþyrma ógeðþekkum útlendingum í litlum járnbúrum – er enginn Íslendingur færari en Gunnar Nelson.

Forseti Bandaríkjanna, Barack Óbama, kallar hann GUNNtanamo Bay – og fordæmir aðgerðir hans ítrekað í erlendum fjölmiðlum (Dónald Trump hefur, hins vegar, ekkert á móti Nelson.)

Sálfræðilega þenkjandi menntamenn halda því fram að Gunnar Nelson veiti litlu ríki í Norður-Atlantshafinu þarfa útrás fyrir eigin hernaðarlegum hvötum og er þetta með öllu rétt: Gunnar Nelson er íslenski herinn, sjóherinn og flugherinn – og þegar hann heldur leggur til atlögu horfum við á eftir honum með hrukkuðum augabrúnum og krepptum hnefum.

Ef litið er yfir feril Gunnars Nelson kemur það í ljós að þessi eins manns her hefur ekki einvörðungu sigrað virðulegar þjóðir á borð við England, Úkraínu og Brasilíu, heldur hefur hann einnig unnið bug á fyrrum stórveldum kalda stríðsins, Ameríku og Rússlandi – og það án allra vandkvæða.

Utanríkisráðherra Íslands hefur verið svo hugfangin af færni Nelson að hún hefur íhugað að senda hann til Sýrlands sem eina erindreka utanríkisþjónustu landsins svo að hann geti kveðið niður ríkjandi ringulreið með sínu alkunnu „rear-naked choke.“

Bashar al-Assad yrði borinn fram sem kjúklingasalat í Damascus daginn eftir.

Ef Gunnar Nelson byði sig fram til embættis Forseta Íslands yrði hann gerður að keisara og tolleraður upp og niður Laugaveginn af gagnteknum almúganum. Stuttu síðar yrði hann svo kutaður á tröppum Bessastaða af Davíði Oddssyni og Bjarna Benediktssyni á meðan Guðni Th. lýsti atburðinum af mikilli yfirvegun í beinni á RÚV og tjáði áhorfendum að þetta væri einsdæmi í sögu íslenskrar pólitíkur.

„Et tu, Oddsson? Essassú, Óli?“ – Caesar Nelson

En Nelson er jafnframt gæddur öðrum eiginleika sem sementsbindur orðspor hans við sögubækur vorrar íslensku þjóðar, nefnilega óviðjafnanlegri hugarkyrrð; nokkrum mínútum fyrir orrustu röltir aðmíráll Nelson inn í hringinn líkt og að hann sé að lalla um gólf Krónunnar, nývaknaður upp úr löngum blundi, í leit að tylft eggja.

Ég veit þetta vegna þess að ég hef séð til hans í Krónunni og get fullyrt að það er enginn sjáanlegur munur á milli Gunnars Nelson í Krónunni og Gunnars Nelson í búrinu.

Hann er eins og freðinn Markús Árelíus.

Í maí sigraði Gunnar Nelson rússann Albert „Einstein“ Tumenov. Hann fékk sex milljón króna bónus. Conor McGregor kallaði hann hvíta apann.

Ég kalla hann Napóleon Sesar Górillus.

Gunnar Nelson er hinn íslenski Akkiles – „and he’s got heels of steel.“

Orð: Friðrik Níelsson

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing