Hallgrímskirkja er Róbert Wadlow íslenskra kirkna. Hún er 74 metrar á hæð – þriðja hæsta bygging Íslands – og þar sem hún hvílir á hæsta holti borgarinnar, er hún sérstaklega áberandi. Í raun má segja að hún gnæfi yfir Reykjavíkurborg eins og Guð gnæfði yfir mannkyninu forðum – fyrir tilkomu vísindanna og hvimleiðu trúleysingjanna.
Framkvæmdir hófust 1945 og verkinu lauk ekki fyrr en fjörtíu og einu ári seinna, eða árið 1986. Á þeim tíma var Bob Marley (1945 – 1981) fæddur og dáinn; hefði Bob Marley haft einhvern áhuga á kirkjunni, hefði maður geta sagt, í gríní, að Marley hefði beðið tilgangslausri bið (Waited in Vain) eftir lyktum byggingarinnar. En því miður getur maður það ekki; Bob Marley var alveg sama um Hallgrímskirkju – og eru þesskonar orðaleikir því óraunhæfir.
Fyrir utan það að vera hávaxin, er Hallgrímskirkja líka furðuleg. Hún var valin önnur skrítnasta bygging heims á vefsíðunni www.strangebuildings.com og undarleiki kirkjunnar stafar aðallega af sérstæðu kirkjuturnsins. Arkitekt kirkjunnar, Guðjón Samúelsson, skreytti turninn með steyptum súlum sem áttu að líkja eftir íslensku stuðlabergi. Fræðimenn hafa nú tekið upp á því að kalla þetta Guðlaberg #flipp.
Kirkjan heitir í höfuðið á Hallgrími Péturssyni, holdsveikum manni sem skrifaði sálma, og er hann jafnframt eini Íslendingurinn sem hefur sálgað tófu með ferskeytlu (sjá þjóðsögu).
Fyrir framan kirkjuna má sjá styttu af Leifi Eiríkssyni, sem starir vonlaus út í loftið, sjáanlega hryggur yfir þeirri staðreynd að hann er landkönnuður áfastur við steyptan stafn ímyndaðs skips.
Íslendingar hafa löngum deilt um ágæti kirkjunnar: að mati arkitekta er hún ljót; að mati þjóðhollra manna er hún falleg; en að mínu mati á það sama við Hallgrímskirkju og allt annað – drekki maður nokkra bjóra verður hún sífellt fallegri.
Ef þér finnst Hallgrímskirkja ljót, þá ertu bara ekki nógu drukkinn.
Orð: FN