SKE: Mér þykir leitt að tilkynna þér, lesandi góður, að í augum flestra blaðamanna ert þú ekkert nema vísifingur, lítill ómerkilegur vísifingur með smelligetu. Taktu eftir því, næst þegar þú tekur í höndina á blaðamanni, að blaðamaðurinn forðast augnsamband, gjóir augum laumulega í átt að vísifingri þínum og á erfitt með að skila þér höndinni. Í raun liggur afar einföld skýring á bakvið þessa hegðun: Blaðamanninum dreymir um að eignast þennan vísifingur – að ná honum á sitt vald – svo að hann geti treyst því að sérhver grein sem hann riti uppskeri smell, læk og deilingu frá þessum sama fingri. En þannig hugsa ég ekki. Ég veit að á bakvið hvern vísifingur er manneskja, manneskja sem hefur tilfinningar og drauma og sál. Ég skrifa fyrir manneskjur en ekki vísifingur … en ekki í dag. Í dag bognaði ég undan þunga markaðsins og ákvað að höfða til vísifingra. Ég hitti Ólaf Arnalds á Kaffi Mokka og lagði fyrir hann einkum markaðsvænar spurningar – og hann tók því bara vel. Hann tók því bara vel sökum þess að hann, Ólafur Arnalds, er einstaklega viðfelldinn og hugljúfur maður.
Viðtal: Ragnar Tómas
Viðmælandi: Ólafur Arnalds
Ljósmyndir: Allan Sigurðsson
(Ég geng inn á Mokka á Skólavörðustígnum og fæ mér sæti. Ég bíð. Stuttu seinna gengur Ólafur Arnalds inn, hress, pantar sér kaffi, ásamt brauðsneið með marmelaði, og sest síðan andspænis mér. Og þarna sitjum við: Hann, hæfileikaríkur tónlistarmaður með BAFTA verðlaun á hillunni– og ég, hæfileikasnauður rithöfundur með nokkrar medalíur frá Víðavangshlaupi Hafnarfjarðar í kassa inni í geymslu.)
SKE: Mér datt í hug, þar sem ég verð seint talinn markaðslega þenkjandi maður, þó svo að eigendur blaðsins séu stundum að ota mér í þá áttina, að spyrja þig einungis spurninga sem leiða (vonandi) til mjög „clickable“ (smelluvænna) svara. Ég tók því saman 10 flokka sem kunna að fanga athygli almúgans. Markmiðið er að þetta viðtal fari „viral“…
Ólafur Arnalds: Prufum þetta.
SJÁLFSRÝNI
SKE: Sjálfsrýni selur … aldrei fyrr í sögu mannkynsins hafa jafn margir tónlistarmenn verið uppi. Hvað telur þú þig hafa umfram aðra? Af hverju ertu betri en þeir?
Það er ákveðið heilkenni sem farsælir tónlistarmenn deila, þ.e.a.s. því meiri farsæld sem þeir njóta því óöruggari verða þeir. Þeir byrja að upplifa sjálfa sig sem loddara, það eru rannsóknir sem sýna fram á þetta. Ég tel mig ekki hafa neitt umfram neinn annan. Ég á marga vini sem hafa lært tónlist og eru miklu klárari en ég – en enginn hlustar á þá. Svo er það ég, sem hætti í tónlistarnámi á fyrsta ári, og geri eitthvað sem nýtur vinsælda. Ef ég ætti að benda á eitthvað þá er það kannski visst innsæi. Ég mundi aldrei segjast vera hæfileikaríkari en næsti maður.
SKE: Þetta er áhugavert.
Barði sagði einhvern tímann að það mikilvægasta við það að vera góður tónlistarmaður er að hafa góðan smekk; þú þarft að vita hvaða hugmyndum þú átt að henda og hvað þú átt að nota. Það er kannski það sem ég hef.
ILLDEILUR
SKE: Illdeilur og ágreiningur fanga yfirleitt athygli almúgans … þú hefur sagt að þú sért mikill aðdáandi íslensks rapps og þar er oft mikið um hið svo-kallaða „beef“ (illdeilur). Það er kannski minna af því í nýklassíska heiminum …
Það er mesta furða …
SKE: Er það rétt?
Í þessum nýklassíska heimi hafa komið upp ýmis mál sem, að mér finnst, eiga rætur sínar að rekja í ákveðin kynslóðaskipti. Þetta eru eldri karlar (allt karlar) sem hafa unnið í þessum geira í 30, 40 ár og finnast þeir, þar af leiðandi, eiga þessa stefnu. Svo koma menn eins og ég eða Nils Frahm, úr pönkinu, og á nokkrum árum verðum við að einhvers konar „phenomenon,“ sem er eitthvað sem þeim tókst ekki að verða. Þetta skapar togstreitu og gerir það að verkum að þeim finnst við alltaf vera að stela af þeim.
SKE: Svo það er talsvert um „beef“ í nýklassíska heiminum?
Núna um daginn frétti ég að einn af þessum körlum hafði verið að rægja mig við kollega mína – hann ásakaði mig um hugmyndastuld vegna þess að ég hafði verið að leika mér við þá hugmynd að hljóðblanda píanó á óhefðbundinn hátt, sem var eitthvað sem hann hafði víst verið að gera líka. Ég ákvað að hringja í hann og maðurinn var gjörsamlega brjálaður. Ég hafði ekki hugmynd um að hann hafði verið að vinna með svipaða hugmynd. Samtalið endaði vel en maður upplifði þessa togstreitu mjög sterkt. Okkar kynslóð er líka undir áhrifum frá Hip-Hop-inu þar sem sampl-menningin er við lýði. Fyrir mér er höfundarrétturinn ekki eins heilagur; ég verð stoltur þegar ég heyri einhvern sampla tónlistina mína.
(Blaðamaður hlær.)
Áður fyrr leit ég á þessa menn sem starfsbræður mína og talaði mjög vel um þá í fjölmiðlum. Einu sinni kom ég meira að segja fram í heimildarmynd um einn af þessum mönnum þar sem ég var að upphefja hans tónlist, en nú hef ég áttað mig á því að það eru ekki allir jafn miklir vinir og ég hélt. Þegar samkeppni eða öfund kemur upp þá virðast flestir gleyma því að við erum öll í sama liðinu. Mér þykir það leiðinlegt því ég legg sjálfur mikið uppúr því að upphefja kollega mína og styðja við þá. Það er stundum sagt að maður eigi aldrei að hitta átrúnaðargoðin sín; maður lítur upp til einhvers og svo kynnist maður viðkomandi og hann er óvart fáviti.
Það er stundum sagt að maður eigi aldrei að hitta átrúnaðargoðin sín; maður lítur upp til einhvers og svo kynnist maður viðkomandi og hann er óvart fáviti.
– Ólafur Arnalds
(Ólafur hlær.)
AFREK
SKE: Persónuleg afrek eru vænleg til vinnings þegar fyrirsagnir eru annars vegar … ég sá að þú tvítaðir um daginn að þú hafir nýlega þurft að sækja um nýtt vegabréf, þar sem allar síðurnar voru fylltar. Þú leist á þetta sem eitt af þínum helstu afrekum. Hvað hefur þú komið til margra landa?
Þetta var meira að segja bara þriggja-ára vegabréf, en þetta er góð spurning. Það eru ekki mörg lönd eftir á listanum. Ég á reyndar Miðausturlöndin eftir og Afríku. Draumurinn er að ferðast til Írak eða Íran. Þetta eru einir af þeim fáum stöðum sem ég hef virkilega reynt að heimsækja. Ég hef unnið í því að fara til Íran í þrjú ár. Samkvæmt tölfræðinni á Facebook er stór hluti aðdáenda minna frá Íran – sem kemur á óvart. En ég hef komið til flestra landa í Evrópu, Asíu og Ameríku …
SKE: Hefur sýn þín á Íslandi breyst?
Já, maður upplifir smæð Íslands mjög sterkt í dag. Vandamálin hér eru fremur lítilvæg í samanburði við þau vandamál sem aðrir glíma við. Svo sér maður líka hversu einangruð við erum og hversu miklir rasistar við getum verið. Það er ekki vottur af rasisma eftir í mér eftir að hafa ferðast svona víða. Maður hefur séð svo mikið og veit að fólk er eins mismunandi og það er margt. Kynþáttur er bara pólitískt hugtak sem var fundið upp á 19. öldinni.
(Ég reyni að segja eitthvað gáfulegt um Sosíal Darwinismann en kem því illa frá mér. Ólafur segir mér að Mexíkóar hafi verið skilgreindir sem hvítt fólk alveg þangað til að það hentaði ekki Bandaríkjamönnum.)
Ég mundi vilja stofna ferðasjóð handa rasistum; í hvert skipti sem samfélagið kæmist í tæri við rasista ætti að senda viðkomandi í heimsreisu: „Hér er ein milljón í íslenskum krónum: Farðu í heimsreisu og hættu þessu!“
Ég mundi vilja stofna ferðasjóð handa rasistum; í hvert skipti sem samfélagið kæmist í tæri við rasista ætti að senda viðkomandi í heimsreisu: „Hér er ein milljón í íslenskum krónum: Farðu í heimsreisu og hættu þessu!“
– Ólafur Arnalds
(Við hlæjum.)
Samfélagið yrði miklu betra: Minningarsjóður Ólafs Arnalds.
HÚMOR
SKE: Húmor er alltaf vinsæll á markaðnum … lagið þitt Ljósið var upprunalega samið sem auglýsingastef fyrir baðkar. Var þetta íslenskt fyrirtæki?
Nei, þetta var fyrir erlent fyrirtæki að nafni Kohler. Ég geri ávallt mikið úr þessari sögu, þó svo að þesskonar verkefni rati reglulega upp á borðið hjá mér. Þetta var reyndar fyrsta höfnunin. En mér finnst alltaf gaman að segja frá því að lagið sem varð kveikjan að mínum ferli hafi verið hafnað af bandarískum baðkarsframleiðanda.
(Við hlæjum.)
Þetta er mjög fyndið í ljósi klisjunnar sem fylgir oft íslenskri tónlistarsköpun, þ.e.a.s. að við séum öll svo innblásin af íslenskri náttúru o.s.frv. Svo er þetta lag, Ljósið, innblásið af bandarísku baðkari. Samið í skítugri rútu. Í Englandi.
(Ólafur hlær.)
Ég á aðra svona sögu: Þegar ég var 18 ára og nýútskrifaður úr menntaskóla, sótti ég um hjá fullt af skólum, meðal annars Guild Hall í London, Royal Northern College í Manchester og Berkeley í Bandaríkjunum. Ég komst ekki inn neins staðar nema í Listaháskólanum hérna heima – en hætti á fyrsta ári. Síðan, fimm árum seinna, var ég ráðinn til þess að semja fyrir sinfóníuna í Royal Northern College; beðinn um að vera gesta prófessor í Guild Hall; og fenginn til þess að kenna „master class“ í Berkeley.
(Ólafur hlær.)
Og ég hef áréttað þessa höfnun í hvert skipti sem ég heimsæki þessa skóla.
FRÆGT FÓLK
SKE: Markaðurinn er alltaf hungraður í frægt fólk … hver er frægasta manneskjan sem þú hefur hitt?
Ég hef borðað með Demi Moore. Hún var ágæt, en svolítið fáskiptin. Ég var snemma á ferlinum undir verndarvæng Ellen Barkin, sem var mjög fræg á níunda áratugnum. Í hvert skipti sem ég fór til New York gisti ég í húsinu hennar. Hún var gift einum af fimm ríkustu mönnum heims, skildi svo við hann og varð, þar af leiðandi, ein af ríkustu konum heims.
Ég hef borðað með Demi Moore. Hún var ágæt, en svolítið fáskiptin.
– Ólafur Arnalds
(Ólafur segir mér frá því að Ellen Barkin hafi einu sinni dregið hann í partý í New York, þar sem hann hitti mjög furðulegan karlmann í jakkafatajakka og bleikum náttfötum. Hann spurði þennan mann margra heimskulegra spurninga í viðleitni sinni til þess að átta sig á því hvað þessi maður gerði.)
Að lokum dró Ellen mig til hliðar og sagði: „Þetta er Julian Schnabel! Viltu hætta þessu!“. Ég var þó engu nær um hvað hann gerði og fannst bara svolítið skrýtið þegar hann vildi fá mig í heimsókn til þess að prófa píanóið sitt.
(Ólafur hlær.)
Ég og Kate Bosworth vorum einu sinni vinir, áður en hún varð svona fræg. Við hittumst reglulega þegar ég var í L.A. Kate var, og er, mjög indæl en eftir að hún varð svona fræg vildi hún aldrei fara neitt án þess að vera á einhverjum V.I.P. gestalista. Það var orðið mjög erfitt að hittast í kaffibolla – og því slitnaði fljótt upp úr vinskapnum.
SKE: Helvítis Hollýwood, maður.
ALMENN LEIÐINDI
SKE: Annað mjög markaðsvænt viðfangsefni er almenn leiðindi … þú hefur farið í mörg viðtöl: Hvert er versta viðtalið sem þú hefur farið í?
Mér finnst alltaf verst þegar fólk reynir að hljóma of gáfulega. Það eru ekki endilega mjög djúpar pælingar á bakvið alla þá tónlist sem maður semur; stundum er maður bara að setja saman fallega tóna. Stundum þegar maður hlustar á verkið aftur, seinna, þá kvikna einhverjar hugmyndir. En mér finnst óþolandi að fara í viðtöl þar sem spyrillinn reynir að rýna mjög djúpt í tónlistina …
(Ég vitna í síðasta viðtal Ólafs við Grapevine, en þar var ákveðinn vottur af þessum intellektúalisma. Ólafur segir að þetta hafi verið lærlingur að taka sitt fyrsta viðtal. Við sammælumst svo um ágæti Grapevine.)
Stundum finnst manni eins og spyrillinn hafi bara hent einhverjum orðum saman. (Ólafur hermir eftir hégómafullum erlendum blaðamanni): „the beauty of music is existential.“ Ég velti því fyrir mér hvort að viðkomandi viti hvað hann sé að segja eða hvort að hann hafi einfaldlega fundið þessi orð í einhverju heimspekiritinu.
(Við ræðum viðtalið við DJ Ívar í þættinum Konfekt, þar sem mjög vitsmunalegur þáttastjórnandi lagði afar háleitar spurningar fyrir fyrrnefndan plötusnúð: „Telur þú að tónlist sé skotspónn hugans?“ Við hlæjum.)
Maður hefur lent í þessu sjálfur. Hvernig á ég að svara þessu? Það eru, í raun, þrír möguleikar: Ég get verið algjör fáviti og neitað að svara þessu; ég get byrjað að bulla eitthvað í kringum spurninguna; eða ég get bara svarað já eða nei. Ég fer yfirleitt þá leið. Það er mjög fyndið viðtal við Sigur Rós þar sem þeir svara löngum og flóknum spurningum á mjög stuttan hátt. Þetta var hræðilegur spyrill sem var engan veginn undirbúinn.
EINLÆGNI
SKE: Einlægni selur … þú sendir frá þér mjög gott tvít um daginn: „Ætlaði að hringja í bróður minn. Skrifaði Afi í staðinn fyrir Ari. Mundi svo að ég á engan afa og fór að gráta #þynnkan.“
(Ólafur hlær.)
Ég er svo viðkvæmur þegar ég er þunnur. Ég fór ekki að gráta í alvörunni, en ég var smá klökkur.
SKE: Hvenær gréstu síðast?
Hmmm … Það er mjög langt síðan að ég grét síðast. Ég hef það ekki alveg í mér. Ég vildi að ég gæti það …
Það er mjög langt síðan að ég grét síðast.
– Ólafur Arnalds
SKE: Erum við að tala um ár eða mánuði?
Fleiri ár. Síðast þegar ég grét var það vegna sambandsslita, þó svo að ég hafi átt frumkvæðið. Þegar ég sagði vini mínum svo frá því fór ég að gráta – það hefur eflaust verið meira sjokk en eitthvað annað. Þar á undan, var það örugglega þegar amma dó, 2010 eða 2011. Mér finnst það ótrúlega skrýtið … ég græt samt alveg þegar foreldrar mínir deyja.
SKE: Sjálfur er ég afskaplega meyr maður og tárast á furðulegustu augnablikum. Þetta versnar með árunum …
(Við hlæjum.)
Ég tek þetta út öðruvísi. Ég verð alveg jafn leiður og meyr en þetta brýst fram í öðrum myndum.
LÖGREGLUMÁL
SKE: Almúgin hefur ávallt mikinn áhuga á lögreglumálum … hefurðu einhvern tímann verið handtekinn?
Nei. Einu sinni þegar ég var undir lögaldri rauf ég opinbert útivistarbann sem var í gildi fyrir unglinga. Ég var á tónleikum og laug því að móður minni að þeir væru búnir klukkan 11 – þegar þeir voru, í raun, búnir klukkan 10. Mamma var á leiðinni að sækja mig þegar lögreglan stingur mér inn í hið svokallaða Foreldrahús. Þetta var fyrir tíð farsímans, þannig að við náðum engu sambandi hvort við annað. Þetta var mjög fyndið í ljósi þessi hversu góðir foreldrar, foreldar mínir eru; þau hafa alið af sér afar vel heppnuð börn. Öll systkynin hafa lokið mastersnámi og vegnar vel. Nokkrum vikum seinna fær móðir mín bréf frá Barnaverndarstofu …
(Ólafur hlær.)
Hún opnar bréfið og hlær. Síðar hringdi hún í Barnaverndarstofu og spurði: „Er ykkur alvara?”
KYNLÍF
SKE: Kapítalisminn elskar kynlíf… í viðtali við ESPN sagði rapparinn Action Bronson að kynlífið hafi tekið stakkaskiptum eftir að hann varð frægur. Er einhver munur á post-BAFTA kynlífinu og pre-BAFTA kynlífinu (Ólafur Arnalds vann BAFTA verðlaunin fyrir tónlist sína við þættina Broadchurch)?
(Við hlæjum mjög dátt.)
Ég hef ekki pælt í því. Athyglin hefur vissulega aukist. En ég held að ég þurfi að svara þessu neitandi.
RELEVANS
SKE: Það er alltaf hagnaður í því að vera „relevant“ … er Kári Stef sturlaðasti Íslendingurinn í dag?
Já, algjörlega – en ég elska hann svo mikið. Sástu Grapevine greinina um hitting Kára og Dave Eggers?
SKE: Nei …
Blaðamaður Grapevine fylgdi Dave Eggers á fund við Kára Stef. Þeir hittast í hádegismat og það líður ekki á löngu fyrr en Kári byrjar að rífast við rithöfundinn vegna þess að hann neitar að láta af hendi eigið DNA, Kára til mikils ama (foreldrar Dave Eggers dóu hvor tveggja úr krabbameini).
(Við hlæjum.)
https://grapevine.is/mag/articles/2015/10/09/decodi…
Kári Stefáns er sturlaðasti Íslendingurinn – en á svo frábæran hátt.
– Ólafur Arnalds
Kári Stefáns er sturlaðasti Íslendingurinn – en á svo frábæran hátt. Ég elska að fylgjast með honum. Hann lætur gott af sér leiða og er algjör hugsjónarmaður.
SKE: Það er samt svo fyndið að Kári, sem er mikill raungreinaheili og vísindamaður, geti verið svona ofboðslega ómálefnalegur í rökræðum; hann á það til að vaða strax í persónulegar árásir.
En það er bara ákveðið „click bait.“ Hann væri ekki búinn að safna 70.000 undirskriftum ef það væri ekki fyrir rifrildri hans og Sigmundar Davíðs.
(Þarna kristallast pælingin á bakvið þetta viðtal.)
SKE: Þetta snýst allt um „click-in.“
(SKE þakkar Ólafi Arnalds kærlega fyrir spjallið og mælir með tónleikum Kiasmos á Sónar Reykjavík 2016, en þar kemur Ólafur Arnalds fram ásamt Janus Rasmussen. Einnig mælir SKE með kapítalismanum, markaðnum og öllu sem því fylgir … samt ekki. Lesendur eru manneskjur .)