Nafn, Viðurnöfn, Gælunöfn?
Ég heiti Kött, er Hrannar- og Sigþórsson og stundum kallaður Kisi eða Atli. Mér er í raun sama, kallið mig heyþú ef ykkur sýnist.
Aldur?
Þrjátíuogsjö ára síðan í mars.
Hvaðan kom nafnið Kött Grá Pje?
Það laust mig á æðislega tilvistarfeminísku kraftfylleríi norður á Akureyri. Læðan er grá, Pje er svo aftur einskonar ættarnafn.
Hvað hugsar þú um þegar þú ert andvaka kl. 4 um nótt og það er rigning úti?
Sætabrauð, kökur og þvíumlíkt. Ömurlega, tilvistarlega þanka hef ég helst í sól og fallegu veðri. Ég verð ógurlega dauf í þungri umferð, hún er depremerandi fyrirbrigði og ég fyrirlít hana! Ég vildi gjarnan hafa fúnkerandi vængi.
Ef þú gætir lifað þig inn í einn sjónvarpsþátt, hvaða þáttur yrði fyrir valinu?
Þessu er auðsvarað: Dharma & Greg. Ég væri Dharma/Kitty, skrýtin og sniðug og hamingjusöm fyrir heila þjóð.
Á hvað ertu að hlusta þessa dagana og hvað ertu EKKI að hlusta á?
Ég hef dálítið verið að hlusta á Debussy og Young Thug upp á síðkastið. Ég tek Debussy-tímabil en Young Thug er mér alltaf nærri. Annað hef ég ekki hlustað á um hríð.
Hvers konar eldri borgari ætlar þú að verða?
Hamingjusamur. Það er í raun allt sem ég þrái.
Uppáhalds heimspekingur? Af hverju?
Ég er hrifinn af hugmyndum Norðmannsins Péturs Zapffe. Við deilum lífssýn að nokkru, svartsýni og efasemdum um tilkall mannsins til jarðarinnar. Af því leiðir að Schopenhauer höfðar líka til mín. Þó ekki að öllu leyti, hann var um sumt óttalegur drullupungur. Af Íslendingum hefur dr. Helgi Pjeturss fallið mér best, en ég er samt ósammála honum í öllum grundvallaratriðum. Hann var bara svo frjór, og yndislegur penni.
Hvenær hlóstu svo mikið að það fossaði mjólk úr nefinu á þér?
Ég man ekki til þess að það hafi gerst, ég drekk helst ekki mjólk nema þegar ég er miður mín, en ég hlæ stundum mikið að elsku Kālī minni. Hún hagar sér oft hlægilega og alveg sérstaklega þegar hún tekur frekjuköst.
Uppáhalds brandari/tilvitnun?
Stétt með stétt. Mér þykir vænt um þennan frasa. Kannski frussaði ég mjólk þegar ég heyrði hann fyrst. Ég er uppalinn af kommúnistum sjáðu til, en meinhæðnum kommum.
Hvað er best í lífinu?
Ást, vitanlega. Hún er allt.