Nafn, Viðurnöfn, Gælunöfn?
Saga Garðarsdóttir, allir nema Jón Mýrdal segja bara Saga, en hann kallar mig Göggu Garðars eða Gaga Garðars. Það er svo eitt geggjað ættarnafn sem ég gæti tekið upp, ég held að það sé Sívertssen. Saga Garðarsdóttir Sívertssen. Það er týpa sem fólk biður um lán hjá.
Aldur?
28.
Hver er þín harmsaga?
Bloggið mitt. Ég var með blogg í menntaskóla á slóðinni harmsaga.blogspot.com ég þori ekki að lesa það núna. Ég er svo viss um að ég hafi ekki skilið internetið þá og sagt öllum öll leyndarmálin mín.
Hvað hugsar þú um þegar þú ert andvaka kl. 4 um nótt og það er rigning úti?
Ég hugsa um plöntur og lífríki jarðar. Ef ég myndi til dæmis vökva plöntu með djús – væri það svipað og að gefa svíni pylsu. Er siðferðislega rétt að gefa Aloe Vera plöntu Aloe Vera? Eru plöntur jafn siðferðislegar og við ýmindum okkur? Hvað ef plöntur eru bara algjörir hálfvitar með craving í KFC?
Ef þú gætir lifað þig inn í einn sjónvarpsþátt, hvaða þáttur yrði fyrir valinu?
Arrested Development eða Sögur úr Andabæ
Á hvað ertu að hlusta þessa daganna og hvað ertu EKKI að hlusta á?
Ég er alltaf að hlusta á skandenavíska þjóðlagatónlist og Prince. Núna er ég líka mjög heit fyrir Justin Bieber og Vagina Boys. Ég hlusta ekkert á kántrí og leiðinlegasta lag í heimi er Tunglið tunglið taktu mig.
Hvers konar eldri borgari ætlar þú að verða?
Bara hugguleg eldri kona sem á alltaf fimm þúsund kalla og mola handa barnabörnunum. Og búa á grísku smáeyjunni Santorini þar sem ég væri þrefaldur bocciameistari.
Hvenær hlóstu svo mikið að það fossaði mjólk úr nefinu á þér?
Ég drekk ekki mjólk og hlæ ekki mikið. Mér finnst lífið alltof stutt til að eyða því í látalæti og mjólkurvörur.
Er þetta grín, án djóks?
Grín er ekki fyndið. Í alvöru.
Hvað er best í lífinu?
Það besta í lífinu er að vera í sleik. Sleikur getur alltaf gert vont betra.